Innritunarreglur

Reglur um innritun barna í leikskóla Garðabæjar

Sótt er um leikskólavist í þjónustugátt Garðabæjar. Leikskóladvöl er úthlutað eftir aldri barna. Nánast öll börn sem eru orðin 12 mánaða þegar skólaárið hefst, 1. september ár hvert, eiga kost á leikskóladvöl.

Sótt er um leikskóladvöl í þjónustugátt Garðabæjar (þar er tenging yfir í innskráningu í Völu leikskólakerfið). Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að barn eigi lögheimili í Garðabæ og sé búsett í bænum. 

Aðalinnritun í leikskóla hefst í mars/apríl en innritað er allt árið eftir því sem leikskólapláss losna. Við innritun í leikskóla er tekið mið af kennitölu barna, þau elstu fá úthlutað fyrst. Leitast er við að innrita systkini í þann leikskóla sem eldra systkini dvelur í þegar að úthlutun er komið samkvæmt aldursröð.  

Hér má kynna sér reglur um innritun barna á leikskóla í Garðabæ.

Innritun

Foreldrum er sent bréf þegar barn fær leikskóladvöl. Foreldrar hafa 5 virka daga umhugsunarfrest, eftir það er barnið tekið af biðlista. Dvöl er háð því skilyrði að foreldri skuldi ekki leikskólagjöld vegna eldra systkinis.

Uppsagnarfrestur

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er einn mánuður og miðast við fyrsta eða fimmtánda dag hvers mánaðar. Skuldi foreldrar þrjá mánuði er barninu sagt upp leikskóladvöl. Þegar uppsagnarbréf er afhent hafa foreldrar fengið viðvörun og tækifæri til að ganga til samninga um vangoldin gjöld.

Starfstími

  • Leikskólar eru opnir mánudaga til fimmtudaga frá 7:30-16.30, föstudaga 7:30-16:00. 
  • Leikskólar í Garðabæ eru opnir allt sumarið en börn skulu taka fjögurra vikna sumarleyfi.
  • Vistunartími barns er sveigjanlegur frá 20-40 tímum á viku.
  • Leikskólar eru lokaðir í páskafríi (3 dagar) og fyrsta virkan dag í janúar. Leikskólagjöld falla niður þessa daga.

Leikskólagjöld eru samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni. Einnig er hægt er að sækja um niðurfellingu á leikskólagjöldum ef barn er í fríi á eftirfarandi tímabilum:

  • Valfrjálsar frívikur 1-2 vikur – að lágmarki 5 samfelldir dagar.
  • Vetrarfríi - 4 samfelldir dagar í febrúar.
  • Jólafrí – virkir dagar á milli jóla- og nýárs.

Biðlistagreiðslur

Ef barn sem er orðið 12 mánaða og eldra er ekki byrjað í leikskóla en búið að fá úthlutað plássi er hægt að sækja um greiðslur þar til barnið byrjar í aðlögun á leikskólanum.  Sjá nánar hér. 

Forgangur

Heimilt er að veita forgang við úthlutun á leikskólaplássum og skal þá taka tillit til eftirfarandi atriða:

  • Fötlun barna, alvarleg þroskafrávik eða langtíma veikindi.
  • Erfiðleikar í félagsumhverfi viðkomandi barns.
  • Fötlun foreldra, systkina eða alvarlegra veikinda.
  • Aðild barns að barnaverndarmáli.
  • Foreldrar yngri en 18 ára.
  • Börn starfsmanna leikskóla með lögheimili í Garðabæ.

Leikskólafulltrúi, sérkennslufulltrúi og fulltrúi velferðarsviðs afgreiða forgangsóskir.

Vala leikskólakerfi

Garðabær hefur tekið í notkun nýjan hugbúnað, Völu leikskóla, fyrir utanumhald um umsóknir, dvalartíma og aðra þjónustu á leikskólastigi. 

Nánar um Völu hér