Afsláttur af gjöldum fyrir barnafjölskyldur
Ef fleiri en eitt barn eru í dvöl á leikskóla, í frístundaheimili eða hjá dagforeldrum eiga foreldrar rétt á systkinaafslætti fyrir eldra/elsta barnið. Foreldrar með tekjur undir viðmiðunarmörkum geta sótt um tekjutengdan afslátt af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra.
Systkinafsláttur
Foreldrar, sem hafa tvö eða fleiri börn á leikskóla, í frístundaheimili eða hjá dagforeldrum fá 50% afslátt af grunngjaldi fyrir barn umfram eitt og 75% af grunngjaldi fyrir hvert barn umfram tvö.
Afsláttur er veittur af grunngjaldi, fullt verð er greitt fyrir fæði. Systkinaafsláttur gildir alltaf fyrir eldra/elsta barn óháð fjárhæðum.
Ekki þarf lengur að sækja um systkinaafsláttinn heldur á hann að reiknast út sjálfkrafa.
Tekjutengdur afsláttur
- Nýjar reglur um tekjutengingu afsláttar af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 20. janúar 2022. Reglurnar eru settar til að koma til móts við barnafjölskyldur með lágar tekjur með það að markmiði að bæta kjör fjölskyldna.
- Foreldrar/forráðamenn með tekjur undir viðmiðunarmörkum geta sótt um tekjutengdan afslátt af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra.
Afslátturinn er 40% af almennu dvalargjaldi. - Viðmiðunartekjur til að fá afsláttinn eru miðaðar við heildartekjur heimilis og er veittur einstaklingum með lægri meðaltekjur að fjárhæð kr. 800.000 á mánuði og sambúðarfólki með lægri meðaltekjur en kr. 980.000 á mánuði
- Miðað er við meðaltekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá fyrir síðustu þrjá mánuði þegar umsókn er send inn.
- Systkinaafsláttur verður áfram óbreyttur þar sem allir foreldrar fá afslátt fyrir systkini af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra. Foreldrar sem eiga tvö eða fleiri börn fá 50% afslátt af grunngjaldi eldra/elsta barnsins og 75% af grunngjaldi fyrir hvert barn umfram tvö. Foreldrar sem eiga rétt á afslætti skv. tekjutengingu geta því fengið 40% afslátt af gjöldum fyrir eitt barn, 50% afslátt af barni tvö og 75% afslátt af þriðja barni og fleiri börnum.
- Rafrænar umsóknir um afslátt af leikskólagjöldum, afslátt af gjöldum frístundaheimila og afslátt af gjöldum til dagforeldra eru í þjónustugátt Garðabæjar: Sjá: Umsóknir - 04 Afsláttur af gjöldum
- Sækja þarf um afsláttinn fyrir 15. dag hvers mánaðar og skal fylgja yfirlit úr staðgreiðsluskrá sem sýnir tekjur síðustu þrjá mánuði. Hægt er nálgast staðgreiðsluyfirlit á þjónustuvef skattsins, skattur.is
- Ef umsókn berst fyrir 15. dag hvers mánaðar kemur afsláttur til framkvæmdar í næsta mánuði á eftir. Ekki þarf að sækja um mánaðarlega en gert er ráð fyrir að endurnýja þurfi umsókn um tekjutengdan afslátt einu sinni á ári. Afsláttur er veittur til og með 30. júní og því þarf að sækja aftur um fyrir 15. júlí á hverju ári.