Barnaverndarþjónusta Garðabæjar

  • 112 barnanúmerið

112 er barnanúmerið

Mikilvægt er að koma strax á framfæri áhyggjum af velferð barna og öryggi þeirra hvort sem er vegna hegðunar annarra eða hegðunar þess sjálfs. Óska má eftir því að tilkynning sé undir nafnleynd gagnvart þeim sem verið er að tilkynna.

Ef þú ert hrædd/ur eða telur að þú eða annað barn sért í hættu hringdu þá í númer Neyðarlínunnar 112. Ef þú hefur áhyggjur getur þú líka hringt í 1717 hjálparsíma Rauða krossins eða haft samband við netspjallið í 1717.is.

Einnig er hægt að senda tilkynningu til barnaverndarþjónustu Garðabæjar á netfangið barnavernd@gardabaer.is eða hringja í síma 525-8500 á opnunartíma þjónustuvers Garðabæjar. Utan opnunartíma, á kvöldin og um helgar, er hægt að fá samband við bakvakt barnaverndarþjónustu í gegnum Neyðarlínuna í síma 112. 

Líta ber á tilkynningu til barnaverndarsem beiðni um stuðning og aðstoð fyrir barnið og fjölskyldu þess. Starfsfólk barnaverndarþjónustu leggur áherslu á að gæta fyllstu nærgætni í samskiptum við börn og foreldra og sýna þeim virðingu og trúnað.

Fagaðilar geta sent gögn með Signet Transfer á barnaverndarþjónustu Garðabæjar með því að smella hér.

Barnaverndartilkynning

Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:

  • búi við óviðunandi uppeldisaðstæður
  • verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
  • stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Einnig skal tilkynna ef grunur er um að refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni eða af því.

Markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Börn eru börn samkvæmt lögum fram að 18 ára aldri.

Hver sá sem tilkynnir til barnaverndarþjónustu skal segja á sér deili. Almenningur getur óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd og starfsmönnum barnaverndar.

Mál einstakra barna og fjölskyldna þeirra berast ýmist þannig að fólk leitar eftir aðstoð eða að almenningur og aðilar sem vinna með börnum tilkynna að grunur leiki á að barni sé misboðið, aðbúnaði þess áfátt, uppeldi þess vanrækt að öðru leyti eða að það stofni heilsu sinni og þroska í hættu.

Í barnaverndarlögum eru lagðar þær skyldur á almenning og þá sem afskipti hafa af börnum starfa sinna vegna að tilkynna um slíkan grun til barnaverndarþjónustu.

Sjá einnig tilkynningahnappa hér efst á síðunni.

Tilkynningar og fyrirspurnir

Starfsmenn barnaverndarþjónustu Garðabæjar, Garðatorgi 7, taka við tilkynningum um börn búsett í Garðabæ vegna gruns um vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barna og ungmenna. Tilkynning til barnaverndarþjónustu er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé hjálparþurfi.

Starfsmenn barnaverndarþjónustu á velferðarsviði taka við almennum tilkynningum og fyrirspurnum á afgreiðslutíma bæjarskrifstofu Garðabæjar í síma 525 8500.

Eftir lokun skrifstofu og um helgar sinnir sameiginleg bakvakt barnaverndarþjónustu Garðabæjar, Kópavogs og Hafnarfjarðar, neyðartilvikum vegna barna sem þar eru búsett. Sími bakvaktar er 112.

Sjá einnig tilkynningahnappa hér efst á síðunni.

Stuðningsúrræði

Stuðningsúrræði barnaverndarþjónustu eru meðal annars ýmis sérfræðiþjónusta, viðtöl hjá félagsráðgjafa barnaverndarþjónustu, persónulegir ráðgjafar, tilsjón og stuðningsfjölskyldur ásamt úrræðum sem sótt er um hjá Barna- og fjölskyldustofu. Ætíð er lögð áhersla á samvinnu við foreldra.

Samstarfsverkefnið - Saman gegn ofbeldi

Saman gegn ofbeldi er samstarfsverkefni fjölskyldusviðs Garðabæjar, sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samstarfið felst í ákveðnu verklagi þegar tilkynningar berast um heimilisofbeldi.

Samstarfsverkefnið - Velferð barna í Garðabæ 

Velferð barna í Garðabæ er verkefni sem stuðlar að samvinnu allra skólastofnanna og íþrótta- og tómstundafélaga um heildstæða stefnu er varðar jafnrétti, kynheilbrigði og velferð barna.

Sjá nánar hér.