Umsagnir um íþróttafólk

Tilnefningar til íþróttamanns ársins 2020 – íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar.

Fimm konur og fimm karlar hafa verið tilnefnd af ÍTG til íþróttakonu og íþróttkarls 2020. Almenningi gefst kostur á að hafa áhrif á kjörið með því að taka þátt í vefkosningu sem stendur frá 23. desember 2020 til 4. janúar 2021. ÍTG mun síðan velja milli þeirra sem tilnefndir eru og styðjast við niðurstöðu vefkosningarinnar við það val. 

Hér að neðan eru umsagnir um það íþróttafólk sem tilnefnt er sem íþróttakarl og íþróttakona Garðabæjar. 

Vefkosningu lauk 4. janúar 2021. 

Vegna fjöldatakmarkana verður ekki haldin stór samkoma til að heiðra þá sem unnið hafa til afreka á árinu 2020 eins og gert hefur verið undanfarin ár. Kjöri íþróttamanna ársins, konu og karls, verður lýst í beinni útsendingu á vef Garðabæjar sunnudaginn 10. janúar kl. 13:00. 
Sjá vefútsendingu hér.

Með því að smella á hvern og einn má sjá nánari upplýsingar.  

Íþróttakarl Garðabæjar - tilnefningar

Alex Þór Hauksson (21), knattspyrna, Stjarnan

Alex Þór Hauksson hefur átt gott ár þrátt fyrir allt það sem hefur dunið á íþróttafólki landsins. Hann hefur verið fastamaður í U-21 árs landsliði Íslands sem tryggði sér þátttöku í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer árið 2021. Reyndar byrjaði Alex Þór árið á því að taka þátt í tveimur landsleikjum með A landsliði Ísland sem báðir unnust. Alex hefur allt frá árinu 2017 verið fastamaður í liði Stjörnunnar en hann hefur leikið samtals 95 leiki í m.fl. Stjörnunnar og skorað í þeim 5 mörk. Alex hefur ennfremur spilað 10 Evrópuleiki og má segja að miðað við aldur sé þessi leikjafjöldi algerlega einstakur. Alex Þór er vinnusamur, duglegur og ósérhlífinn leikmaður sem er frábær fyrirmynd fyrir yngri flokka félagsins ásamt því að á árinu var Alex gerður að fyrirliða Stjörnunnar einungis 20 ára gamall sem segir ýmislegt um mikilvægi hans fyrir liðið.

AlexThorHauksson

Bjarki Pétursson (26), golf GKG

Landsliðsmaðurinn Bjarki Pétursson tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn með eftirminnilegum hætti þegar hann setti í fluggír á seinustu holunum og stóð uppi sem sigurvegari með 8 högga mun. Bjarki var í karlasveit GKG sem sigraði á Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild, annað árið í röð.
Bjarki komst í lok seinasta árs á þriðja og lokastig úrtökumóta fyrir evrópsku mótaröðina í golfi, European Tour. Hann var eini áhugamaðurinn í mótinu sem náði því afreki. Hann gerðist síðan atvinnumaður í byrjun árs og lék á Nordic League mótaröðinni, en Covid19 gerði það að verkum að fá mót voru í boði. Hann lék þó á fjórum mótum og náði best 12. sæti. Bjarki er frábær fyrirmynd annarra, algjört gæðablóð. Hann er reglusamur, vinnusamur og ávallt jákvæður. Hann er öflugur liðsmaður, hvetjandi og drífandi.

BjarkiPetursson

Hilmar Snær Örvarsson (20), skíði, Víkingur

Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson tók þátt í 15 mótum á alþjóðlegum vettvangi, þar af 13 Evrópubikarmótum en 3 heimsbikarmótum á keppnistímabilinu 2019-2020. Hann stóð uppi sem sigurvegari í 5 af þessum mótum og var á verðlaunapalli í 11 þeirra. Hilmar varð fyrstur Íslendinga til að sigra Evrópumótaröð IPC í alpagreinum en það gerði hann á lokamótinu í Króatíu í febrúar 2020. Á heimsbikarmótaröðinni landaði hann silfri á Ítalíu í svigi og þrenn gullverðlaun litu svo dagsins ljós í janúar í Jasna í Slóvakíu á móti innan Evrópumótaraðarinnar, tvenn gull í svigi og ein í stórsvigi. Frá Slóvakíu lá leiðin til Zagreb í Króatíu þar sem Hilmar tryggði sér endanlega sigur á Evrópumótaröðinni með tvenn gullverðlaun og eitt silfur í svigi. Lokaniðurstaða Evrópubikarmótaraðarinnar varð því 1. sæti samanlagt í yfir svig og stórsvig og 1. sæti í svigi. Fyrirhuguð var þátttaka í bikarmótum og Íslandsmóti Skíðasambandsins en vegna COVID faraldursins voru allar keppnir felldar niður eftir 1. mars 2020.

HilmarSnaerOrvarsson

Tandri Már Konráðsson (30), handknattleikur, Stjarnan

Tandri Már Konráðsson kom til baka vorið 2019 í sitt gamla uppeldisfélag úr atvinnumennsku. Hann varð strax mikill leiðtogi innan liðsins enda reynslumikill leikmaður. Í hans forystuhæfileikum koma margir þættir saman sem nýtast liðinu. Liðið náði þeim frábæra árangri að komast í úrslitaleik bikarkeppninnar Í Laugardalshöll en varð að játa sig sigrað í jöfnum leik við ÍBV. Á æfingum er Tandri Már mjög samviskusamur og ávallt í frábæru líkamlegu formi. Hann hefur sérlega jákvæð áhrif á meðspilara og duglegur að leiðbeina mönnum og fá samherja sína til að stefna í sömu átt. Persónuleiki hans jafnt innan vallar sem utan er til fyrirmyndar og eftirbreytni.

TandriMarKonradsson

Ægir Þór Steinarsson (29), körfuknattleikur, Stjarnan

Ægir Þór Steinarsson hefur lengi verið einn af fremstu körfuknattleiksmönnum landsins. Hann er aðal leikstjórnandi liðs Stjörnunnar og er stöðug ógn við leik andstæðinga sinna hvort sem er í sókn eða vörn. Hraði hans og útsjónarsemi er langt umfram annarra leikmanna í efstu deild hér á landi. Hann vann með liði Stjörnunnar þá titla sem í boði voru á árinu, varð deildar- og bikarmeistari en ekki var keppt um Íslandsmeistaratitil. Ægir var valinn maður leiksins í úrslitum Geysisbikarsins þegar Stjarnan tryggði sér bikarmeistaratitilinn annað árið í röð þar sem hann skoraði 19 stig, tók 4 fráköst og gaf 14 stoðsendingar og bætti þar með fyrra met um 3 stoðsendingar. Þess má líka geta að hann gaf 15 stoðsendingar í undanúrslitaleiknum gegn Tindastól þannig að alls gaf hann 29 stoðsendingar á bikarhelginni sem einnig er met. Hann er fastamaður í íslenska landsliðinu og á að baki 62 landsleiki. Hann er einnig einn af okkar öflugustu yngri flokka þjálfurum.

AegirThorSteinarsson

Íþróttakona Garðabæjar - tilnefningar

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir (17), knattspyrna, Stjarnan

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir átti frábært ár með Stjörnunni 2020. Hún sló í gegn með meistaraflokki félagsins í Pepsí-Max deildinni og skoraði fimm mörk fyrir liðið á sínu öðru ári í deildinni. Aníta varð einnig Íslandsmeistari með félögum sínum í 2. flokki Stjörnunnar eftir spennandi keppni í allt sumar. Hún hefur í engu slegið slöku við æfingar eða keppni enda hörku keppnismanneskja og mikill liðsmaður sem gerir allt fyrir lið sitt og félaga. Aníta Ýr Þorvaldsdóttir hefur átt sæti í yngri landsliðum Íslands en engir landsleikir fóru fram í ár af þekktum ástæðum. Að loknu Íslandsmóti 2020 var Aníta valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna.

AnitaYrThorvaldsdottir

Ágústa Edda Björnsdóttir (43), hjólreiðar, Tindur

Ágústa Edda Björnsdóttir sneri sér að hjólreiðum eftir glæsilegan handboltaferil til margra ára, þar sem hún var meðal annars valin handboltakona ársins 2009. Ágústa Edda hóf að æfa hjólreiðar markvisst fyrir tæpum 5 árum. Hún hefur æft og keppt með hjólreiðaklúbbnum Tindi frá upphafi en einnig sem hluti af keppnisliði Kría Cycles. Á þessum vettvangi hefur hún orðið Íslandsmeistari í götuhjólreiðum síðustu 3 ár og bikarmeistari í götuhjólreiðum síðustu 3 af 4 árum. Hún hefur orðið Íslandsmeistari í tímatöku síðustu 2 ár og bikarmeistari síðustu 3 ár. Þá hefur hún verið valin hjólreiðakona ársins undanfarin 3 ár. Ágústa Edda var fyrst Íslendinga til að keppa á HM í götuhjólreiðum 2019 en hún keppti einnig á því móti í ár.

AgustaEddaBjornsdottir

Dagbjört Bjarnadóttir (18), hópfimleikar, Stjarnan

Dagbjört Bjarnadóttir hefur átt farsælan fimleikaferil þrátt fyrir ungan aldur. Hún var í lykilhlutverki í yngri liðum Stjörnunnar og keppti með 1. flokki Stjörnunnar á Junior NM 2018 og með stúlknalandsliðinu á Evrópumótinu 2018 þar sem þær náðu 3. sæti. Frá því Dagbjört kom upp í meistaraflokk Stjörnunnar í hópfimleikum hefur hún átt sæti í liðinu enda með mikinn erfiðleika í stökkunum sínum og góður dansari. Hún var í liðinu þegar Stjarnan náði 2. sæti á Norðurlandamótinu í hópfimleikum haustið 2019 og var í liðinu þegar Stjarnan varð bikarmeistari 2020. Dagbjört er mjög einbeitt íþróttakona, æfir vel og hefur mikinn metnað.

DagbjortBjarnadottir

Hanna Guðrún Stefánsdóttir (41), handknattleikur, Stjarnan

Hanna Guðrún Stefánsdóttir er ein reynslumesta handknattleikskona landsins og á sér langan og glæstan feril. Það eru ófáir titlarnir sem hún hefur landað með liði sínu. Hún var fastamanneskja í A-landsliði kvenna til margra ára og hefur meðal annars verið heiðruð af HSÍ fyrir frammistöðu sína í hægra horninu. Þegar rifjaður er upp ferill Hönnu Guðrúnar er ekki hjá því komist að koma inná það hversu jákvæð og óeigingjörn hún hefur verið við að vinna fyrir sitt félag hvort sem er við dómgæslu á yngri flokkamótum Stjörnunnar eða í hinum ýmsu fjáröflunum fyrir félagið svo fátt eitt sé nefnt og er hún þar til mikillar fyrirmyndar fyrir leikmenn sem og íþróttafólk almennt. Þannig má með sanni segja að hún sé einstök íþróttakona og mikill leiðtogi fyrir lið sitt bæði innan vallar sem utan.

HannaGudrunStefansdottir

Hulda Clara Gestsdóttir (18), golf, GKG

Landsliðskonan Hulda Clara Gestsdóttir er fastur liðsmaður í A- landsliði kvenna og er meðal allra fremstu golfkvenna á Íslandi. Hún tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í holukeppni í flokki 17-18 ára og á tímabilinu hér heima náði hún 2. sæti í stigamótaröð GSÍ. Á erlendum vettvangi ber hæst að hún náði 17. sæti á breska áhugamannameistaramótinu, sem er eitt stærsta og virtasta áhugamannamót heims. Einnig náði hún 11. sæti á ,,Junior Orange Bowl“ mótinu sem haldið er í Flórída í Bandaríkjunum. Hulda lék með kvennalandsliðinu í Svíþjóð þar sem landsliðið náði 8. sæti, sem er besti árangur landsliðsins frá upphafi. Hulda Clara hefur mikinn metnað og dugnað sem hefur komið henni nú þegar í fremstu röð.

HuldaClaraGestsdottir