Barnasáttmálinn - Barnvænt sveitarfélag
Garðabær tekur þátt í samstarfsverkefninu Barnvæn sveitarfélög og vinnur markvisst að því að innleiða Barnasáttmálann í starf sitt.
Í október 2020 var undirritaður samningur um að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Garðabæ og verða þannig hluti af verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Innleiðingarferlið er unnið í samstarfi við UNICEF á Íslandi og félags- og vinnumálaráðuneytið. Sjá frétt frá undirritun samningsins. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti þegar árið 2012 að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu og stofnanir Garðabæjar, sjá frétt þar um hér, en með þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög verður þeirri vegferð haldið áfram með formlegri og markvissari hætti. Skólar í Garðabæ hafa unnið margvísleg verkefni tengd Barnasáttmálunum á undanförnum árum og Flataskóli og Krakkakot, frístundaheimili skólans, hlutu viðurkenningu sem réttindaskólar UNICEF.
Verkefnið Barnvænt sveitarfélag miðar að því að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga. Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. UNICEF á Íslandi er íslensk landsnefnd
Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir réttindum barna bæði erlendis og á Íslandi.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð að lögum árið 1990 en allar þjóðir Sameinuðu þjóðanna – að undanskildum Bandaríkjunum – hafa samþykkt sáttmálann sem samanstendur af 54 greinum um réttindi barna. Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992 en fullgilding hans felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði sáttmálans. Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi 20. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf. Barnasáttmálinn felur í sér viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Barnasáttmálann í heild sinni má finna á vefnum: https://barnasattmali.is
Barnvæn sveitarfélög
Barnvæn sveitarfélög (e. Child Friendly Cities) eru bæir, borgir eða samfélög sem stýrt er af sveitar- eða bæjarstjórn þar sem markmiðið er að bæta aðstæður barna og tryggja að ávallt sé tekið tillit til réttinda barna s.s. við gerð stefnu, verkefna eða við aðra ákvarðanatöku. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities (CFC) en það hefur verið innleitt í fjölda sveitarfélaga víðsvegar um heim.
Innleiðingarferli Barnasáttmálans í sveitarfélagi er unnið í átta skrefum sem miða að því að virða og uppfylla réttindi barna og tekur ferlið að minnsta kosti tvö ár. Sjá nánar hér á vef um Barnvæn sveitarfélög.
Innleiðing verkefnisins í Garðabæ
Í lok ársins 2020 var skipaður tólf manna stýrihópur með þátttöku barna og ungmenna, fulltrúum sviða bæjarins og fulltrúum bæjarstjórnar til að hefja innleiðingu verkefnisins í Garðabæ. Innleiðingarferlið er unnið í samstarfi við UNICEF á Íslandi og var áætlað í átta þrepum á 2-3 árum.
Stýrihópurinn hefur unnið að kortlagningu og stöðumati þar sem farið er í greiningu á fyrirliggjandi gögnum um líðan, lífsskilyrði og réttindi barna sem og söfnun gagna sem ekki liggja þegar fyrir. Unnið er að skýrslu og aðgerðaráætlun sem verður birt á vef Garðabæjar þegar hún liggur fyrir.