Útivistarsvæði

Í Garðabæ eru fjölmörg útivistarsvæði, bæði við strandlengjuna og ofan byggðar.

Strandsvæði

Strandsvæði eru áhugaverð útivistarsvæði. Stærstur hluti strandlengju Garðabæjar var friðlýstur með friðlýsingu Skerjafjarðar árið 2009. 

Strandlengja Álftaness er löng og að mestu ósnortin. Stór, opin svæði eru á Bessastaðanesi og meðfram ströndinni og tjörnum á Álftanesi.

Meðfram Arnarnes-, Vífilsstaða- og Hraunsholtslæk eru samfelld opin svæði frá strönd að svæðum ofan byggðar. Opin svæði eru einnig á milli íbúðahverfa og liggja leiðir um þau að lækjasvæðum.

Fuglaskoðun

Fuglaskoðun má stunda víða í landi Garðabæjar. Frá norðanverðu Arnarnesi má sjá ýmsa vaðfugla á Kópavogi svo og umferðarfugla, þegar þeir eiga leið um landið. Í tjörnum við Arnarneslæk, þar sem hann rennur til sjávar, sjást endur, mófuglar og margæsir. Skógtjörn og fjaran framan við Bala í Garðahverfi eru einnig ákjósanlegar til fuglaskoðunar svo og vötnin, Vífilsstaðavatn og Urriðavatn. Í Heiðmörk má búast við að sjá auðveldlega  30 tegundir fugla auk árvissra flækinga og annarra gesta.

Útivistarsvæði ofan byggðar

Í Garðabæ teljast svæðin austan Elliðavatnsvegar ofan byggðar eða útmörk. Þar eru Vífilsstaðavatn, Heiðmörk, Búrfell og Búrfellshraun með Búrfellsgjá og Selgjá en inn á þau ná hlutar Bláfjalla- og Reykjanesfólkvanga. Vestan Elliðavatnsvegar eru Urriðavatn og umhverfi þess, Svínahraun, Vetrarmýri og Hnoðraholt og tengja þau byggðina við Heiðmörk.

Heiðmörk

Heiðmörk er að einum þriðja hluta í landi Garðabæjar. Þar eru Vífilsstaðahlíð, Hjallamisgengið, Grunnuvatnasvæði og Garðaflatir. Í Heiðmörk eru möguleikar til fjölbreyttrar útivistar. Meðal annars má þar nefna svæði til boltaleikja, tjaldsvæði og grillsvæði.

Í Heiðmörk eru nokkrir tugir trjátegunda og má skoða þær flestar í merktum trjásýnireit í Vífilsstaðahlíð. Allt frá árinu 1964 hefur fiskur verið ræktaður í Elliðavatni og veiðast þar nú urriði, bleikja og stöku lax. Frá austurhluta Garðabæjar er gönguleið frá Sunnuflöt um göng undir Reykjanesbraut, á milli hrauns og Vífilsstaðahlíðar að Heiðmörk.

Umsjón með Heiðmörk er á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Veiði er leyfð í Elliðavatni 1. maí - 15. september, veiðileyfi fást að býlunum að Elliðavatni og Vatnsenda, unglingar og lífeyrisþegar eru undanþegnir gjaldi fyrir veiðileyfi.

Kjóavellir

Kjóavellir eru aðsetur Hestamannafélagsins Spretts. Á svæðinu er hringvöllur fyrir æfingar og keppnir og gerði fyrir tamningar og kennslu. Þriggja km reiðvegur er innan félagssvæðisins, en þar tengjast reiðleiðir frá Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík. Frá Kjóavöllum eru ýmsar reiðleiðir um fjölbreytt útivistarsvæði, til dæmis um skógræktarsvæðið í Smalaholti, um Hnoðraholt, um Heiðmörk og umhverfis Elliðavatn.

Hesthús og félagsheimili Spretts að Kjóavöllum
sími 587 9189
www.sprettarar.is

Skógræktarsvæði

Skógræktarsvæði ofan byggðar eru í umsjá Skógræktarfélags Garðabæjar. Þau eru: Á Smalaholti við Vífilsstaðavatn, á Hnoðraholti, í Sandahlíð ofan Kjóavalla, á hluta Hádegisholts í Setbergslandi suður af Urriðavatni og í Tjarnholtum í Urriðavatnslandi. 

Á skógræktarsvæðum, sem jafnframt eru útivistarsvæði, gefst bæjarbúum kostur á að taka þátt í skógrækt, græða landið og njóta útiveru. Göngustígar eru um svæðin. Skógræktarspildum er úthlutað til skóla, félagasamtaka, vinnustaðahópa og einstaklinga, þeim að kostnaðarlausu.

Öll skógræktarsvæði eru opin almenningi. Fólk er beðið um að skilja ekki eftir rusl.

Skógræktarfélag Garðabæjar hefur umsjón með skógræktarsvæðum. 

Gróðursetning á uppgræðslusvæðum er á þriðjudagskvöldum í maí og júní frá kl. 20:00.

Urriðavatn

Urriðavatn og svæði umhverfis það njóta hverfisverndar í aðalskipulagi Garðabæjar vegna lífríkis og útivistargildis. Upplýsingar- og fræðsluskilti eru við Urriðavatn um sögu og lífríki svæðisins.

Urriðavatn er hraunstíflað vatn með votlendisflákum að sunnan- og norðanverðu og er þar mikið fuglalíf. Á vatninu verpir flórgoði öðru hvoru en hann bindur flothreiður sitt við sef.

Í Urriðavatni eru tvær fisktegundir, urriði og hornsíli. Þar sem mikið vistfræðilegt samspil er á milli þessara tveggja fisktegunda í vatninu munu allar breytingar sem hafa áhrif á aðra þeirra óhjákvæmilega hafa áhrif á hina. Búsvæði og vistsamfélag Urriðavatns veitir urriðanum og hornsílunum sérstöðu og eykur verndargildi þeirra. Ástand urriðastofnsins í Urriðavatni er talið gott en stofninn er mjög viðkvæmur fyrir veiði þar sem nýliðun urriðans er takmörkuð í vatninu og er því öll veiði bönnuð í Urriðavatni.

Urriðavatn og lífríki þess er sannkölluð náttúruperla og mikilvægt að vernda það sem slíkt. Útivistarfólk er hvatt til að ganga vel um Urriðavatn, svæðið umhverfis það og virða friðhelgi fugla yfir varptímann.

Eftirfarandi reglur gilda við Urriðavatn:

  • Á varptíma fugla og uppeldisskeiði unga frá 15. apríl – 15. ágúst
         - er óheimilt að vera með hunda innan hverfisverndaðs svæðis í kringum vatnið
         - er óheimilt að synda í vatninu
  • Leyfilegt er að vera með hunda í taumi á malbikuðum göngustíg meðfram byggðinni sem liggur á milli Kauptúns og Flóttamannavegar (norðaustan megin við vatnið). Sá göngustígur er fyrir utan hverfisverndaða svæðið í kringum vatnið.
  • Utan varptíma er leyfilegt að ganga umhverfis vatnið með hunda í taumi og alltaf skal fjarlægja saur eftir hund.
  • Öll veiði er bönnuð í vatninu.
  • Notkun báta og kajaka á vatninu er bönnuð allt árið um kring.
  • Óheimilt er að kveikja eld og grilla við vatnið.

    Kort af Urriðavatni: Rauða línan sýnir mörk hverfisverndarsvæðis.

Urridavatn_hverfisvernd


Vífilsstaðavatn 

Vífilsstaðavatn er austan við Vífilsstaði. Vatnið og nágrenni þess var friðlýst sem friðland 2. nóvember 2007. Rannsóknir á lífríki vatnsins hófust sumarið 1998, síðan hefur Vífilsstaðavatn verið í flokki vaktaðra vatna þar sem fylgst er árlega með lífríki þess. Töluvert af andfuglum verpir við vatnið og mófuglar umhverfis það.

Umhverfisnefnd hefur umsjón með Vífilsstaðavatni. Nemendum í 6. bekk í grunnskólum bæjarins hefur verið boðið upp á útikennslu með sérfræðingi um lífríki vatnsins. Umhverfisnefnd stóð einnig að útgáfu kennslubókarinnar Vífilsstaðavatn – gersemi Garðabæjar árið 2001. Upplýsinga- og fræðsluskilti eru í friðlandinu um lífríki vatnsins, gróður og fugla.

Veiðitímabilið í Vífilsstaðavatn er 1. apríl til 15. sept, veiðileyfi eru seld með Veiðikortinu, http://www.veidikortid.is/.

Verndun fuglalífs við Vífilsstaðavatn

Hundar skulu ætíð vera í taumi og skal fjarlægja saur eftir hund. Athugið þó að öll umferð hunda er bönnuð í friðlandi Vífilsstaðavatns og við Urriðavatn yfir varptímann, þ.e. frá 15. apríl til 15. ágúst.
Umferð báta og kajaka er stranglega bönnuð á Vífilsstaðavatni og Urriðavatni allan ársins hring.

Útivistarfólk er hvatt til að ganga vel um friðlandið og fylgja leiðbeiningum sem þar eru.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur var stofnaður árið 1975 og standa að honum tólf sveitarfélög auk Garðabæjar. Fólkvangurinn, sem er um 300 km2 að stærð, er stærsta friðlýsta svæði sinnar tegundar á landinu. Landslag er afar fjölbreytt og er þar meiri gróður en víðast hvar á Reykjanesskaga. Landið er því kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Skátasvæði

Skátasvæði er austan við golfvöll, í landi Oddfellowa í Urriðavatnsdölum, sunnan Vífilsstaðahlíðar. Árið 1968 var þar tekinn í notkun skálinn Vífilsbúð en hann var gjöf frá hreppsnefnd Garðahrepps. Skálinn brann til grunna árið 1997 og hefur nýr skáli verið reistur spölkorn frá fyrra skálastæði í kjarri vaxinni hlíð. Vinnuskóli Garðabæjar og skógræktarhópur hafa unnið í nágrenninu að gerð göngustíga, sáð í rofabörð og plantað trjám.

Aka má að skálanum um línuveg frá Heiðmerkurvegi.

Gönguleiðir

Möguleikar til gönguferða eru nánast ótakmarkaðir en nokkrar leiðir eru þó öðrum vinsælli vegna útsýnis, sögu- og náttúruminja eða sérkenna í landslagi. Nefna má gönguleið frá Heiðmerkurvegi á Búrfell og þaðan um Helgadal í Kaldársel, að Valahnúkum og Helgafelli.

Í friðlýsingu felst meðal annars, að öllu gangandi fólki er heimil för um svæðið, nema um girt vatnsból og ræktað land. Skylt er að ganga vel og hreinlega um og bannað er að níðast á gróðri eða landslagi með akstri utan vega. Allt jarðrask er bannað, þar með að taka hellur og mosa úr hraunum.