Heimsmarkmiðin

Oll-heimsmarkmid-stor-2Markmið um sjálfbæra þróun - áætlun til 2030

Garðabær vinnur að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem gilda til ársins 2030. Um mitt ár 2019 var settur á fót starfshópur um innleiðingu heimsmarkmiðanna í Garðabæ. Í starfshópnum sitja fulltrúar frá öllum sviðum Garðabæjar auk verkefnastjóra og á hópurinn að vinna náið með nefndum og starfsmönnum bæjarins, félagasamtökum og öðrum tengdum aðilum. Samkvæmt erindisbréfi á hópurinn að vinna að markmiðasetningu og tímasettri aðgerðaáætlun er snerta innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, auk eftirfylgni með verkefnunum ,,Heilsueflandi Garðabæ“, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ,,Velferð barna í Garðabæ“.  Öll þessi verkefni eru komin í góðan farveg og verða kynnt íbúum á næstu misserum.

38 undirmarkmið valin fyrir Garðabæ

Yfirmarkmið Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna eru 17 talsins og undirmarkmiðin eru 169. Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í innleiðingu heimsmarkmiðanna og kynnti starfshópurinn sér hvernig aðrir hafa unnið með heimsmarkmiðin og innleiðingu þeirra, þar á meðal Stjórnarráð Íslands og Kópavogsbær, sem er lengst kominn af sveitarfélögum á Íslandi í innleiðingunni. Eftir mikla yfirlegu voru 38 undirmarkmið valin fyrir Garðabæ, af 169 undirmarkmiðum heimsmarkmiðanna. Þessi 38 markmið og ferlið við val þeirra var staðfest í bæjarráði Garðabæjar þann 3. mars 2020 og í framhaldinu voru markmiðin kynnt fyrir fastanefndum bæjarins. Það var álit starfshópsins að þau 38 undirmarkmið sem valin voru tengist vel inn á þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar; efnahagslegar, félagslegar og umhverfislegar. Þessar stoðir eru grunnur að því að tryggja velferð einstaklinga og samfélaga með sjálfbærni til framtíðar í huga.

Hugmyndafræði sem nýtist í stefnumótun

Búið er að rýna útgefnar stefnur Garðabæjar og taka saman hvernig undirmarkmiðin 38 birtast í þeim og hvort einhver af markmiðunum vanti í stefnurnar. Hugmyndin er svo að í framhaldinu muni nýjar og endurskoðaðar stefnur vera unnar út frá hugmyndafræði Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, og þá sérstaklega þeim 38 undirmarkmiðum sem valin voru af bæjarráði fyrir Garðabæ. Ný forvarnastefna Garðabæjar, sem er að verða tilbúin, er einmitt unnin á þennan hátt.

Einnig verður skoðað hvernig best er að vinna að tölfræðilegum greiningum og mælingum á stöðu mála með það í huga að fylgjast með framförum í sjálfbærri þróun í Garðabæ í anda heimsmarkmiðanna. Stefnt er að samvinnu með Sambandi íslenskra sveitarfélaga að vali á sameiginlegum mælikvörðum og gagnaöflun til frekari greininga fyrir Garðabæ. Á næstunni verður unnið að kynningu á þeim markmiðum sem valin voru og hvernig þau munu í framhaldinu fléttast inn í starfsemi Garðabæjar.


Heimsmarkmid-og-Gardabaer