Kynning og samráð

Mikilvægt er að íbúar Garðabæjar og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta fylgist með skipulagsvinnu í sveitarfélaginu og geri athugasemdir á skipulagsferlinu telji þeir ástæðu til.

Kynning á skipulagstillögum

Allar breytingar á skipulagi svo og tillögur að nýju skipulagi ber að kynna almenningi í að minnsta kosti sex vikur áður en skipulag er samþykkt í bæjarstjórn og gefa fólki þannig færi á að skila inn athugasemdum sínum. Auk þess kveða skipulagslög á um það að unnin sé lýsing skipulagsverkefnis í upphafi ferlis og gerð aðgengileg almenningi. Þá skal einnig forkynna tillögu. Á það við um aðalskipulags- og deiliskipulags áætlanir. Svo kallaðar óverulegar breytingar hljóta þó styttra ferli.

Athugasemdir eða ábendingar sem berast á kynningartíma geta orðið til þess að breytingar verði gerðar á tillögum eða jafnvel að þær verði lagðar til hliðar.

Tillögur að skipulagsáætlunum eða breytingar á þeim eru til sýnis í þjónustuveri Garðabæjar, Garðatorgi 7 og á vef Garðabæjar á meðan kynningarferlið stendur yfir. Aðalskipulagstillögur eru að auki aðgengilegar hjá Skipulagsstofnun. Einnig er hægt að fá frekari útskýringar hjá starfsmönnum þjónustuvers eða á embætti skipulagsstjóra sé þess óskað.

Athugasemdum við kynnt skipulag eða skipulagsbreytingar skal skilað til þjónustuvers Garðabæjar eða á skipulag@gardabaer.is   innan auglýsts athugasemdafrests og skulu þær vera skriflegar, þ.e. undirritaðar af þeim sem þær gera.

Meðferð skipulagsáætlana

Almennar kynningar á skipulagstillögum standa yfirleitt 6 vikur en óverulegar breytingar 4 vikur. Reynt er eftir fremsta megni að stytta meðferðartíma en um leið er lögð áhersla á vandaða málsmeðferð. Ekki er kveðið á um lengd forkynninga í skipulagslögum en kynningartími þeirra hefur verið svipaður og við almenna kynningu. Aðal- og svæðisskipulagsbreytingar taka þó yfirleitt lengri tíma.

Samkvæmt skipulagslögum skiptist ferli skipulagsáætlana í þrjá meginþætti; lýsingu, forkynningu og kynningu.

Við forkynningar er óskað eftir ábendingum við útfærslu tillögunnar en þeim er ekki svarað með formlegum hætti. Athugasemdum sem berast við kynningu er hins vegar svarað og þar kemur fram rökstuðningur bæjarstjórnar.

Að lokinni kynningu þarf að taka tillögur fyrir í skipulagsnefnd og bæjarstjórn til samþykktar. Óverulegar deiliskipulagsbreytingar þarf þó ekki að taka fyrir aftur ef engar athugasemdir berast. Þegar deiliskipulagstillögur hafa verið samþykktar í bæjarstjórn þarf að senda tillögur ásamt fleiri málsgögnum til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun og að þeirri athugun lokinni er tillagan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og þar með tekur skipulagið gildi. Ef Skipulagsstofnun gerir athugasemd við deiliskipulagstillöguna eða skipulagsferlið þarf bæjarstjórn að taka tillöguna aftur fyrir og bregðast við athugasemdum stofnunarinnar.

Samþykkt svæðisskipulag eða aðalskipulag er sent Skipulagsstofnun til staðfestingar. Ef upp kemur ágreiningur milli Skipulagsstofnunar og sveitarfélags um svæðis- eða aðalskipulag er það sent umhverfisráðherra til afgreiðslu.

Allar skipulagsáætlanir taka gildi með birtingu í B-deild stjórnartíðinda.

Kærur

Vakin er athygli á málskotsrétti samanber 10. kafla skipulagslaga nr. 123/2010 og lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr.130/2011 en þar kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Ákvarðanir sem ráðherra eða Skipulagsstofnun ber að staðfesta samkvæmt skipulagslögum sæta þó ekki kæru til nefndarinnar.

Þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda.