Fornleifar í Garðabæ

Gagnagrunnur um fornleifar er aðgengilegur á kortavef Garðabæjar.

Gagnagrunnurinn er afrakstur tveggja ára vinnu Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings að landfræðilegum fornleifagrunni, fornleifaskráningu og hnitsetningu fornleifa í Garðabæ. Með gagnagrunninum hafa skipulagsyfirvöld í bænum aðgang að upplýsingum um nákvæma staðsetningu fornleifa í bæjarlandinu. Alls eru skráðar um 600 fornleifar og annars eins fjöldi er óhnitaður á Álftanesi. Gagnagrunnurinn er aðgengilegur á kortavef Garðabæjar.

Frá árinu 1984 fram til dagsins í dag hefur fornleifaskráning staðið yfir í Garðabæ. Nú liggur fyrir heildarskráning á aðalskipulagsstigi í meginhluta bæjarfélagsins en unnið er að minjaskráningu á Álftanesi. Þá hefur verið unnin nákvæmari skráning og flokkun fornminja í tengslum við deiliskipulagsvinnu og framkvæmdir. Gagnagrunnurinn er aðgengilegur á kortavef Garðabæjar.

Fornleifar sem fundist hafa í landi Garðabæjar skipta hundruðum enda landssvæðið mjög víðfeðmt og teygir sig meðal annars út á Álftanes og langt inn í Heiðmörk. Fornleifarnar eru mjög fjölbreytilegar og margar afar merkilegar, þær elstu frá því um landnám. Flestar minjanna hafa eingöngu verið kannaðar á yfirborði við fornleifaskráningu en einnig hefur verið grafið á nokkrum stöðum. Stærstu uppgreftirnir hafa verið á Hofsstöðum við Kirkjulund og í Urriðakoti sunnan í Urriðaholti. Ýmsir athyglisverðir forngripir hafa fundist við þessar rannsóknir, til dæmis fannst bronsnæla frá 10. öld á Hofsstöðum og snældusnúður með rúnaletri frá 13. öld í Urriðakoti (sjá neðar). Fornleifafundir staðfesta því að hið tiltölulega unga bæjarfélag stendur á gömlum merg.

Fornleifar-hnitsettar

Fornleifar á Hofsstöðum og í Urriðakoti

Einhver stærsti víkingaaldarskáli sem fundist hefur á Íslandi er á Hofsstöðum við Kirkjulund, rétt austan og ofan við miðbæjarkjarnann í Garðabæ. Þar hefur verið gerður minjagarður með margmiðlunarsýningu. Skálinn var hefðbundinn að gerð með langeldi. Við hann fundust einnig soðholur (seyðar), hringlaga gerði, smiðja og gripir á borð við forn verkfæri. Bronsnælan fannst í rústum gerðisins. Urmull dýrabeina fannst í soðholunum sem gefur til kynna ræktun svína, nautpenings og sauðfjár. Snaeldusnudur-fra-13.-old

Í Urriðakoti við Urriðakotsvatn hefur verið seljabúskapur til forna. Þar hafa verið grafin upp mannvirki frá landnámstímanum sem hafa verið túlkuð sem kúasel, það er sumardvalastaður eða eins konar útibú frá bæ þar sem kýr voru hafðar yfir sumartímann. Fundist hafa leifar af skála, fjósi og húsi til mjólkurvinnslu og ostagerðar sem og soðholu. Þá eru þar nokkrar kynslóðir af yngri seljum með þrískiptum húsum, baðstofu og búri auk eldhúss, sem ná frá 13. til 15. aldar. Margt gripa hefur fundist við fornleifarannsóknir í Urriðakoti, þar á meðal perlur, innflutt brýni og bökunarhellur, silfurhringur og tveir snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með rúnaletri.

Minjar í Garðahverfi og víðar í Garðabæ

Minjar í Garðahverfi á Álftanesi eru einstakar, ekki síst fyrir þá heild sem þær mynda saman. Slíkt menningarlandslag er fáséð. Þar og í Gálgahrauni er að finna meira en 250 kunnar fornleifar. Skipulag byggðarinnar í Garðahverfi á rætur að rekja aftur á miðaldir hið minnsta. Þar er að finna merkilegar minjar, mismunandi vel varðveittar, um sjósókn, búskap, samgöngur, trúarlíf, skólahald, jafnvel réttarsögu. Þar var byggðin girt með hlöðnum görðum, varnargarður lá meðfram sjónum og norðaustanmegin teygði sig hinn mikli Garðatúngarður frá Balatjörn í suðaustri, um Dysjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Þarna eru, svo dæmi séu tekin, bæjarhólar, varir, brunnar, útihús, garðar, stekkir, fjárrétt, fjárborg, gerði, kirkjugarður, aftökustaður, steinar með áletrunum og fornar leiðir. Á Hausastöðum í Garðahverfi var Hausastaðaskóli reistur 1759, fyrsti heimavistarskólinn sérstaklega ætlaður almúgabörnum. Rústirnar eru augljósar. 

Aðrar fornar minjar

Fornar leifar er víða annars staðar að finna í landi Garðabæjar. Hér má nefna gamlar leiðir, til dæmis Fógetastíginn í Gálgahrauni, selstíga og leiðir á milli bæja, alfaraleið um Heiðmörk og einnig yfir í Kópavog, en á þeirri leið voru dysjar sakamanna sem líflátnir voru á Kópavogsþingstað. Í Arnarnesi er Gvendarbrunnur. Í Heiðmörk er að finna rústir af seljum, fjárskjólum, kolagröfum, brunnum, vörðum og fjárborg svo fátt eitt sé nefnt.

Refagildra-vid-Husfell

Gjárétt (Gjáarétt) var fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár, ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum hennar og Selgjár. Hún var reist árið 1840 úr hraungrýti. Í Selgjá eru friðlýstar seljasamstæður sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Þar er varla þverfótað fyrir margra alda gömlum tóftum. Á Vífilsstöðum eru sömuleiðis leifar af gömlu seli og fjöldi annarra búsetuminja.

Hér hefur aðeins verið tæpt á því helsta í því skyni að gefa einhverja mynd af þeim fjölda fornleifa sem til eru í Garðabæ. Ýmsar fleiri merkilegar minjar er að finna innan bæjarmarka í Garðabæ þótt ekki teljist þær endilega til fornleifa í strangasta skilningi þess orðs, en í Þjóðminjalögum er miðað við að minjar þurfi að vera 100 ára eða eldri til að teljast til fornleifa. Yngri minjar eru til dæmis leifar frá seinni heimsstyrjöld í Garðahverfi og Urriðakoti, landreksstöpull Alfreds Wegener á Arnarneshæð frá 1930 og hleðslur í hrauninu niður af Flötunum (Atvinnubótavegur) sem voru reistar í tengslum við járnbrautargerð snemma á 20. öld. 

Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur 
Erla Bil Bjarnardóttir, umhverfisstjóri