Menningarstefna fyrir Garðabæ
Stefna Garðabæjar í menningarmálum var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar, 6. október 2005. Stefnan er sett til þriggja ára en gert ráð fyrir að hún verði endurskoðuð árlega.
Bæjarbúar eru hvattir til að kynna sér efni stefnunnar og setja sig í samband við þær stofnanir sem til staðar eru í bænum vilji þeir koma á framfæri hugmyndum um hvernig má gera Garðabæ að enn betri menningarbæ.
Einnig er hægt að fá bækling afhentan á bæjarskrifstofum Garðabæjar og Bókasafni Garðabæjar.
Undirbúningur að mótun menningarstefnu
Undirbúningur að mótun menningarstefnu fyrir Garðabæ hófst í lok árs 2004. Bæjarráð Garðabæjar fól menningar- og safnanefnd ásamt tveimur fulltrúum kjörnum af bæjarstjórn að vinna tillögu að menningarstefnu fyrir Garðabæ. Í stýrihópnum sátu Jóna Sæmundsdóttir, formaður menningar- og safnanefndar, Laufey Jóhannsdóttir forseti bæjarstjórnar og Einar Sveinbjörnsson bæjarfulltrúi. Með stýrihópnum starfaði Hulda Hauksdóttir upplýsingafulltrúi og verkefnisstjóri. Hópurinn fékk það hlutverk að virkja sem flesta sem koma að menningarstarfi til þátttöku og setja fram heildarstefnu sem tæki tillit til þeirra safna og menningarstofnana sem fyrir eru í bænum.
Ákveðið var að skipta viðfangsefninu í þrjá meginflokka; menningu fyrir börn og ungmenni, söfn og sýningarstarfsemi og menningarmál almennt. Í janúar 2005 var boðað til opins hugflæðifundar um menningarmál í Garðabæ. Fundurinn var haldinn í því skyni að fá fram hugmyndir, skoðanir og væntingar bæjarbúa um framtíðarstefnu í menningarmálum. Niðurstöður hans voru hafðar til hliðsjónar hjá þremur vinnuhópum sem tóku til starfa í lok janúar 2005. Hóparnir voru m.a. skipaðir fulltrúum starfsmanna, nefndarmanna og listamanna.
Vinnuhóparnir fengu í hendurnar drög að málaflokkum til að greina og fjalla um en jafnframt var þeim í sjálfsvald sett að ákveða hvaða efni skyldi tekið fyrir. Staða menningarmála í Garðabæ var greind og hugað að leiðum til að styrkja það starf sem fyrir er. Um leið voru margar nýjar hugmyndir um menningarstarf ræddar og lagðar fram. Ákveðið var að setja ákveðin markmið og benda á leiðir til að ná þeim.
Stýrihópurinn fundaði alls átta sinnum og hver vinnuhópur hélt um sex fundi. Leitað var álits og ráðagerðar hjá ýmsum aðilum sem tengjast menningarmálum. Jafnframt var almenningi gefinn kostur á að senda inn hugmyndir og ábendingar meðan á vinnuferlinu stóð.
Stefnan var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 6. október 2005 og gefin út með formlegum hætti í byrjun desember.