Umsagnir um íþróttafólk

Tilnefningar til íþróttamanns ársins 2023 – íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar.

 

Fimm konur og fimm karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar (ÍTG) til íþróttakonu og íþróttakarls Garðabæjar 2023. Almenningi gefst kostur á að hafa áhrif á kjörið með því að taka þátt í vefkosningu sem stendur yfir frá 22. desember 2023 til og með 1. janúar 2024. Vefkosningin er aðgengileg hér fyrir neðan. 

Kosning: Íþróttafólk ársins 2023


ÍTG mun síðan velja milli þeirra sem tilnefndir eru og styðjast við niðurstöðu vefkosningarinnar við það val. Tilkynnt verður um val á íþróttakonu og íþróttakarli Garðabæjar á íþróttahátíð Garðabæjar sem fer fram sunnudaginn 7. janúar 2024 í Miðgarði kl. 13:00.

Þau sem tilnefnd eru fyrir árið 2023 eru; Herdís Björg Jóhannsdóttir hestaíþróttakona, Hulda Clara Gestsdóttir kylfingur, Irma Gunnarsdóttir frjálsíþróttakona, Ísold Sævarsdóttir frjálsíþrótta- og körfuboltakona, Lucie Martinsdóttir kraftlyftingakona, Aron Snær Júlíusson kylfingur, Dúi Þór Jónsson körfuboltamaður, Eggert Aron Guðmundsson knattspyrnumaður, Friðbjörn Bragi Hlynsson kraftlyftingamaður og Starri Friðriksson handboltamaður. 

Kosning: Íþróttafólk ársins 2023

 

Tilnefningar til íþróttakonu Garðabæjar

Herdís Björg Jóhannsdóttir hestaíþróttakona

 Herdís Björg Jóhannsdóttir í Hestamannafélaginu Spretti var í U-21 landsliðshópi LH (Landssambands hestamannafélaga) árið 2023, hún keppti fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi í ágúst sl. Herdís er 17 ára gömul og er því í unglingaflokki en keppti upp fyrir sig í ungmennaflokki á mótinu, skemmst er frá því að segja að hún og hestur hennar Kvarði frá Pulu urðu heimsmeistarar í Tölt T1 í ungmennaflokki. Herdís Björg er yngsti knapi sem hefur orðið heimsmeistari í tölti á HM íslenska hestsins.

Herdis-hestakona-23-1-

Hulda Clara Gestsdóttir kylfingur

 

Hulda Clara hefur verið fremsti kylfingur Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) undanfarin ár og jafnframt landsliðskylfingur og Íslandsmeistari í höggleik kvenna 2021. Hún sigraði á tveimur mótum á stigamótaröð GSÍ, í Mosóbikarnum og Hvaleyrarbikarnum. Varð í 2. sæti í Íslandsmótinu í höggleik kvenna og í 2. sæti í Íslandsmótinu í holukeppni kvenna. Hún er fastaleikmaður í háskólaliði sínu hjá Denver State University í Bandaríkjunum. Náði best 5. sæti og varð tvisvar meðal 10 efstu í sterkum háskólamótum á árinu. Hulda Klara lék með kvennalandsliði Íslands á Evrópumóti landsliða.

Hulda Clara hefur sýnt mikinn metnað og dugnað sem hefur skilað henni í allra fremstu röð kvenkylfinga á Íslandi. Kostir hennar eru margir, þó sérstaklega hvað hún er skipulögð og vinnur jafnt og þétt í átt að settu marki. Árangur hennar sýnir að þarna er um alvöru framtíðarkylfing að ræða sem hefur fulla burði til að ná efstu stigum atvinnumennsku á ,,LPGA“ mótaröðinni.

Hulda-Clara 

Irma Gunnarsdóttir frjálsíþróttakona

 

 

 

Irma Gunnarsdóttir frjálsíþróttakona hjá FH hefur fyrir löngu fest sig í sessi í A-landsliði Íslands. Hennar sérgreinar eru í láréttu stökkunum langstökki og þrístökki. Hún setti tvö Íslandsmet á árinu í þrístökki, 13,36 m innanhúss og 13,40 m utanhúss. Hún hefur nú tekið bæði metin í þrístökki kvenna sem staðið höfðu óhögguð í um 25 ár. Irma er auk þess orðin besti langstökkvari kvenna á Íslandi. Stökk hennar, 6,36 m í langstökki innanhúss og 6,40 m utanhúss, er næstbesti árangur íslenskra kvenna í langstökki frá upphafi. Irma hefur unnið sér fast sæti í A-landsliði FRÍ og keppti á Evrópukeppni landsliða í frjálsum sem fram fór í Silesia í Póllandi 20. júní í sumar.

Irma-Gunnars-frjalsar-23

 

Ísold Sævarsdóttir frjálsíþrótta- og körfuboltakona

 

Ísold Sævarsdóttir var fyrirliði meistaraflokks kvenna hjá Stjörnunni sem vann 1. deildina í körfubolta í vor ásamt því að vinna fjölmarga titla í yngri flokkunum. Ísold var valin varnarmaður ársins í 1. deild kvenna. Einnig lék hún stórt hlutverk í góðum árangri U16 ára landsliði stúlkna sem náði besta árangri kvennaliðs í langan tíma á EM í Svartfjallalandi í sumar. Ísold hefur byrjað tímabilið frábærlega í Subway deildinni og toppaði svo árið með því að spila sína fyrstu A-landsleiki í körfubolta þar sem hún var í stóru hlutverki í leikjum á móti Tyrklandi og Rúmeníu.

Ísold er einnig mjög fjölhæf frjálsíþróttakona þar sem hún keppir með FH. Hún náði þeim frábæra árangri að vinna gull á NM U18 í sjöþraut síðastliðið sumar þó hún sé aðeins 16 ára. Ísold er meðal bestu kvenna á afrekskrá FRÍ fullorðinna í mörgum greinum. Hér er talinn upp árangur hennar í frjálsum og staða á afrekslista FRÍ 2023; 400 m (1. sæti) 56,51 sek innanhúss og 57,46 sek utanhúss, í 400 m grindahlaupi (2. sæti) á 61,07 sek, fimmtarþraut innanhúss (1. sæti) með 3786 stig og í sjöþraut utanhúss (1. sæti) með 5277 stig.

Isold-frjalsar-23

 

 

Lucie Martinsdóttir kraftlyftingakona

Lucie Martinsdóttir keppir fyrir Stjörnuna í klassískum kraftlyftingum í -76 kg flokki. Hún keppti á Íslandsmóti í klassískum kraftlyftingum í mars, komin sjö mánuði á leið með sitt þriðja barn, en varð stigahæsta konan á mótinu. Lucie keppti svo á EM í klassískum kraftlyftingum í byrjun desember þar sem hún lenti í 6. sæti í sínum flokki og var hársbreidd frá því að komast á verðlaunapall. Lucie keppti á sínu fyrsta alþjóðamóti árið 2022 á HM í S-Afríku þar sem hún setti Evrópumet og fékk brons í hnébeygju. Lucie er hógvær og dagfarsprúð og ástundar kraftlyftingarnar með miklum aga og vinnusemi. Hún hefur gríðarlegt keppnisskap og baráttuvilja. Óhætt er að segja að Lucie hafi vakið mikla athygli fyrir árangur sinn og er mörgum fyrirmynd, ekki síst hvernig hún hefur æft samhliða meðgöngu og haldið sér á sama tíma í fremstu röð. Lucie vinnur við styrktarþjálfun fólks á öllum getustigum. Óhætt er að segja að hún sé til fyrirmyndar fyrir íþróttina og deildina. Lucie setur markið hátt og ætlar alla leið. Það verður gaman að fylgjast með afrekum hennar á næstu misserum.

 

Lucie.EM23

Íþróttakarl Garðabæjar - tilnefningar

Aron Snær Júlíusson kylfingur

 

Atvinnukylfingurinn Aron Snær Júlíusson í GKG hefur verið meðal allra fremstu kylfinga landsins í mörg ár sem landsliðsmaður og seinustu tvö ár sem atvinnumaður. Hann náði þeim glæsilega árangri að verða Íslandsmeistari karla í holukeppni í sumar. Hann varð Íslandsmeistari í höggleik 2021. Hann keppti í Nordic League mótaröðinni og einnig hér heima. Aron Snær er í PGA námi samhliða keppnisþátttöku og þjálfar yngri flokka hjá GKG þar sem hann nær mjög vel til barnanna. Aron Snær er frábær fyrirmynd annarra hvað varðar reglu- og vinnusemi og jákvætt hugarfar. Hann hefur sýnt mikla þrautseigju þegar blásið hefur á móti.
Aron-Snaer-1-797x1024

Dúi Þór Jónsson körfuboltamaður 

 

 

 

Dúi Þór Jónsson leikur með meistaraflokki Álftaness í körfubolta og spilaði upp alla yngri flokka með Stjörnunni með góðum árangri. Á síðasta tímabili var Dúi einn af lykilmönnum liðsins í að tryggja Álftanesi titil í fyrstu deild og að koma liðinu upp í Subway deildina í fyrsta sinn í sögu þess. Dúi hefur vakið mikla eftirtekt fyrir snarpa spilamennsku og færni en í fyrstu deild skoraði hann 18,4 stig og 8,2 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þá var hann valinn besti leikmaður deildarinnar fyrir þetta framlag sitt. Í Subway deildinni hefur lið Álftaness byrjað afar vel og Dúi verið áfram í lykilhlutverki í að skila liðinu sigrum. Liðið hefur einungis tapað einum heimaleik fyrir áramót og nýlega tryggði liðið sér í fyrsta sinn sæti í 8 liða úrslitum VÍS bikarsins. Fyrir utan góða spilamennsku er Dúi Þór afar vinsæll meðal stuðningsmanna Álftaness og góð fyrirmynd fyrir unga körfuboltaiðkendur.

Dui-Thor-karfa-23

 

Eggert Aron Guðmundsson knattspyrnumaður

Eggert Aron Guðmundsson hefur á stuttum tíma fest sig í sessi sem lykilleikmaður Stjörnunnar þrátt fyrir ungan aldur og er búinn að spila 75 meistaraflokksleiki fyrir Stjörnuna. Eggert var lykilleikmaður í U19 ára landsliði Íslands í lokamóti U19 ára sem haldið var á Möltu í sumar. Hann hefur spilað þrettán leiki fyrir U19 ára landslið Íslands. Einnig hefur Eggert spilað fjóra leiki fyrir U21 árs landslið Íslands. Eftir að hafa átt mjög gott tímabil 2023 var Eggert Aron valinn efnilegasti leikmaður mótsins af leikmönnum deildarinnar. Það verður gaman að fylgjast með þessum efnilega leikmanni okkar í framtíðinni.EA

 

 

 

Friðbjörn Bragi Hlynsson kraftlyftingamaður

 

Friðbjörn Bragi Hlynsson æfir klassískar kraftlyftingar hjá lyftingadeild Stjörnunnar. Friðbjörn keppir í -83kg flokki karla og hefur síðastliðin ár verið með stigahæstu keppendum í greininni. Friðbjörn kláraði keppnisárið 2023 með Íslandsmet í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðu og er bikarmeistari í klassískum kraftlyftingum hjá Kraftlyftingasambandi Íslands. Friðbjörn tók þátt fyrir Íslands hönd á tveimur mótum á árinu, Vestur-Evrópumótinu og Evrópumeistaramótinu. Hann gerði gott mót á báðum stöðum, vann sinn flokk á Vestur-Evrópumótinu og tók 11. sætið í mjög sterkum flokki á Evrópumeistaramótinu. Friðbjörn er fjölskyldumaður, menntaður íþróttafræðingur og kennir íþróttir á grunnskólastigi. Hann er deildinni og íþróttinni til mikils sóma og er það samróma álit allra sem kynnast honum að þarna er drengur góður á ferð.Fridbjorn-Bragi-23

 

Starri Friðriksson handboltamaður

 

Starri Friðriksson byrjaði snemma að æfa handknattleik eða um 8 ára aldur. Allan sinn feril hefur hann leikið með Stjörnunni og er lykilleikmaður bæði í vörn og sókn. Það sem einkennir hann sem íþróttamann er dugnaður og vilji og viðhorf hans til íþróttarinnar. Starri er klárlega einn af betri hornamönnum á Íslandi í dag og samkvæmt tölfræði deildarinnar er hann með að meðaltali 7 mörk í hverjum leik og skotnýting hans er 80.8 % sem er framúrskarandi.Starri-handbolta-23