Leikskóladeildir loka sjaldnar
Deildir í leikskólum Garðabæjar loka mun sjaldnar vegna fáliðunar eftir að umfangsmiklar breytingar voru gerðar á leikskólaumhverfinu í bænum.
Deildir í leikskólum Garðabæjar loka mun sjaldnar vegna fáliðunar eftir að umfangsmiklar breytingar voru gerðar á leikskólaumhverfinu í bænum. Börn dvelja skemur í leikskólum og dregið hefur úr álagi og veikindum starfsfólks leikskólanna.
„Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir okkar góða leikskólasamfélag. Það var að vel hugsuðu ráði sem við gerðum miklar breytingar á kerfinu, m.a. með styttum opnunartíma og bættum sveigjanleika í vistunartíma. Áður dvöldu 35% barna í leikskólanum lengur en í fjörutíu tíma á viku. Nú er 40% barna með vistunartíma sem eru 40 tímar og 60% með vistunartíma sem eru 40 tímar eða minna. Með þessu hefur okkur tekist að draga úr álaginu á leikskólasamfélagið, veikindadögum fækkar og þar með þurfum við sjaldnar að loka deildum. Þessar breytingar eru að skila árangri og betri þjónustu,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri.
Garðabær hefur komið til framkvæmdar rúmlega helming af aðgerðaráætlun í leikskólamálum, en með haustinu verður seinni hluti áætlunarinnar innleiddur. Viðhorfskönnun verður meðal annars gerð meðal foreldra, starfsfólks leikskóla og stjórnenda í haust til að meta árangurinn.
Aðlögun og innritun
Í haust hefja rúmlega 300 börn leikskólagöngu í Garðabæ, en yngstu börnin verða 12 mánaða í ágúst.
Stjórnendur leikskólanna vinna nú að því að undirbúa aðlögun og upplýsa foreldra um næstu skref og dagsetningu vegna aðlögunar barna. Þá færast sum börn á milli leikskóla í haust og helst þetta allt í hendur þegar kemur að upphafi skólaársins.
Þegar börnin hefja leikskóladvöl skýrist hvenær næsta inntaka barna verður í leikskólana. Garðabær hefur það þó fyrir reglu að ef pláss losnar er það yfirleitt boðið um leið til forráðafólks barns á biðlistanum.
Í ágúst mun Garðabær fara yfir stöðuna í leikskólunum og biðlistann og innrita börn samkvæmt kennitöluröð með tilliti til þeirra plássa sem eru í boði. Foreldrar mega búast við næsta upplýsingapósti 21. ágúst.
Segðu hó! Komdu að starfa í Garðabæ
Mönnun hefur gengið vel fyrir haustið en betur má ef duga skal.
Garðabær vill laða til sín hæft og faglegt starfsfólk. Leikskólakennarar sem hafa áhuga á að kynna sér leikskólastarfið í Garðabæ er bent á síðuna www.starfabaer.is, en fjölmörg fríðindi eru í boði auk þess sem stytting vinnuvikunnar er að fullu komin til framkvæmda.
Í leikskólum Garðabæjar starfar samhentur hópur ólíkra einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn. Starfið fer allt fram í öflugri og líflegri teymisvinnu. Við kappkostum að skapa vinnustað þar sem allar hugmyndir fá að njóta sín og starfsfólk getur haft raunveruleg áhrif. Þannig gefum við fólkinu okkar tækifæri til að nýta krafta sína til að vaxa í starfi, hvar sem styrkleikarnir liggja.
Nokkrar praktískar upplýsingar fyrir fjölskyldur:
- Upplýsingar um innritun eru veittar í gegnum netfangið: innritun@gardabaer.is
- Vala leikskólakerfi heldur utan um flest sem viðkemur umsókn og leikskóladvöl barnsins.
- Foreldrum er sent bréf þegar barn fær leikskóladvöl. Foreldrar hafa 5 virka daga í umhugsunarfrest, eftir það er barnið tekið af biðlista.
- Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að barn eigi lögheimili í Garðabæ og sé búsett í bænum. Sjá innritunarreglur hér: Innritunarreglur
- Biðlistagreiðslur: Ef barn sem er orðið 12 mánaða og eldri er ekki byrjað í leikskóla en búið að fá úthlutað plássi er hægt að sækja um greiðslur þar til barnið byrjar í aðlögun á leikskólanum. Sjá nánar hér.