Skipulagsmál
Skipulag er vettvangur stefnumótunar sveitarfélagsins um mikilvæg viðfangsefni sem snerta þróun þess. Stefnan skal unnin í samráði við íbúa. Skipulagsvinna sveitarfélagsins er byggð á markmiðum skipulagslaga og stefnu landsskipulags og svæðisskipulags eftir því sem við á.
Embætti skipulagsstjóra starfar á grundvelli skipulagslaga, skipulagsreglugerðar og samþykkt bæjarstjórnar um embættisafgreiðslur svo og öðrum lögum, reglugerðum og samþykktum er varða skipulagsmál í sveitarfélaginu. Á skipulagsdeild er bæjarbúum, bæjarfulltrúum, ráðgjöfum, hönnuðum og verktökum veittar upplýsingar og ráðgjöf um skipulagsmál.
Afgreiðslufundir skipulagsstjóra eru alla jafna á tveggja vikna fresti, 1. og 3. fimmtudag í mánuði. Svo að mál verði tekið fyrir á afgreiðslufundi þurfa viðunandi gögn að hafa borist í síðasta lagi í lok dags á fimmtudegi vikuna fyrir afgreiðslufund.
Fundir skipulagsnefndar eru alla jafna á tveggja vikna fresti, 2. og 4. fimmtudag í mánuði. Svo að mál verði tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þurfa viðunandi gögn að hafa borist í síðasta lagi í lok dags á fimmtudegi vikuna fyrir skipulagsnefndarfund.
Hvernig á að senda inn fyrirspurn eða umsókn:
1. Byrjaðu á því að skrá þig inn á þjónustugátt Garðabæjar með rafrænum skilríkjum
2. Smelltu á „Umsóknir“
3. Smelltu á „Tækni- og umhverfissvið“
4. Smelltu á þá fyrirspurn eða umsókn sem við á
5. Fylltu út skjalið og hengdu við viðeigandi fylgiskjöl.
6. Smelltu á „senda umsókn“