Nágrannavarsla

Nágrannavarsla er ein besta forvörn sem hægt er að grípa til gagnvart innbrotum, þjófnuðum og skemmdarverkum í íbúðarhverfum.

Nagrannavarsla-litil-myndNágrannavarsla er ekki löggæsla heldur snýst hún um að íbúar standi saman og hafi auga með umferð um götuna sína. Verði íbúar varir við grunsamlegar mannaferðir, t.d. við hús nágranna sem þeir vita að er fjarverandi, er þeirra hlutverk að hringja í 112 og gefa lýsingu á atburðinum.

Góð ráð áður en haldið er í fríið

Forvarnir eigin heimilis

  • Loka vel gluggum og útihurðum
  • Ekki geyma stiga eða verkfæri á lóðinni
  • Hafa útiljósin kveikt, sérstaklega þegar fer að dimma á kvöldin.
  • Hafa svala- og garðhurðir læstar og með krækjum
  • Skipta um skrá þegar flutt er í nýtt húsnæði
  • Læsa þegar dvalið er í garðinum

Aðstoð við nágranna

  • Íbúi lítur eftir heimili nágrannans sé þess óskað
  • Munið að ákjósanlegt er að sá sem er beðinn um að gæta húss hafi það í sjónlínu frá t.d. gluggum og útidyrum. Látið þann vita sem lítur eftir húsinu ef ættingi eða vinur hefur verið beðinn um að líta inn af og til og fer þar með inn í húsið.

Nokkur dæmi um það sem góður granni getur gert

  • Hefur auga með grunsamlegum bíla- og mannaferðum.
  • Fylgist er með að póstur safnist ekki upp í bréfalúgu.
  • Setur sorp í ruslatunnu nágrannans.
  • Leggur bíl í heimreið.
  • Dregur frá/fyrir gluggatjöld.
  • Kveikir og slekkur ljós.
  • Slær blettinn að sumri / moka frá snjó að vetri

Minnum svo á ábendingar frá lögreglu um að tilkynna ekki um fjarveru frá heimili á samfélagsmiðlum.

Innleiðing nágrannavörslu

Garðabær hefur staðið fyrir innleiðingu á nágrannavörslu í hverfum bæjarins með því að bjóða upp á fundi þar sem nágrannavarsla hefur verið á dagskrá, bæði almenna fundi sem og sér fundi fyrir götustjóra. Fulltrúar gatna sem óska eftir límmiðum um nágrannavörslu til að setja í glugga geta haft beint samband við þjónustuver Garðabæjar, Garðatorgi 7.

Fundir þar sem nágrannavarsla hefur verið á dagskrá hafa verið með eftirfarandi hætti:

  1. Þegar byrjað er að innleiða nágrannavörslu í hverfi er íbúum hverfisins boðið á fund þar sem verkefnið er kynnt. Á fundunum greinir lögreglan frá tölfræði um fjölda brota í Garðabæ og fulltrúi Garðabæjar fræðir íbúa um hvert þeirra hlutverk getur verið í því að gæta eigna sinna og nágranna sinna.
  2. Á fundinum eru valdir tengliðir úr hópi íbúa í hverri götu, svokallaðir götustjórar, sem sjá m.a. um að upplýsa nýja íbúa um verkefnið svo og þá íbúa götunnar sem ekki komu á fundinn.
  3. Íbúum eru afhendir límmiðar til að líma í rúður húsa sinna sem segja að í götunni sé nágrannavarsla.
  4. Skilti er sett upp í götunum sem gefur nágrannavörslu til kynna.

Götustjórar

Götustjórar gegna lykilhlutverki í nágrannavörslunni. Til að nágrannavarslan sé virk þarf að hafa að minnsta kosti einn götustjóra í hverri götu.

Götustjóri er eins konar verkstjóri nágrannavörslunnar í sinni götu. Hann er tengiliður götunnar við lögregluna og Garðabæ, hann hefur lista yfir íbúa í götunni og hann sér um að upplýsa nýja íbúa um nágrannavörsluna.  Æskilegt er að götustjóri boði til íbúafundar eða götugrills einu sinni á ári. Hægt er að hafa þá reglu að velja nýjan götustjóra við það tilefni. Þannig verða fleiri virkir og meðvitaðir um nágrannavörsluna.

Tenglar og gátlistar

Upplýsingar um nágrannavörslu veitir:

Þjónustuver Garðabæjar, Garðatorgi 7.  Sími 525 8500, netfang gardabaer@gardabaer.is