Verkferill vegna innheimtu dvalargjalda á leikskólum og frístundaheimilum
Fjárhæð gjalda og afsláttur á hverjum tíma er samkvæmt gjaldskrá Garðabæjar sem samþykkt er af bæjarstjórn og birt á vef bæjarins gardabaer.is.
Foreldrar greiða hluta kostnaðar í hlutfalli við þann tíma sem börn þeirra dvelja í leikskólanum/frístundaheimilum ásamt fæði/hressingu.
Forráðamenn eru ábyrgir fyrir greiðslu dvalargjalda í leikskólum og frístundaheimilum. Unnt er að greiða gjöld samkvæmt innheimtukröfu í heimabanka eða með kreditkorta boðgreiðslum. Einnig getur greiðandi haft samband við sinn viðskiptabanka og skráð innheimtukröfu í beingreiðslu.
Dvalargjöld á leikskólum og í frístundaheimilum eru innheimt mánaðarlega fyrir fram. Gjalddagi dvalargjalda í leikskólum er 1. hvers mánaðar. Leikskólagjöld eru innheimt í ellefu mánuði á ári, júlí er gjaldfrjáls mánuður skilgreindur sem sumarleyfi. Gjalddagi dvalargjalda í frístundaheimilum er 1. hvers mánaðar.
Skilyrði fyrir dvöl á leikskóla og frístundaheimili er að forráðamenn barns séu ekki í vanskilum vegna gjalda á leikskólum og frístundaheimilum. Alla reikninga er hægt að sjá á þjónustugátt Garðabæjar með því að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.
Innheimtuferill vegna vanskila
- Gjalddagi dvalargjalda er 1. hvers mánaðar. Eindagi er 10 dögum frá gjalddaga. Séu dvalargjöld enn ógreidd 10 dögum eftir eindaga, fær greiðandi senda innheimtuviðvörun.
- Hafi greiðsla ekki borist 70 dögum frá gjalddaga upplýsir innheimtufulltrúi viðkomandi leikskólastjóra og/eða forstöðumanni frístundaheimilis um stöðu vanskila. Viðkomandi stjórnandi setur sig í samband við forráðamenn og hvetur þá til að standa skil greiðslum í samráði við innheimtufulltrúa.
- Hafi greiðsla ekki borist 90 dögum frá gjalddaga er viðkomandi forráðamanni send uppsögn dvalarsamnings. Leikskóli: Leikskólafulltrúa gert viðvart um vanskil, sem gerir uppsagnarbréf sem leikskólastjóri afhendir forráðamanni. Í bréfinu kemur fram að veittur er frestur í 30 daga til að ganga frá greiðslu áður en uppsögn tekur gildi.
Frístundaheimili:
Grunnskólafulltrúa gert viðvart um vanskil sem gerir uppsagnarbréf sem skólastjóri afhendir
forráðamanni. Í bréfinu kemur fram að veittur er frestur í 30 daga til að ganga frá greiðslu
áður en uppsögn tekur gildi.