Umsagnir um íþróttafólk

Tilnefningar til íþróttamanns ársins 2021 – íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar.

Fjórar konur og fjórir karlar hafa verið tilnefnd af ÍTG til íþróttakonu og íþróttkarls 2021. Almenningi gefst kostur á að hafa áhrif á kjörið með því að taka þátt í vefkosningu sem stendur frá 22. desember 2021 til 3. janúar 2022. ÍTG mun síðan velja milli þeirra sem tilnefndir eru og styðjast við niðurstöðu vefkosningarinnar við það val. 

Hér að neðan eru umsagnir um það íþróttafólk sem tilnefnt er sem íþróttakarl og íþróttakona Garðabæjar. 

Vegna fjöldatakmarkana verður ekki haldin stór samkoma til að heiðra þá sem unnið hafa til afreka á árinu 2021 eins og gert hefur verið undanfarin ár. Kjöri íþróttamanna ársins, konu og karls, verður lýst í beinni útsendingu á vef Garðabæjar  sunnudaginn 9. janúar kl. 14:00 frá Sveinatungu.

VEFKOSNING - ÍÞRÓTTAMENN GARÐABÆJAR 2021

Með því að smella á hvern og einn má sjá nánari upplýsingar.  

Íþróttakarl Garðabæjar - tilnefningar

Aron Friðrik Georgsson, kraftlyftingar (32), Stjarnan

 Aron er formaður lyftingadeildar og burðarásinn í allri starfsemi deildarinnar. Hann er jafnframt landsliðsmaður í kraftlyftingum og tók þátt í tveimur landsliðsverkefnum á árinu, annars vegar Reykjavík International Games þar sem hann sótti brons í +120kg flokk og hins vegar evrópumeistaramótið í kraftlyftingum sem fór fram í desember en þar bætti hann Íslandsmetið í hnébeygju þegar hann lyfti 300kg. Kórónuveirufaraldurinn setti mikið strik í keppnisstarf í kraftlyftingum á árinu sem og í starfi deildarinnar en Aron var traustur klettur í þeim ólgusjó, hélt uppi stemmingu og sá til þess að hvergi væri slegið slöku við þrátt fyrir útþynnta mótaskrá sérsambandsins.

Aron-Fridrik


Aron Snær Júlíusson (24), golf, GKG

Landsliðsmaðurinn Aron Snær Júlíusson tryggði sér íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn þegar mótið fór fram á Jaðarsvelli hjá Golfklúbbi Akureyrar. Jafn stígandi hefur verið í árangri Arons Snæs undanfarin ár og með sigrinum sýndi hann og sannaði að hann trónir fremstur íslenskra kylfinga. Hann sigraði auk þess á öðru stigamóti ársins í GSÍ mótaröðinni, og varð stigameistari að loknu tímabili. Í erlendum verkefnum stóð Aron sig frábærlega. Hann hafnaði í 5. sæti á EM einstaklinga, sem er besti árangur sem Íslendingur hefur náð. Í breska áhugamanna meistarmótinu, einu elsta og sterkasta áhugamannamóti sem völ er á, hafnaði Aron í 11. sæti af 144 keppendum í undankeppni en tapaði í fyrstu umferð fyrir sigurvegara mótsins. Sem stendur er Aron Snær í 112. sæti heimslista áhugamanna. Aðeins einn íslenskur kylfingur hefur náð hærri stöðu.

Aron-Snaer

Helgi Laxdal Aðalgeirsson ( ), hópfimleikar, Stjarnan

Helgi er iðkandi í meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum. Hann varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu sínu í ár. Helgi er einn af lykiliðkendunum í liðinu og með háan erfiðleika í stökkum auk þess sem hann er frábær dansari. Helgi var í karlaliði Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum þar sem liðið náði öðru sætinu. Helgi keppti fyrstur í heiminum að framkvæma stökk á dýnu með framseríuna skrúfa – kraftstökk- tvöfalt strekkt heljarstökk með tveimur og hálfri skrúfu. Fyrir frábæran árangur á EM var Helgi valinn í úrvalslið (All Star) mótsins en einungis 12 iðkendur eru valdir í það lið. Helgi er frábær fyrirmynd fyrir unga drengi og duglegur að setja sér ný markmið og leggur mikið á sig til að ná þeim.

Helgi-Lacdal

Jón Þór Sigurðsson, skytta (39), Skotíþróttafélag Kópavogs

Jón Þór Sigurðsson 39 ára skytta, keppir fyrir Skotíþróttafélag Kópavogs, SFK. Jón Þór átti frábært ár 2021. Hann varð Íslandsmeistari í 50 metra liggjandi riffli, Íslandsmeistari með liði sínu í grófri skammbyssu, Íslandsmeistari með liði sínu í sport skammbyssu, Íslandsmeistari með liði sínu í staðlaðri skammbyssu. Hann setti nýtt Íslandsmet í 50 metra liggjandi riffli á Íslandsmóti í Egilshöll, í 300 metra liggjandi riffli á EM í Króatíu. Með liði sínu setti hann nýtt Íslandsmet í liðakeppni í grófri skammbyssu, sett í Digranesi og í sport skammbyssu, sett í Digranesi. Jón Þór komst í úrslit á Lapua Cup í Sviss. Hann hafnaði í 14. sæti á EM í Króatíu. Hann er flugmaður að mennt. Er einnig þekktur sem trommari hljómsveitarinnar DIKTU.

Jon-Thor


Íþróttakona Garðabæjar - tilnefningar

Anna María Baldursdóttir (27), knattspyrna, Stjarnan

Knattspyrnudeild Stjörnunnar tilnefnir Önnu Maríu Baldursdóttir sem íþróttakonu Garðabæjar. Anna María er 27 ára gömul og er fyrirliði m.fl. kvenna. Anna er einn af lykil leikmönnum liðsins og hefur spilað með Stjörnunni síðan 2010, en hún á að baki níu leiki með Íslenska landsliðinu. Hún er mikill leiðtogi og frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn. Eftir að hafa misst stóran hluta af tímabilinu 2020 vegna meiðsla átti Anna mjög gott tímabil með góðu liði Stjörnunnar sem endaði í 4. sæti árið 2021. 

Anna-maria

Hulda Clara Gestsdóttir (19), golf, GKG

Hulda Clara skrifaði nýjan kafla í afrekssögu GKG þegar hún tryggði sér Íslandsmeistaratitil kvenna sem fór fram á Jaðarsvelli hjá Golfklúbbi Akureyrar. Með sigrinum varð Hulda fyrsti kvenkylfingur GKG til að tryggja sér stærsta titil sem í boði er á Íslandi hjá kylfingum. Hún lagði aðal áherslu á alþjóðleg mót og hafnaði í 5. sæti stigalistans hér heima, þrátt fyrir að taka aðeins þátt í þremur mótum af sex. Hulda lék með kvennalandsliðinu á Norður-Írlandi þar sem landsliðið náði 12. sæti af 19 þjóðum, sem er með betri árangri sem landsliðið hefur náð. Einnig lék hún í tveimur öðrum sterkum mótum s.l. sumar, „The Women´s Amateur“ (17.-32. sæti) og EM einstaklinga (119. sæti). Hún hóf háskólanám við University of Denver í Colorado þar sem hún er þegar orðin fastamaður í kvennaliði skólans. Hulda Clara hefur sýnt mikinn metnað og dugnað sem hefur skilað henni í allra fremstu röð kvenkylfinga á Íslandi.

Hulda-Clara

Kolbrún Þöll Þorradóttir (18), hópfimleikar, Stjarnan

Kolbrún Þöll er iðkandi í meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum. Hún varð bæði Íslands – og bikarmeistari með liði sínu í ár. Kolbrún Þöll er einn af lykiliðkendum í liðinu og með háan erfiðleika í stökkum auk þess sem hún er frábær dansari. Kolbrún Þöll var valin í kvenna landslið Íslands fyrir EM í hópfimleikum og varð Evrópumeistari með liðinu. Kolbrún Þöll framkvæmdi á mótinu eitt erfiðasta stökk sem gert er í kvennaflokki á trampólíni sem er tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og þremur og hálfri skrúfu. Fyrir frábæran árangur á EM var hún valin í úrvalslið (All Star) mótsins en einungis 12 iðkendur eru valdir í það lið. Kolbrún Þöll er ákaflega metnaðarfullur iðkandi sem er stöðugt að ögra sjálfri sér og setja sér ný markmið.

Kolbrun-Tholl

Júlíana Karítas Jóhannsdóttir (18), badminton, TBR

Júlíana Karitas er búin að stunda badminton frá unga aldri. Hún hefur unnið flest alla Íslandsmeistaratitla í unglingaflokkum frá því hún var 13-14 ára gömul, jafnt í einliða, tvíliða- og tvenndarleik. Hún er t.d. þrefaldur Íslandsmeistari í stúlknaflokki (U19 ára) 2021. Nú á síðasta Íslandsmóti fullorðinna náði hún að vinna alla sína andstæðinga í einliðaleiknum, aðeins 17 ára gömul. Þar að auki hefur Júlíana Karitas unnið flest badmintonmótin sem haldin hafa verið á þessum vetri. Þá hefur hún keppt unglingalandsleiki og væntanlega mun hún keppa fyrsta fullorðinslandsleikinn sinn nú í febrúarmánuði þegar fyrsta landsliðsferðin verður farin eftir Covid. 

Juliana