Umsagnir um íþróttafólk

Tilnefningar til íþróttamanns ársins 2022 – íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar.

Fimm konur og fimm karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar (ÍTG) til íþróttakonu og íþróttakarls Garðabæjar 2022. Almenningi gefst kostur á að hafa áhrif á kjörið með því að taka þátt í vefkosningu sem stendur yfir frá 23. desember 2022 til og með 1. janúar 2023. 
ÍTG mun síðan velja milli þeirra sem tilnefndir eru og styðjast við niðurstöðu vefkosningarinnar við það val. Tilkynnt verður um val á íþróttakonu og íþróttakarli Garðabæjar á íþróttahátíð Garðabæjar sem fer fram sunnudaginn 8. janúar 2023 í Miðgarði kl. 13:00.

ATH. Vefkosingu er lokið.

Þau sem tilnefnd eru fyrir árið 2022 eru; Ásta Kristinsdóttir fimleikakona, Ekaterina Bond dansari, Helena Rut Örvarsdóttir handboltakona, Hulda Clara Gestsdóttir kylfingur, Jasmín Erla Ingadóttir knattspyrnukona, Alex Freyr Gunnarsson dansari, Aron Friðrik Georgsson kraftlyftingamaður, Guðmundur Ágúst Kristjánsson golfari, Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður og Valgarð Reinhardsson fimleikamaður. 

Með því að smella á hvern og einn má sjá nánari upplýsingar.  

Íþróttakarl Garðabæjar - tilnefningar

Alex Freyr Gunnarsson dansari


Alex Freyr Gunnarsson og Ekaterina Bond eru dansfélagar í standard dönsum. Í febrúar 2022 urðu þau Íslandsmeistarar og í október urðu þau ,,Lotto Open“ meistarar. Þau náðu einnig þeim frábæra árangri að lenda í 3. sæti á ,,The United Kingdom Open“, 2. sæti í ,,Blackpool dancefestival“ og 3. sæti á ,,The international Championship“. Þessar þrjár danskeppnir eru þær stærstu og virtustu í heiminum. Í byrjun desember lentu Alex og Ekaterina í 3. sæti á HM í Assen í Hollandi. Alex og Ekaterina eru eina íslenska dansparið sem hefur náð þessum árangri í standard dönsum (Ballroom). Þau dansa og keppa fyrir Íslands hönd með Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar. Þau eru landsliðspar með meistarahóp, frábærar fyrirmyndir og eitt fremsta danspar heims. 

Alex-Freyr-dansari


Aron Friðrik Georgsson kraftlyftingamaður

Aron Friðrik er formaður lyftingadeildar Stjörnunnar og fremsti afreksmaður okkar í kraftlyftingum. Hann keppti á árinu fyrir landslið Íslands á EM í klassískum kraftlyftingum í Póllandi og á boðsmótinu Reykjavík International Games. Hans besti árangur á árinu var 305 kg í hnébeygju, 192.5 kg í bekkpressu og 285 kg í réttstöðulyftu en það dugði til að tryggja honum Íslandsmet í beygjunni. Ásamt því að vera mikill íþróttamaður er Aron hornsteinn í félagsstarfi lyftingadeildarinnar sem og sérsambandsins og mikill viskubrunnur um hina ýmsu kima íþróttarinnar. Aron stefnir á nýjar hæðir og bætingar á næsta ári ásamt því að stýra þeirri miklu uppbyggingu og vexti lyftingadeildarinnar sem er framundan í frábærri nýrri æfingaaðstöðu í fjölnota íþróttahúsinu Miðgarði.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson golfari

Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur verið meðal allra fremstu kylfinga landsins í mörg ár og núna í nóvember afrekaði hann það að ná keppnisrétti á ,,DP World Tour“ mótaröðina, sem er efsta stig atvinnumennsku í Evrópu. Hann lék glæsilegt golf á lokastigi úrtökumótsins og hafnaði í 18. sæti en aðeins 25 efstu fá þátttökurétt. Guðmundur Ágúst er aðeins annar íslenski kylfingurinn sem nær þessum árangri. Þetta þýðir að Guðmundur mun leika meðal þeirra allra bestu á næsta tímabili. Guðmundur Ágúst hefur undanfarin ár leikið sem atvinnukylfingur í Áskorendamótaröð Evrópu - ,,Challenge Tour“, sem er næsta þrep fyrir neðan ,,DP World – European Tour“. Á árinu tók hann þátt í 18 mótum. Hans besti árangur var 3. sæti á þeirri mótaröð í Finnlandi.

Gudmundur-Agust-Kristjans

Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður

Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður hlaut á dögunum nafnbótina „Íþróttamaður ársins“ hjá ÍF (Íþróttasambandi fatlaðra). Hilmar Snær var fyrst kjörinn árið 2020 en hlýtur nú titilinn fyrir sögulegan árangur fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í vetraríþróttum og á vetrar ,,Paralympics“. Á báðum mótum hafnaði Hilmar í 5. sæti í svigkeppni sem er besti árangur Íslands á báðum mótum. Á HM keppti hann líka í stórsvigi þar sem hann hafnaði í 21. sæti en á Vetrar-Paralympics féll hann úr leik í stórsvigskeppninni. Hilmar Snær hefur áður verið kjörinn íþróttakarl Garðabæjar.

IMG_8547


Valgarð Reinhardsson fimleikamaður

Valgarð er fimleikamaður ársins hjá Fimleikasambandi Íslands og er hann nú sexfaldur Íslandsmeistari. Hann varð Íslandsmeistari í fjölþraut á árinu og gerði sér lítið fyrir og vann til verðlauna á öllum áhöldum. Valgarð er Íslandsmeistari á gólfi, stökki og svifrá, auk þess vann hann til silfurverðlauna á hringjum og á tvíslá ásamt því að fá brons á boga. Lið Valgarðs, Gerpla, varð einnig bikarmeistari á árinu. Á Norðurlandamótinu sem fram fór á Íslandi í sumar, náði Valgarð bestum árangri íslensku karlanna og varð í 10. sæti í fjölþraut og þar vann hann silfur á stökki og gólfi en að auki lenti hann í 5. sæti á hringjum. Valgarð vann sér inn þátttökurétt á HM með frábærri frammistöðu á Evrópumótinu. Valgarð átti stóran þátt í þeim sögulega sigri að vinna til bronsverðlauna með íslenska karlalandsliðinu á Norður-Evrópumóti sem fór fram í Finnlandi í lok nóvember. Valgarð endaði þar í 6. sæti í fjölþraut og náði hann aftur í tvenn silfurverðlaun, nú á stökki og svifrá. Valgarð keppti einnig til úrslita á tvíslá og gólfi, þar hafnaði hann í 8. sæti og 6. sæti.

Valgard-v-819x1024


Íþróttakona Garðabæjar - tilnefningar

Ásta Kristinsdóttir fimleikakona


Ásta Kristinsdóttir varð Íslands- og bikarmeistari í hópfimleikum með kvennaliði Stjörnunnar. Ásta er einn af lykilmönnum liðsins, er í öllum sex stökkumferðunum og með hæsta erfiðleika í öllum stökkum. Einnig sýndi hún glæsilega frammistöðu á dansgólfinu. Ásta var einnig lykilmanneskja í kvennalandsliðinu á Evrópumótinu í hópfimleikum í september 2022. Hún var ein af sex konum sem var valin í úrvalslið mótsins, „All star“ liðið fyrir frammistöðu sína á dýnu á mótinu. Núna í desember keppti Ásta á alþjóðlegu móti sem nefnist ,,Face off“ þar sem keppt er í mismunandi þrautum og er markmiðið að lenda stökk með hæstan erfiðleika með ákveðinni uppsetningu. Í ár var í fyrsta sinn keppt í kvennaflokki og Ásta var fyrst kvenna til að vinna þann flokk. Hún er fyrirmyndar afrekskona í fimleikum og sýnir mikinn metnað til að ná árangri í íþróttinni. Ásta var á dögunum útnefnd í 2.-3. sæti sem fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands.

Asta-Kristinsdottir


Ekaterina Bond dansari

Ekaterina Bond og Alex Freyr Gunnarsson eru dansfélagar í standard dönsum. Í febrúar 2022 urðu þau Íslandsmeistarar og í október urðu þau ,,Lotto Open“ meistarar. Þau náðu einnig þeim frábæra árangri að lenda í 3. sæti á ,,The United Kingdom Open“, 2. sæti í ,,Blackpool dancefestival“ og 3. sæti á ,,The international Championship“. Þessar þrjár danskeppnir eru þær stærstu og virtustu í heiminum. Í byrjun desember lentu Alex og Ekaterina í 3. sæti á HM í Assen í Hollandi. Alex og Ekaterina eru eina íslenska dansparið sem hefur náð þessum árangri í standard dönsum (Ballroom). Þau dansa og keppa fyrir Íslands hönd með Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar. Þau eru landsliðspar með meistarahóp, frábærar fyrirmyndir og eitt fremsta danspar heims. 

52378420_562314267603607_7066800594538725376_n


Helena Rut Örvarsdóttir handboltakona

Helena er er fyrirliði meistaraflokks kvennaliðs Stjörnunnar sem er í 2. sæti í Olís deild kvenna eins og staðan er í dag. Hún er uppalin Stjörnukona sem hefur einnig spilað erlendis en það gerði hún árin 2017 – 2020. Einnig hefur hún spilað 38 A-landsleiki. Helena er mikill leiðtogi, fyrirmynd innan sem utan vallar og stór ástæða fyrir því að Stjarnan er aftur komin í hóp bestu liða á Íslandi í handknattleik kvenna. Helena Rut er félagslega sterk og alltaf tilbúin að hjálpa til við hin ýmsu verkefni sem þarf að sinna á vegum handknattleiksdeildar. Persónuleiki hennar er góð auglýsing fyrir það starf sem handboltinn er með í Garðabæ. 

Helena-Rut-Orvars-20


Hulda Clara Gestsdóttir kylfingur


Hulda Clara hefur verið fremsti kylfingur Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) undanfarin ár og jafnframt landsliðskylfingur. Á þessu ári glímdi Hulda við meiðsli í úlnlið sem höfðu áhrif á leik hennar, en náði þó oft að skila frábærum árangri. Hulda Clara er með forgjafarlægstu kylfingum landsins með +3,6 í forgjöf. Hún lék á 65 höggum á loka keppnisdegi Íslandsmótsins í golfi í Vestmannaeyjum, sem hífði hana upp í 7. sæti. Hulda Clara lék með kvennalandsliði Íslands á EM og HM kvenna. Hún náði sínum besta árangri í háskólamóti með liði sínu Denver University á ,,Ron Moore Intercollegiate“ mótinu þar sem hún hafnaði í 10. sæti og lék mótið á 2 undir pari.

Hulda Clara hefur sýnt mikinn metnað og dugnað sem hefur skilað henni í allra fremstu röð kvenkylfinga á Íslandi. Kostir hennar eru margir, þó sérstaklega hvað hún er skipulögð og vinnur jafnt og þétt í átt að settu marki. Árangur hennar sýnir að þarna er um alvöru framtíðarkylfing að ræða sem hefur fulla burði til að ná efstu stigum atvinnumennsku á ,,LPGA“ mótaröðinni. 

Hulda-Clara-golf-2-

Jasmín Erla Ingadóttir knattspyrnukona

Jasmín Erla Ingadóttir er einn af lykil leikmönnum meistaraflokksliðs Stjörnunnar í knattspyrnu. Hún er 24 ára gömul og hefur spilað með Stjörnunni síðan 2019. Jasmín hefur spilað 110 leiki í efstu deild og skorað 28 mörk. Jasmín varð markadrottning Bestu deildarinnar á nýlokinni leiktíð þar sem hún skoraði 11 mörk og hjálpaði Stjörnuliðinu að tryggja annað sætið sem veitir liðinu þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili.

Gyda-Jamsin-Katrin