Betri Garðabær
Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ.
Um lýðræðisverkefnið Betri Garðabæ
Betri Garðabær 2021-2022 er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ. Verkefnið var sett fyrst á laggirnar árið 2019 þegar hugmyndasöfnun fór fram í mars og rafrænar kosningar svo í maí og er þetta því í annað sinn sem ráðist er í verkefnið.
Gert var ráð fyrir 100 milljónum króna til verkefnisins 2021-2022. Garðabær er allur eitt svæði í hugmyndasöfnun og kosningu. Við úrvinnslu hugmynda verður leitast við að tryggja að verkefni sem kosið verður um séu landfræðilega dreifð innan sveitarfélagsins. Áhersla er lögð á að verkefnið er þróunarverkefni sem verður þróað áfram með íbúum út frá reynslu, ábendingum og þátttöku.
Verkefnið byggir á hugmyndum um umræðulýðræði, þátttökulýðræði, þátttökufjárhagsáætlunargerð og að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku, umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði.
Verkáætlun og tímasetningar
Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun; umræða um hugmyndir og úrvinnsla; kosningar og framkvæmd.
Helstu tímasetningar eru eftirfarandi:
- Hugmyndasöfnun var 17. febrúar - 8. mars 2021.
- Hugmyndir metnar af matshópi verkefnisins sem leggur mat á kostnað við hönnun og framkvæmd.
- Ákveðnum fjölda hugmynda stillt upp til kosninga.
- Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda var 26. maí – 7. júní 2021.
Sjá nánari upplýsingar um hugmyndasöfnun og svör við hugmyndum 2021 hér.
--> Rafrænum kosningum 2021 er lokið -sjá niðurstöður hér <----
Framkvæmd verkefna
Verkefni verða hönnuð, boðin út og framkvæmd frá sumri 2021 og fram á árið 2022 eftir umfangi verkefna. Upplýsingar um stöðu framkvæmda verða aðgengilegar á vef Garðabæjar og verða uppfærðar reglulega,
Leitast verður við að hafa samráð við hugmyndasmiði og íbúa um útfærslu verkefna.
Þeim hugmyndum sem ekki ná kosningu verður komið í ákveðinn farveg hjá Garðabæ, t.d. sem ábendingum til fagnefnda eða sem innleggi í skipulagsumræðu.
Aðstoð og upplýsingar
Hægt er að hafa samband við þjónustuver Garðabæjar í síma 525 8500 og óska eftir aðstoð.
Öllum stendur til boða að nota almenningstölvur í Bókasafni Garðabæjar, Garðatorgi og Álftanesútibúi, og þjónustuveri bæjarskrifstofa Garðabæjar á afgreiðslutíma þessara stofnana.
Spurningar um verkefnið og framkvæmd þess má senda á gardabaer@gardabaer.is eða með pósti stíluðum á Betri Garðabær, Bæjarskrifstofum Garðabæjar, Garðatorgi 7, 210 Garðabær.