Spurt og svarað um leikskólamál

 Garðabær vill bæta enn frekar skipulag og starfsumhverfi leikskóla þannig að tryggja megi stöðugleika í starfinu, farsæld barna og vellíðan starfsfólks. Haustið 2023 voru kynntar breytingar á umhverfi leikskólanna sem taka gildi í upphafi árs 2024, þar með taldar breytingar á dvalartíma barna og nýtt skráningarkerfi sem verður innleitt. Samhliða þessum breytingum verður farið í sérstakt átak til að fjölga starfsfólki á leikskólum Garðabæjar sem hleypt verður af stokkunum í febrúar. Hér fyrir neðan má finna spurt og svarað um þessar breytingar. 

Hér má kynna sér minnisblað sem var lagt fyrir bæjarráð Garðabæjar

Please find information in English here


Spurt og svarað um leikskólamál

Hvert er markmið breytinganna?

Markmið Garðabæjar með breytingum á skipulagi og starfsumhverfi leikskólanna er að skapa meiri stöðugleika í leikskólastarfinu og tryggja vellíðan og velferð barna og starfsfólks í leikskólum bæjarins.

Markmiðið er að halda áfram að veita foreldrum og börnum góða þjónustu á leikskólum bæjarins, tryggja gæði starfsins og bjóða áfram 12 mánaða börnum leikskóladvöl. 

Mikilvægt er að bæta starfsumhverfið enn frekar og laða að fleiri kennara og starfsfólk með menntun og reynslu.

Tillögur um bætt starfsumhverfi voru mikilvægar því ef haldið hefði verið áfram án aðgerða hefði þjónusta leikskóla verið skert  og fáliðunarreglan verið algengari með tilheyrandi raski fyrir fjölskyldur. 

Hverjar eru tillögurnar?

Tillögurnar eru í heildina fimmtán og verða innleiddar í tveimur fösum. Þær eru eftirfarandi: 

 

 1. Leikskólar í Garðabæ verði opnir á mánudegi til fimmtudags frá 07.30-16.30 en á föstudögum frá 07.30 – 16.00.
 2. Í leikskólum í Garðabæ verði boðið upp á sveigjanlegan vistunartíma barna, að lágmarki 20 tímar og að hámarki 40 tímar á viku.
 3. Í leikskólum í Garðabæ verði boðið upp á aukinn sveigjanleika fyrir foreldra og börn með því að taka fleiri vikur í frí á ársgrundvelli
 4. Leikskólar í Garðabæ verði lokaðir á föstudegi fyrir dymbilviku og í dymbilvikunni
 5. Leikskólagjöld í leikskólum í Garðabæ falli niður í vetrarfríi og milli jóla- og nýárs ef börn eru ekki skráð í vistun
 6. Skipulagsdögum í leikskólum í Garðabæ verði fjölgað frá fjórum í fimm
 7. Í leikskólum í Garðabæ verði starfsfólki í leikskólum með lögheimili í Garðabæ boðinn forgangur að ákveðnum fjölda leikskólaplássa
 8. Í leikskólum Garðabæjar verði starfsfólk leikskóla með lögheimili í Garðabæ boðinn afsláttur af leikskólagjöldum
 9. Í leikskólum í Garðabæ verði hverri deild tryggður sami undirbúningstími
 10. Í leikskólum í Garðabæ verði efld fræðsla og endurmenntun fyrir starfsfólk
 11. Í leikskólum í Garðabæ verði sett upp heildstæð áætlun til að takast á við mikla fjarveru og kostnað vegna veikinda starfsfólks
 12. Í leikskólum í Garðabæ verði skilgreind fleiri starfsheiti
 13. Í skóla- og frístundastarfi í Garðabæ verði eitt samræmt starfsheiti fyrir starfsfólk í leikskóla, grunnskóla og á frístundaheimilum
 14. Í leikskólum í Garðabæ verður viðmiðunum um grunnmönnun breytt í elstu hópunum
 15. Í leikskólum í Garðabæ verði skoðað starfsumhverfi leikskóla hvað varðar fjölda fermetra í leikrými barna inni og úti, aðstöðu starfsfólks og önnur rými.

Hér má kynna sér minnisblað sem lagt var fyrir bæjarráð Garðabæjar

 

Hvað þýðir sveigjanlegur dvalartími?

 

Leikskólar Garðabæjar eru opnir frá 07.30-16.30 fjóra daga vikunnar en til kl. 16.00 á föstudögum.

 

 • Lágmarksdvalarlengd barns er 20 klst á viku.
 • Hámarksdvalarlengd er 40 klst á viku, eða um það bil 160 klukkutímar á mánuði.
 • Dvalartími getur verið breytilegur milli daga og innan mánaðar. Skrá þarf dvalartíma eða breytingu á honum fyrir 20. hvers mánaðar.
 • Fyrir 20. hvers mánaðar þarf að skrá barn sérstaklega ef nýta á dvalartímann milli 14-16 á föstudögum.

 

Dæmi:

 

 • Ef barn dvelur 37 klst. í leikskóla þá getur skráningin verið 7 tímar á mánudögum, 8 tímar á þriðjudögum. 8 tímar á miðvikudögum, 8 tímar á fimmtudögum og 6 tímar á föstudögum.
 • Ef barn dvelur 38 klst. á viku í leikskóla þá getur skráningin verið 8 tímar fyrir fjóra daga og 6 tímar fyrir einn dag.
 • Ef barn dvelur 38 klst. á viku í leikskóla þá getur skráningin verið 8 tímar fyrir 2 daga, 9 tímar fyrir tvo daga og 4 tímar fyrir einn dag.
 • Ef barn dvelur 40 klst. á viku í leikskóla getur skráning verið 9 klukkustundir fyrir fjóra daga og fjórir tímar fimmta dag vikunnar. 

 

Hvers vegna er verið að stytta dvalartímann?

Garðabær er barnvænt samfélag og mikilvægt er að styðja við lengri samverustundir fjölskyldunnar með því að stytta dvalartíma barna á leikskólum. Dvalartími barna á íslenskum leikskólum er sá lengsti á Norðurlöndunum. Með styttri dvalartíma gefst einnig tækifæri til að fullstytta vinnuviku starfsfólks leikskólum og bæta lífskjör með auknum frítíma.

Með breyttum opnunartíma leikskóla og styttri dvalartíma barna þá verður minni dreifing á starfsfólki yfir daginn sem auðveldar vinnutímaskipulag fyrir stjórnendur eins og að koma til móts við styttingu vinnuviku og/eða skipulag á undirbúningstímum.

Stytting á opnunartíma leikskóla mun bæta þjónustu við flest börn sem dvelja í leikskólum þar sem mönnun verður auðveldari og minni líkur eru á að grípa verði til fáliðunarreglu sem skerðir þjónustu leikskóla.

 

Hvernig óska ég eftir nýjum dvalartíma í leikskóla?

Foreldrar/forsjáraðilar skrá beiðni um dvalartíma í þjónustugátt Garðabæjar/Völu leikskólakerfi. Hægt er að skrá dvalartíma í heila klukkustund. Alla jafna er þess óskað að dvalartími haldist óbreyttur í að minnsta kosti 2-3 mánuði en sá sveigjanleiki er fyrir hendi að breyta lengd dvalar fyrir 20 hvers mánaðar. Leikskólastjóri þarf að samþykkja beiðni um dvalartíma hverju sinni.

 

Hvaða áhrif hefur það á starfsumhverfið að stytta dvalartíma barna?

 Styttingin hefur jákvæð áhrif á leikskólastarfið , minnkar álag, styrkir faglegt starf og auðveldar mönnun. Styttri dvalartími hefur jákvæð áhrif á börn sem og skipulag og starfsemi leikskóla. Betri mönnun á leikskólum verður til þess að sjaldnar þurfi að grípa til fáliðunarreglu og börn fá meiri samfellu í dvalartíma sínum á leikskólanum.

 

Verð ég að taka sex vikur í frí?

Samkvæmt reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009 er kveðið á um að börn fái að minnsta kosti fjórar vikur í samfellt sumarleyfi.

Auk þeirra fjögurra vikna sem taka skal yfir sumarmánuðina (júní – ágúst) bætast við tvær valfrjálsar vikur (5/10 dagar) sem hægt er að taka á hvaða tíma sem er á árinu. Um er að ræða valmöguleika til viðbótar við reglugerðarbundið frí leikskólabarna. Ekki er skylt að taka þessar tvær auka vikur, en fjölskyldur eru hvattar til þess. 

Fjölskyldur fara saman í frí á öllum tímum ársins og því er það fjölskylduvænt að auka sveigjanleika á vistunartíma barna í leikskóla með möguleikum á auknu fríi. Líkt og í sumarleyfisvikum verða leikskólagjöld felld niður þessar 1-2 vikur kjósi foreldrar að nýta þær.

 

Hvers vegna er skipulagsdögum fjölgað?

Með fjölgun skipulagsdaga er verið að gefa enn frekari svigrúm til þróunar á innra mati, gerð starfsáætlana og skólanámskráa. Með því að bæta við einum starfsdegi dregur úr fundartímum starfsfólks eftir að leikskólar loka og þar með úr yfirvinnuálagi.

Allir skipulagsdagar leikskóla eru á sama tíma og skipulagsdagar í grunnskólum og svo verður áfram.

 

 Hvers vegna verður veittur afsláttur og forgangur til starfsfólks?

Afsláttur af leikskólagjöldum er hvati fyrir fólk til að starfa í heimabyggð og gæti aukið stöðugleikann við mönnum leikskóla. Skilyrði fyrir forgangi yrði að viðkomandi starfsmaður sé hæfur, sé ráðinn að minnsta kosti til árs og ráðningarhlutfall þarf að vera 70-100%

Hvernig á að takast á við fjarveru og veikindi starfsfólks?

Veikindatíðni í leikskólum er há miðað við á öðrum starfsstöðum og hefur farið vaxandi á síðustu árum. Fjarvera starfsfólks veldur álagi á starfshópinn og eykur líkur á hraðari starfsmannaveltu.

Breytingarnar sem hér er fjallað um eru liður í því að styrkja mönnun leikskóla og þannig draga úr álagi á annað starfsfólk. Þá verður horft til heilsueflingar, markvissa fræðslu til starfsfólks og efla notkun Bradford-kvarða til að styðja við stjórnendur á leikskólum. 

Hvernig breytist gjaldskráin?

Gjaldskrá bæjarins fyrir leikskóladvöl mun taka breytingum. Ný gjaldskrá tekur gildi 1. mars 2024. 

Gjaldskrá leikskóla í Garðabæ má finna hér:  https://www.gardabaer.is/stjornsysla/fjarmal/gjaldskrar/

Fyrir liggur að:

 •  Leikskólinn verður ekki gjaldfrjáls og fæðisgjöld greiðast áfram.
 • Áfram verður veittur systkinaafsláttur og tekjutengdur afsláttur til foreldra.
 • Gefin verður afsláttur af leikskólagjöldum velji foreldrar að taka sér lengra orlof en fjórar vikur að sumri með börnunum (tvær auka vikur) og sérstök skráning verður í skólana fyrir börn í vetrar – og jólafríum og fellur gjald niður ef þau frí eru ekki nýtt í dvöl í leikskólanum.
 • Við útreikning leikskólagjalda er miðað við meðalfjölda dvalartíma á dag. Ef foreldrar stytta dvalartíma eins og kostur er lækka leikskólagjöld í samræmi við það.

 

Hvenær taka tillögurnar gildi?

Þegar bæjarstjórn hefur afgreitt þær er áætlað að þær öðlist gildi frá áramótum, en þær verða innleiddar yfir nokkurn tíma. Fyrri hluti tillaga tekur gildi á 1. janúar og kemur til framkvæmda 1. mars 2024  og yfir vorönnina. Seinni aðgerðaráætlun fer af stað á haustönn.

 

Hver var ferill málsins?

 

Á vormánuðum 2023 hóf Garðabær endurskoðun á starfsfumhverfi leikskóla bæjarins til að finna leiðir til að styrkja skólana til faglegs starfs og tryggja að börn njóti þess að vera í leikskólum. Þá voru teikn á lofti að fjarvistir starfsfólks væru að aukast og að erfiðara væri að manna stöður í leikskólum.

 

 • Skipaður var vinnuhópur á vormánuðum sem samanstóð af stjórnendum í leikskólum, leikskólafulltrúa og sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs. Sá hópur fundaði á vormánuðum og lagði fram drög að tillögum í maí. Til að fá fram viðhorfum starfsfólks í leikskólum var lögð fyrir könnun í júní. Niðurstöður þeirra könnunar mótuðu einnig meðfylgjandi tillögur.
 • Tillögurnar fóru til umfjöllunar hjá leikskólanefnd í september og október og fundaði nefndin alls 5 sinnum um þær. Í þeirri nefnd eiga allir hagaðilar sína fulltrúa, kjörnir nefndarmenn frá meiri- og minnihluta, foreldrar, stjórnendur leikskóla og starfsfólk leikskóla.
 • Tillögurnar voru kynntar fyrir fulltrúum frá foreldraráðum og starfsfólki leikskóla. Í kjölfarið var skilað inn umsögnum til leikskólanefndar frá hverjum leikskóla fyrir sig, annars vegar frá foreldrum og hins vegar starfsfólki.
 • Á fundi leikskólanefndar þann 18. október 2023 voru meðfylgjandi tillögur samþykktar af öllum nefndarmönnum og vísað til afgreiðslu bæjarráðs.
 • Á fundi bæjarráðs 24. október 2023 fór fram kynning á tillögum frá sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs. Bæjaráð vísaði tillögum til fræðslu- og menningarsviðs til nánari útfærslu á fjárhagslegum þáttum og til afgreiðslu á fundi bæjarráðs þann 7. nóvember 2023. Samhliða samþykkti bæjarráð að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögurnar.
 • Tillögurnar voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar 16. nóvember 2023.