Umsagnir um íþróttafólk

Tilnefningar til íþróttamanns ársins 2019 – íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar.

Hér að neðan eru umsagnir um það íþróttafólk sem tilnefnt er sem íþróttakarl og íþróttakona Garðabæjar. 

VEFKOSNING - íþróttamaður ársins

ÍTG mun síðan velja milli þeirra sem tilnefndir eru og styðjast við niðurstöðu vefkosningarinnar við það val. Vefkosningin er opin frá 20. desember 2019 til og með 1. janúar 2020.  Tilkynnt verður um val á íþróttakonu og íþróttakarli ársins á íþróttahátíð Garðabæjar 5. janúar 2020.

Með því að smella á hvern og einn má sjá nánari upplýsingar.  

Konur

Birna Aradóttir, lyftingakona í Stjörnunni

Birna Aradóttir er fædd árið 1999 og keppir fyrir Stjörnuna í ólympískum lyftingum. Hún æfir 5-7 sinnum í viku í Ásgarði og skipar sér sess á meðal sterkustu lyfturum á Norðurlöndunum. Birna sótti 5 gull á liðnu ári, þar á meðal á Íslandsmeistaramóti unglinga. Hún keppti einnig á Smáþjóðaleikunum og dugði árangurinn til að tryggja sér brons þar. Einnig setti hún Íslandsmet í snörun, jafnhendingu og samanlögðum árangri á árinu. Það er enginn vafi um það að Birna Aradóttir er sterkasta íþróttakonan í Garðabæ árið 2019.

Birna-Ara

Hulda Clara Gestsdóttir, golfari í GKG

Hulda Clara er þrátt fyrir ungan aldur orðin fastaliðsmaður í A-landsliði kvenna og komin í allra fremstu röð golfkvenna á Íslandi. Hún lék með kvennalandsliðinu á EM kvenna á Ítalíu. Á stigamótaröð GSÍ varð hún einu sinni í öðru sæti og tvisvar sinnum í þriðja sæti og hafnaði í þriðja sæti stigalistans eftir tímabilið. Hulda var lykilmaður í kvennasveit GKG sem sigraði á Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild kvenna. Á Evrópumóti klúbbliða hafnaði GKG sveitin í 7. sæti og gerði Hulda sér lítið fyrir og sigraði í einstaklingskeppninni, fyrst íslenskra kvenna til að ná því afreki.

Hulda Clara hefur mikinn metnað og dugnað sem hefur komið henni nú þegar í fremstu röð. Árangur í mótum sýnir að þarna er um alvöru framtíðarkylfing að ræða sem hefur fulla burði til að ná efstu stigum atvinnumennsku á LPGA mótaröðinni. 

HuldaClaraGestsdottir_1576772161448

Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona í Stjörnunni

Kolbrún Þöll gegndi lykilhlutverki í kvennaliði Stjörnunnar í hópfimleikum þar sem þær urðu bæði Bikar- og Íslandsmeistarar 2019. Hún var í stóru hlutverki í öllum stökkseríum liðsins, en hún keppti í öllum umferðum á dýnu og trampólíni auk dansi. Kolbrún Þöll er í dag besta hópfimleikakona heims í trampólín stökkum en hún hefur framkvæmt stökk með gífurlega háum erfiðleika í keppni. Þar má til dæmis nefna tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og þremur og hálfri skrúfu og yfirslag heljarstökk með beinum líkama og tveimur og hálfri skrúfu. Hún er svo búin að vera að æfa þrefalt heljarstökk með hálfri skrúfu sem hún stefnir á að frumsýna í byrjun árs 2020, þá fyrst allra kvenna í keppni. Kolbrún Þöll er ekki bara frábær íþróttakona heldur einnig frábær fyrirmynd fyrir aðra iðkendur.

KolbrunThollThorradottir

Þórhildur Gunnarsdóttir, handknattleikskona í Stjörnunni

Þórhildur er hjartað í liði Stjörnunnar og er leiðtogi þess innan sem utan vallar. Hún er einstaklega ósérhlífin og gefur alltaf 100% í alla leiki og hefur marg oft dregið samherja sína áfram á erfiðum stundum. Hún er trúnaðarkona liðsins gagnvart stjórn og var valin mikilvægasti leikmaður Stjörnunnar í fyrra. Þórhildur er að upplagi línumaður, en hefur spilað skyttu með frábærum árangri þegar þess er óskað. 

ThorhildurGunnarsdottir

Karlar

Aron Snær Júlíusson, golfari hjá GKG

Aron Snær hefur verið fastur maður í íslenska A-landsliði karla undanfarin ár og verið sá leikmaður sem hægt er að reiða sig á enda mjög öflugur og stöðugur kylfingur. Aron var í karlasveit GKG sem sigraði á Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild. Hann ásamt tveimur öðrum lönduðu öðru sæti í Evrópumóti klúbbliða í Frakklandi, sem jafnaði besta árangur íslenskt liðs. Aron Snær hafnaði í 5. sæti í einstaklingskeppninni.

Aron Snær tryggði sér þátttökurétt á Nordic League mótaröðinni fyrir næsta tímabil og leikur því á næsta ári í 3. deild atvinnumanna. Aron Snær er frábær fyrirmynd annara, yngri sem eldri, reglusamur, vinnusamur og ávallt jákvæður. Hann er öflugur liðsmaður, hvetjandi og drífandi.

AronSnaerJuliusson

Árni Rúnar Baldursson, lyftingamaður hjá Stjörnunni

Árni Rúnar Baldursson er fæddur 1995 og keppir fyrir Stjörnuna í ólympískum lyftingum. Árni æfir 5-7 sinnum í viku í Ásgarði ásamt því að þjálfa fyrir lyftingadeildina í sjálboðastarfi. Á árinu varð Árni Íslandsmeistari og tryggði sér fjórða sæti á norðurlandameistaramótinu 2019. Hann setti íslandsmet í snörun, jafnhendingu og samanlögðum árangri á árinu. Árni er einnig burðarbiti í félagsstarfi lyftingadeildarinnar og situr í stjórn hennar. Það er enginn vafi um það að Árni Rúnar Baldursson er sterkasti íþróttamaður í Garðabæ árið 2019.

ArniRunarBaldursson

Hilmar Snær Örvarsson, skíðamaður, íþróttir fatlaðra

Árið 2019 var stórt ár hjá Hilmari Snæ, hann var fyrstur Íslendinga til vinna sig­ur á heims­bikar­mótaröð fatlaðra 2019 í alpa­grein­um í Za­greb þar sem heims­bikar­mótið í svigi fór fram í janúar. Þótt Hilm­ar sé ein­ung­is á 19. ald­ursári hef­ur hann þegar öðlast reynslu af keppni á stór­móti því hann keppti á Vetr­ar-Para­lympics í Suður-Kór­eu í fyrra og var fána­beri Íslands á leik­un­um. Þar keppti hann einnig í svigi og stór­svigi en Hilm­ar kepp­ir í flokki aflimaðra (á öðrum fæti). Í Landgraaf í Hollandi náði Hilmar Snær síðan í tvenn verðlaun á heimsbikarmótaröðinni 2020 í svigi, þriðja sæti þann 5. nóvember og annað sæti þann 8. nóvember. Tvisvar hafnaði hann í fjórða sæti. Hilmar Snær er einnig mjög frambærilegur golfari úr röðum GKG. Það sýndi hann í sumar á Íslandsmótinu í höggleik þar sem hann var í 42. sæti. Árangur hans á mótinu; dagur 1 = 76 (+5 y.pari), dagur 2 = 73 (+2), dagur 3 = 82 (+11), dagur 4 = 71 (par).

HilmarSnaerOrvarsson

Ægir Þór Steinarsson, körfuknattleiksmaður í Stjörnunni

Ægir er fæddur 1991 og hóf sinn feril í Fjölni og lék með félaginu upp alla yngri flokkana og í meistaraflokki þar til hann hélt út í atvinnumennsku bæði í Svíþjóð og Spáni. Hann hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár og leikið 61 landsleik. Ægir kom til Stjörnunnar fyrir tímabilið 2018-2019 og var lykilmaður í árangri liðsins sem var sá besti í sögu deildarinnar og varð bæði bikar og deildarmeistari með liðinu. Hann skoraði að meðaltali 12,5 stig og gaf 7,5 stoðsendingar í leik. Hann var bæði valinn í úrvalslið ársins í Dominos deilinni og varnarmaður ársins. Auk þess var hann valinn af dómurum deildarinnar prúðasti leikmaðurinn. Ægir er mikil og góð fyrirmynd yngri iðkenda. Hann tekur virkan þátt í þjálfun yngstu krakkanna og gefur mikið af sér til félagsins.

AegirThorSteinarsson