Umsagnir um íþróttafólk

Tilnefningar til íþróttamanns ársins 2024 – íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar.

 

Fimm konur og fimm karlar voru tilnefnd af íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar (ÍTG) til íþróttakonu og íþróttakarls Garðabæjar 2024. Almenningi gafst kostur á að hafa áhrif á kjörið með því að taka þátt í vefkosningu.

Tilkynnt var um val á íþróttakonu og íþróttakarli Garðabæjar á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram  sunnudaginn 12 janúar 2025 í Miðgarði. 

Þau sem tilnefnd eru fyrir árið 2024 eru; Ásta Kristinsdóttir fimleikar, Hanna Rún Bazev Óladóttir latíndans, Hanna Jóna Sigurjónsdóttir kraftlyftingar, Hulda Clara Gestsdóttir golf, Ingeborg Eide Garðarsdóttir frjálsíþróttir, Aron Snær Júlíusson kylfingur, Friðbjörn Bragi Hlynsson kraftlyftingamaður, Nikita Bazev latíndans, Valgarð Reinhardsson áhaldafimleikar, Ægir Þór Steinarsson körfubolti.

Tilnefningar til íþróttakonu Garðabæjar

Ásta Kristinsdóttir – hópfimleikar

Frame-10-4-

Ásta Kristinsdóttir hefur verið í lykilhlutverki í meistaraflokki í Stjörnunnar sem varð bikar- og Íslandsmeistari á árinu 2024. Hún keppir þar með hæstan erfiðleika í stökkum sem sést á íslenskum mótum í öllum umferðum sem hún framkvæmir. Ásta hlaut einnig Evrópumeistaratitil með landsliði kvenna í fullorðins flokki í október 2024. Var þetta annar Evrópumeistaratitillinn hennar í fullorðins flokki.

Auk þess var Ásta valin í lið besta fimleikafólks mótsins (All Star) fyrir frammistöðu sína á dýnu. Það þýðir að hún framkvæmdi umferðir með hæstan erfiðleikastuðul og bestu framkvæmdina á öllu mótinu. Ásta keppti með þrefalt heljarstökk á íslenska keppnistímabilinu sem er mjög sjaldgæf sjón hjá konum í fimleikum, ásamt því þá keppti hún fyrst kvenna á Íslandi með framseríu sem endar á tvöföldu heljarstökki með hálfum snúningi á Evrópumótinu. Ásta vann einstaklingssigur í FACEOFF fimleikakeppninni í fjórða sinn.

Hanna Jóna Sigurjónsdóttir – kraftlyftingar

Frame-10-6-Hanna Jóna keppir í +84 kg flokki í klassískum kraftlyftingum. Árið sem er að líða er hennar annað ár í opnum flokki (fullorðins flokki) en hún keppti fyrst í kraftlyftingum í byrjun árs 2023. Í apríl sigraði hún sinn þyngdarflokk á bikarmóti KRAFT með glæsilegum árangri og hlaut þar keppnisrétt á HM í klassískum kraftlyftingum sem fram fór í Litáen í júní. Þar náði hún 11. sæti í sínum þyngdarflokki á sínu fyrsta stóra alþjóðlega móti.

Í október náði Hanna Jóna svo sínum besta árangri til þessa á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum þar sem hún varð Íslandsmeistari í sínum flokki. Hún lyfti 192,5 kg í hnébeygju, 107,5 kg í bekkpressu og 210 kg í réttstöðulyftu, samanlagt 510 kg. Hanna Jóna er því ríkjandi bikar- og Íslandsmeistari í +84 kg flokki. Með árangrinum á Íslandsmótinu í október ávann hún sér keppnisrétt á EM í febrúar nk.

Hulda Clara Gestsdóttir – golf

Frame-10-7-Hulda Clara hefur verið fremsti kylfingur GKG undanfarin ár, landsliðskylfingur og Íslandsmeistari í höggleik kvenna 2024. Þetta er í annað sinn sem Hulda Clara verður Íslandsmeistari kvenna í höggleik. Hulda sigraði Hvaleyrarbikarinn í ágúst 2024 en það mót er hluti af mótaröð GSÍ. Hún hlaut Guðfinnubikarinn, hann er veittur þeim áhugakylfingi í kvennaflokki á Íslandsmóti í golf sem er á lægsta skori.

Hulda Clara lék með kvennalandsliði Íslands á Evrópumóti landsliða og lék á Evrópumóti einstaklinga í kvennaflokki sem haldið var í Finnlandi og varð þar í 36. sæti. Hulda Clara er stigameistari kvenna á GSÍ mótaröðinni 2024. Hulda Clara keppir með háskólaliði University of Denver og sigraði á Summit League Women's Championship í apríl 2024, sem var hennar fyrsti sigur á háskólamóti í Bandaríkjunum. Sem stendur er Hulda Clara í 224. sæti á heimslista áhugamanna í golfi.

Ingeborg Eide Garðarsdóttir - frjálsíþróttir

Frame-10-8-Ingeborg Eide keppir í flokki hreyfihamlaðra, F37 í kúluvarpi. Hún lagði allt í sölurnar í upphafi árs til að ná inn á Paralympics í París og var á meðal þeirra níu keppenda í heiminum sem náðu keppnisrétti.

Tvö stór verkefni voru á dagskrá á árinu 2024; HM í Kobe í Japan í maí þar sem hún náði 4. sæti og svo Paralympics í París sem var hápunktur ársins, þar hafnaði hún í 9. sæti, aðeins einu sæti frá úrslitum. Til undirbúnings keppti hún á tveimur Grand Prix mótum á vegum IPC Athletics, annars vegar á Ítalíu í mars þar sem hún bætti árangur sinn í kúlunni og Íslandsmetið með 9,83m og hins vegar í París í júní. Ingeborg Eide bætti einnig Íslandsmet sitt innanhúss á Íslandsmóti fatlaðra í febrúar með 9,73m. Auk þess að æfa afreksíþróttir er Ingeborg virk í að hvetja fatlaða til þátttöku í íþróttum og leiðir stóran afrekshóp sem æfir með meistaraflokki Ármanns í frjálsum.

Hanna Rún Bazev Óladóttir – latíndansar

Frame-10-10-Hanna Rún Bazev Óladóttir og Nikita Bazev eru danspar í latíndönsum. Þau kepptu á Evrópumeistaramótinu í Þýskalandi í byrjun október og náðu þeim frábæra árangri að lenda í 3. sæti, það er besti árangur sem íslenskt danspar hefur náð á stórmóti síðan dansinn fór inn í Alþjóðadansíþróttasambandið WDSF. Þau eru bikar- og Íslandsmeistarar 2024.

Nikita og Hanna komust í úrslit á heimsmeistaramóti atvinnumanna í latíndönsum í Ungverjalandi og lentu í 6. sæti. Þann 7. desember kepptu þau í undankeppni fyrir heimsleikana 2025 í Sitges á Spáni. Þau lentu þar í 14. sæti sem kemur þeim í sterka stöðu til að komast inn á heimsleikana sem verða haldnir í Kína næsta sumar. Daginn eftir kepptu þau í Super Grand Prix sem er stigakeppni WDSF og lentu þar í 2. sæti. Nikita og Hanna eru danspar á heimsmælikvarða eins og sést á árangri þeirra á þessu ári. Þau eru í landsliði DSÍ og styrkþegar hjá afrekssjóði Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Tilnefningar til íþróttakarls Garðabæjar 2024

Aron Snær Júlíusson – golf

Frame-10-1-Atvinnukylfingurinn Aron Snær Júlíusson hefur verið meðal allra fremstu kylfinga landsins í mörg ár, sem landsliðsmaður og síðastliðin tvö ár sem atvinnumaður.

Aron er Íslandsmeistari í golfi 2024 og er það í annað sinn sem Aron hreppir Íslandsmeistaratitilinn. Á Íslandsmótinu 2024 setti hann nýtt mótsmet með því að leika Hólmsvöll í Leiru á 14 höggum undir pari. Aron var einnig stigameistari karla á GSÍ mótaröðinni 2024.

Aron tók þátt í fjórum mótum erlendis árið 2024, þar náði hann bestum árangri á ECCO Tour Polish Masters í Póllandi og hafnaði í 3. sæti. Þá varð hann í 9. sæti á Gamle Fredrikstad Open í Danmörku og í 10. sæti á Sand Valley Spring Series Final by ECCO í Póllandi. Aron hefur sinnt þjálfun og kennslu barna og unglinga hjá GKG.

Friðbjörn Bragi Hlynsson – kraftlyftingar

Frame-10-5-Friðbjörn keppir í -83 kg flokki í klassískum kraftlyftingum. Hann hóf árið á því að sigra karlaflokkinn á RIG með yfirburðum í janúar. Í mars keppti hann á EM í Króatíu og hafnaði í 13. sæti í gríðarlega sterkum og jöfnum flokki þar sem hann var nálægt sínum besta árangri. Þar náði hann að bæta eigið Íslandsmet í hnébeygju.

Friðbjörn náði svo frábærum árangri á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum þar sem hann vann sinn flokk með miklum yfirburðum og stórbætti sinn fyrri árangur. Hann lyfti 260,5 kg í hnébeygju og bætti þar eigið Íslandsmet. Í bekkpressu lyfti hann 167,5 kg og í réttstöðulyftu tvíbætti hann Íslandsmetið með því að lyfta 291 kg og svo 300 kg. Samanlagður árangur varð 728 kg, það er 21 kg bæting á eigin Íslandsmeti. Með þessum árangri náði hann yfir 100 GL stigum og er þriðji íslenski kraftlyftingakarlinn sem nær þeim stóra áfanga.

Nikita Bazev – latíndansar

Frame-10-9-Nikita Bazev og Hanna Rún Bazev Óladóttir eru danspar í latíndönsum. Þau kepptu á Evrópumeistaramótinu í Þýskalandi í byrjun október og náðu þeim frábæra árangri að lenda í 3. sæti, það er besti árangur sem íslenskt danspar hefur náð á stórmóti síðan dansinn fór inn í Alþjóðadansíþróttasambandið WDSF. Þau eru bikar- og Íslandsmeistarar 2024. Nikita og Hanna komust í úrslit á heimsmeistaramóti atvinnumanna í latíndönsum í Ungverjalandi og lentu í 6. sæti. 

Þann 7. desember kepptu þau í undankeppni fyrir heimsleikana 2025 í Sitges á Spáni. Þau lentu þar í 14. sæti sem kemur þeim í sterka stöðu til að komast inn á heimsleikana sem verða haldnir í Kína næsta sumar. Daginn eftir kepptu þau í Super Grand Prix sem er stigakeppni WDSF og lentu þar í 2. sæti. Nikita og Hanna eru danspar á heimsmælikvarða eins og sést á árangri þeirra á þessu ári. Þau eru í landsliði DSÍ og styrkþegar hjá afrekssjóði Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Valgarð Reinhardsson – áhaldafimleikar

Frame-10-2-Valgarð er fimleikakarl ársins hjá Fimleikasambandi Íslands. Hann er okkar fremsti fjölþrautarkeppandi í áhaldafimleikum, hann er nú áttfaldur Íslandsmeistari auk þess að vera margfaldur bikarmeistari með félagsliði sínu Gerplu.

Valgarð var lykilmaður í landsliði Íslands á árinu á þeim mótum sem hann keppti á. Þar má helst til telja Evrópumót, Norðurlandamót og heimsbikarmót í Cottbus og Cairo. Á Evrópumótinu tryggði karlaliðið sér 19. sæti sem er besti árangur sem karlalið Íslands hefur náð. Á Norðurlandamótinu náði karlaliðið tímamótaárangri þegar það lenti í 3. sæti ásamt því að Valgarð tryggði sér norðurlandameistaratitil í gólfæfingum.

Ægir Þór Steinarsson – körfubolti

Frame-10-3-Ægir Þór er fyrirliði meistaraflokksliðs Stjörnunnar sem er í toppbaráttu Bónusdeildarinnar í körfubolta karla. Ægir er að spila sitt fimmta tímabil fyrir Stjörnuna, hann lék hér á árunum 2019-2021 og aftur frá 2023-2025 en í millitíðinni fór hann í atvinnumennsku til Spánar. Það sem af er tímabili er Ægir stoðsendingahæstur af öllum í deildinni,  í þriðja sæti yfir stolna bolta ásamt því að vera með tæp 17 stig í leik.  Af heildarframlagi leikmanna í deildinni er Ægir í sjötta sæti, langhæstur Íslendinga. Framlag Ægis er þó langt í frá að vera mælt eingöngu í tölfræði enda algjör drifkraftur í leikjum Stjörnunnar á báðum endum vallarins sem drífur bæði liðið og áhorfendur með sér.

Ægir Þór er landsliðsfyrirliði. Árangur landsliðsins undir forystu Ægis hefur verið frábær þar sem sigur á Ungverjum og frækinn útisigur á Ítalíu standa upp úr. Íslenska landsliðið er sem stendur í frábærri stöðu til að tryggja sig inn á lokakeppni Evrópumótsins næsta sumar. Ægir Þór er einnig þjálfari hjá Stjörnunni.