Stefnur Garðabæjar
Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt stefnu í ýmsum málaflokkum.
Stefnurnar eru flestar unnar í samráði við hagsmunaaðila og er leitast við að gefa bæjarbúum kost á að taka þátt í mótun þeirra með ýmsum hætti
Heimsmarkmiðin og Garðabær
Garðabær vinnur að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Búið er að rýna núverandi stefnur með tilliti til þeirra 38 undirmarkmiða sem valin hafa verið fyrir Garðabæ og tengjast þau vel inn á þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar; efnahagslegar, félagslegar og umhverfislegar. Nýjar og endurskoðaðar stefnur verða einnig unnar með þessi markmið í huga.
Upplýsingar um markmiðin 38 má finna hér.
Aðgerðaáætlun Garðabæjar gegn hávaða 2018-2023
Aðgerðaáætlun Garðabæjar gegn hávaða 2018-2023 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 19. desember 2019.
Aðgerðaráætlunin er unnin út frá niðurstöðum hávaðakortlagningar frá árinu 2017.
Afreksstefna ÍTG
Markmiðið með afreksstefnu íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar er m.a. að veita afreksíþróttafólki í bænum styrki til að stunda íþrótt sína.
Umsóknir um styrki þurfa að berast til íþrótta- og tómstundaráðs fyrir 1. febrúar ár hvert.
Fjölmenningarstefna
Fjölmenningarstefna Garðabæjar var endurskoðuð á árinu 2014. Stefnan var unnin að frumkvæði fjölskylduráðs Garðabæjar en undir hana heyra málefni innflytjenda. Samstarf var haft við fulltrúa frá skólum Garðabæjar og þá aðila sem koma að málefnum innflytjenda.
Samhliða stefnunni var unnin handbók þar sem fram koma hagnýtar upplýsingar um gerð móttökuáætlana fyrir skóla.
Fjölskyldustefna
Endurskoðuð fjölskyldustefna Garðabæjar var samþykkt í bæjarstjórn 5. júní 2008.
Fjölskyldustefna Garðabæjar er stefna alls sveitarfélagsins og tekur til allra þeirra þátta er áhrif hafa á velferð og aðstæður fjölskyldna í Garðabæ.
Með fjölskyldustefnunni er leitast við að skapa sem heildstæðasta umgjörð utan um fjölskylduna og þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir henni.
Fjölskyldustefna Garðabæjar var fyrst samþykkt á fundi bæjarstjórnar 20. desember 2001.
Húsnæðisáætlun Garðabæjar
Húsnæðisáætlun Garðabæjar á að leitast við að tryggja að íbúar sveitarfélagsins hafi
öruggt húsnæði hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki. Í
áætluninni er horft til þarfa allra bæjarbúa, óháð stöðu, eignaformi, stærð og gæðum
húsnæðis.
Húsnæðisáætlun Garðabæjar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 21. febrúar 2019.
Innkaupa- og úrgangsstefna - Garðabær gegn sóun
Innkaupa- og úrgangsstefna fyrir stofnanir Garðabæjar var samþykkt haustið 2019. Stefnan verður innleidd í stofnanir Garðabæjar.
Íþrótta- og tómstundastefna
Stefna í íþrótta- og tómstundamálum var samþykkt í bæjarstjórn 3. desember 2015.
Stefnan byggir á fyrri stefnu sem var samþykkt árið 2010.
Stefnan skiptist upp í fjóra meginflokka: Íþróttastarf barna- og unglinga, almenningsíþróttir, afreksíþróttir og tómstundastarf.
Jafnlaunastefna
Jafnlaunastefna Garðabæjar var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 3. október 2019. Jafnlaunastefnunni er ætlað að tryggja að jafnréttis sé gætt við allar launaákvarðanir.
Jafnréttisstefna
Jafnréttisstefna Garðabæjar 2019-2022 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 21. nóvember 2019.
Markmið jafnréttisstefnu Garðabæjar er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum fyrir einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins.
Loftslagsstefna
Loftslagsstefna Garðabæjar var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 16. desember 2021 og
Með stefnunni stefnir Garðabær á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi bæjarins. Loftslagsstefnan gildir fyrir allar stofnanir bæjarins.
Loftslagsstefna Garðabæjar er rýnd á hverju ári af Umhverfisnefnd og yfirmarkmið og undirmarkmið stefnunnar uppfærð með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára.
Lýðheilsu- og forvarnastefna
Lýðheilsu- og forvarnarstefna Garðabæjar var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 18. febrúar 2021. Hin nýja lýðheiðslu- og forvarnarstefna tekur við af eldri forvarnarstefnu sem var í gildi frá 2014-2018.
Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar fylgir eftir stefnumótun í lýðheilsu og þróun forvarna í bæjarfélaginu.
Lýðræðisstefna
Endurskoðuð lýðræðisstefna Garðabæjar var samþykkt í bæjarstjórn 17. febrúar 2022. Þess má geta að Garðabær var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem setti sér lýðræðisstefnu (2010). Undanfarin ár hefur Garðabær lagt áherslu á framúrskarandi þjónustu og ánægju íbúa þar sem lýðræði og virkt samráð er einn af hornsteinum stjórnkerfisins.
Lýðræðisstefna Garðabæjar byggir á meginmarkmiðunum þátttöku, þekkingu og þróun. Stefnan tekur jafnframt mið af þeim undirmarkmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem
Garðabær hefur valið sér til innleiðingar og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna .
Með lýðræðisstefnu Garðabæjar eru lagðar línur fyrir farsælt samstarf til framtíðar milli kjörinna fulltrúa, stjórnsýslu og íbúa og annarra hagsmunaaðila með öflugri samráðsmenningu; rökræðum, samtali, samráði og upplýsingagjöf. Það verður gert með jákvæðni, fagmennsku og áreiðanleika í fyrirrúmi
Stefnan var unnin af þverfaglegum starfshópi starfsmanna í samráði við fjölskylduráð Garðabæjar, nefndir bæjarins og íbúa.
Lýðræðisstefna Garðabæjar - Þátttaka - Þekking - Þróun (2021-2030)
Fylgiskjöl lýðræðisstefnu:
Viðauki 1 - Lög og reglugerðir
Viðauki 2 - Leiðir til að hafa áhrif
Viðauki 3 - Aðgerðaráætlun - 2022-2024
Mannauðsstefna
Mannauðsstefna Garðabæjar nær til allra starfsmanna sem starfa hjá sveitarfélaginu. Hún fjallar um almenn réttindi og skyldur starfsmanna sem samþykktar eru hverju sinni. Í stefnunni koma fram væntingar Garðabæjar til starfsmanna sinna.
Í þjónustustefnu Garðabæjar er lögð áhersla á að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu, að viðskiptavinirnir séu ánægðir og að hjá Garðabæ starfi hæfir starfsmenn. Með því að tvinna saman markmið þjónustustefnunnar og mannauðsstefnunnar er hægt að styrkja stöðu Garðabæjar enn frekar.
Helstu markmið mannauðsstefnu Garðabæjar er að ráða hæfa starfsmenn sem vilja þroskast í starfi, eru ánægðir og sveigjanlegir og tilbúnir til að koma til móts við síbreytilegar þarfir sveitarfélagsins.
Mannauðsstefnan á að stuðla að góðum starfsháttum og að starfsmenn fái tækifæri til að vaxa í starfi. Til þess að ná markmiðunum þarf sveitarfélagið að skapa starfsmönnum góð starfsskilyrði þar sem þeir fá tækifæri til að dafna í starfi á jafnréttisgrundvelli.
Garðabær vill veita viðskiptavinum/íbúum sínum góða þjónustu og stuðla með því að aukinni ánægju í sveitarfélaginu. Það er sameiginlegt verkefni bæjarstjórnar, stjórnenda sveitafélagsins og starfsmanna að ná þessu markmiði. Til þess að þetta takist þarf samstarfið að byggjast á trausti og virðingu og starfsmenn að taka ábyrgð á eigin verkefnum.
Að leiðarljósi eru höfð gildi Garðabæjar.
Jákvæðni, fagmennska og áreiðanleiki
Í mannauðsstefnunni verður farið yfir meginmarkmið Garðabæjar sem miða að því að tryggja hæfni og ánægju starfsmanna. í undirmarkmiðunum eru taldar upp aðgerðir sem tryggja framkvæmd stefnunnar.
Menningarstefna
Sjá síðuna Menningarstefna fyrir Garðabæ
Greinargerð starfshóps um fjölnota menningar- og fræðamiðstöð í Garðabæ frá apríl 2018
Menntastefna
Menntastefna Garðabæjar 2022-2030 var samþykkt í bæjarstjórn 7. apríl 2022.
Eldri stefna sveitarfélagsins var endurskoðuð og var það gert í víðtæku samráði við börn í leik-, grunn- og tónlistarskólum, starfsfólk, kjörna fulltrúa, forráðamenn og bæjarbúa. Einnig voru kallaðir til sérfræðingar í stefnumótun og skólamálum ásamt því að stefnan var kynnt í nefndum og ráðum sveitarfélagsins.
Yfirskrift stefnunnar er farsæld og framsækni en skólasamfélagið í Garðabæ byggir á þeirri hugmyndafræði að farsæld sé grundvöllur framsækni. Þannig er áhersla lögð á heilbrigða sjálfsmynd, jákvæða hugsun og farsæl samskipti meðal barna og ungmenna.
Í stefnunni eru listuð upp nokkur yfirmarkmið skólastarfs í Garðabæ. Hlutverk hvers skóla og hluti af sjálfstæði hans er að móta aðgerðaráætlun á grunni skólastefnunnar og setja þar fram undirmarkmið og þær leiðir sem farnar verða að markmiðum stefnunnar. Stefnunni er svo fylgt eftir í aðgerðar- og starfsáætlunum skólanna, með gátlista og mælaborði sem mælir lykilþætti.
Menntastefna Garðabæjar - farsæld og framsækni
Persónuverndarstefna
Persónuverndarstefna Garðabæjar var samþykkt á fundi bæjarráðs Garðabæjar 17. júlí 2018. Stefnan gildir samkvæmt lögum nr 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Persónuverndarstefna Garðabæjar
Skjalastefna
Skjalastefna Garðabæjar nær til allra skjala sem tengjast rekstri sveitarfélagsins og stofnana þess, óháð miðlum. Hún nær til þeirra sem starfa hjá Garðabæ eða eru sveitarfélaginu samningsbundnir.
Skjalastefnan var samþykkt í bæjarstjórn 18. febrúar 2016.
- Skjalastefna Garðabæjar (pdf-skjal)
Staðardagskrá 21
Staðardagskrá 21 er ætlað að vera forskrift að sjálfbærri þróun sveitarfélagsins, sem mótuð er í samvinnu við íbúa þess. Staðardagskrá 21 var samþykkt í bæjarstjórn 10. janúar 2002. Verkefnið er í höndum umhverfisnefndar Garðabæjar.
- Markmið og framkvæmdaáætlun Staðardagskrár 21 , samþykkt í febrúar 2004.
Upplýsingar um Staðardagskrá 21 í Garðabæ eru á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Stefna í málefnum aldraðra
Í vinnu við stefnumótun í málefnum eldri borgara 2016 – 2026 var lagt upp með að skapa heildstæða sýn þar sem horft er á alla þjónustu Garðabæjar við eldri borgara sem eina heild.
Eftirfarandi fulltrúar nefndar um málefni eldri borgara og fjölskylduráði Garðabæjar leiddu vinnu við stefnuna ásamt framkvæmdastjóra öldrunar- og heimaþjónustu Garðabæjar:
Ástbjörn Egilsson, formaður nefndar um málefni eldri borgara
Harpa Guðný Hafberg, fjölskylduráði
Ingibjörg Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri öldrunar- og heimaþjónustu
Ólafur Proppé, nefnd um málefni eldri borgara
Sturla Þorsteinsson, formaður fjölskylduráðs
Stefna í málefnum fatlaðs fólks
Stefna Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks var samþykkt í september 2012. Stefnan nær til alls þjónustusvæðisins sem er Garðabær og Álftanes.
Stefnan byggir á lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 með síðari breytingum sem og reglugerðum og reglum sveitarfélagsins.
Markmið laganna kemur fram í 1. gr. þeirra:
“Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“
Jafnframt byggir stefnumótunarvinnan á framkvæmdaáætlun Velferðarráðuneytis í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2012 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er það í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.
Í 3. gr. samningsins koma fram almennar meginreglur sem byggt hefur verið á og varða m.a.:
- virðingu fyrir sjálfræði og sjálfstæði einstaklingsins
- bann við mismunun
- virðingu fyrir mannlegum fjölbreytileika
- virka þátttöku í samfélagi án aðgreiningar
- jöfn tækifæri.
- Stefna Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks
Umhverfisstefna
Umhverfisstefna Garðabæjar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 16. mars 2017.
Yfirmarkmiðin eru að vitund og þekking á umhverfi og umhverfismálum sveitarfélagsins sé eins og best verður á kosið og náttúran sé lifandi hluti af daglegu lífi og lífsgæðum íbúa Garðabæjar.
Umhverfisstefnunni fylgir samantekt yfir líffræðilega fjölbreytni í Garðabæ.
- Umhverfisstefna Garðabæjar (pdf-skjal 4 mb)
Viðbragðsáætlun Garðabæjar
Viðbragðsáætluninni er ætlað að tryggja að lykilstarfsemi bæjarins rofni ekki þótt miklar fjarvistir verði á meðal starfsfólks.
Í áætluninni er einnig greint frá skipan neyðarstjórnar Garðabæjar sem tekur til starfa þegar vá stendur yfir og er þá tengiliður við aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins.
Viðbragðsáætlanir leik- og grunnskóla bæjarins eru birtar á vef viðkomandi skóla.
Þjónustustefna
Þjónustustefna Garðabæjar var samþykkt árið 2016.
Grunngildi Garðabæjar eru: Jákvæðni, fagmennska og áreiðanleiki. Í þessum gildum felast markmið starfsfólks Garðabæjar í samskiptum sínum við íbúa og aðra viðskiptavini, innri sem ytri.
Þjónustustefnan miðar að því að viðmót og þjónusta alls starfsfólks bæjarins sé í takti við grunngildin.