Hvatapeningar
Hvatapeningar ársins 2023 eru 55.000 krónur á barn. Öll börn á aldrinum 5-18 ára, með lögheimili í Garðabæ, fá hvatapeninga, þ.e. börn fædd á árunum 2005-2018.
Hvatapeningar ársins 2023 eru 55.000 krónur á barn. Öll börn á aldrinum 5-18 ára, með lögheimili í Garðabæ, fá hvatapeninga, þ.e. börn fædd á árunum 2005-2018.
Athugið að hvatapeningar fyrnast alltaf um áramót. Það þýðir að ráðstafa verður hvatapeningum fyrir áramót og skila inn kvittun til endurgreiðslu þegar það á við. Hvatapeningar ársins 2023 eru aðeins greiddir út á árinu 2023.
Hvatapeninga 2023 er hægt að nýta vegna reikninga sem eru gefnir út á árinu 2022 og 2023.
Hvatapeningana er hægt að nýta til að lækka kostnað við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf sem nær yfir 10 vikur að lágmarki. Undantekning er 5 og 6 ára börn þar sem lágmarkstímalengd námskeiða
er 20 kennslustundir óháð vikufjölda.
Ungmenni í þremur elstu árgöngunum, þ.e. þau sem eru fædd 2005, 2006 og 2007 geta fengið hvatapeninga greidda vegna kaupa á korti í líkamsræktarstöð.
Frá árinu 2017 er hægt að nýta hvatapeninga til þess að greiða niður tónlistarnám, bæði í Tónlistarskóla Garðabæjar og öðrum tónlistarskólum.
Hvatapeningar eru hugsaðir til að hvetja börn og unglinga á aldrinum 5 til 18 ára til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi sem leitt er af þar til hæfum leiðbeinendum.Ástæða þess að sveitarfélög um land allt hafa tekið upp slíkar hvatagreiðslur eru niðurstöður langtíma rannsókna á líðan íslenskra barna og ungmenna. Rannsóknirnar sýna að þátttaka í slíku starfi, sem nær yfir að minnsta kosti 10 vikur, hefur marktæk áhrif á bætta vellíðan og minni „vandamál“. Íþróttastarf og skátastarf vegur þar langþyngst á metum.
Úthlutun peninganna fer fram í gegnum skráningarkerfið Nóra/Sportabler vegna starfs hjá þeim félögum sem tengd eru við skráningarkerfi Nóra/Sportabler. Bæði er hægt að nýta hvatapeningana beint hjá félögum innan Garðabæjar sem og í öðrum sveitarfélögum. Þegar hvatapeningar eru nýttir í gegnum skráningarkerfi Nóra/Sportabler þarf að haka í kassann "Nota hvatapeninga Garðabæjar" og þá lækkar upphæð æfingagjalda um þá upphæð sem nemur inneign hvatapeninga fyrir barnið. Athugið að ekki er hægt að endurgreiða eða bakfæra styrk frá félögum þegar foreldri/forráðamaður hefur ráðstafað styrknum til félags.
Ef félög eru ekki tengd við skráningarkerfið Nóra/Sportabler þarf að koma reikningi til þjónustuvers Garðabæjar með upplýsingum um upphæð hvatapeninga sem á að nýta sem og upplýsingum um hvert á að endurgreiða. Athugið að ekki er hægt að koma með reikninga til endurgreiðslu hvatapeninga vegna félaga sem tengd eru Nóra/Sportabler.
Leiðbeiningar um notkun hvatapeninga
Tvær leiðir til að nýta hvatapeninga
Ekki þarf lengur að úthluta hvatapeningum á Minn Garðabær. Ef félag sem barnið er að iðka tómstundir hjá er tengt Nóra/Sportabler skráningarkerfinu á að nýta hvatapeninga beint í gegnum Nóra/Sportabler kerfið. Þá er hakað í að nota hvatapeninga og æfingargjöldin lækka sem nemur inneign hvatapeninga. Til að nýta hvatapeningana til félaga sem ekki eru tengd Nóra/Sportabler er hægt að koma með reikning frá félaginu í þjónustuver Garðabæjar og fá hvatapeninga endurgreidda. Ferli þessara tveggja möguleika má sjá hér að neðan.
Hvatapeningar - Nóri/Sportabler
Hvatapeningar hjá félögum innan eða utan Garðabæjar sem nýta skráningarkerfið Nóra/Sportabler
Það er einfalt að nýta hvatapeningana um leið og barnið er skráð í félagið.
- Þegar þú ert búin/n að skrá þig inn í Nóra/Sportabler smellir þú á Námskeið/flokkar í boði, fyrir aftan nafnið á því barni sem þú ætlar að skrá.
- Þú finnur rétta deild, flokk og námskeið og smellir á Skráning á námskeið.
- Á síðunni sem þá kemur upp færðu þann möguleika að haka í reitinn Nota hvatapeninga Garðabæjar. Ef þú gerir það, kemur fram hversu mikla hvatapeninga barnið á inni og sú upphæð dregst frá gjaldinu sem þú átt að greiða. Ef þú vilt ekki nota alla hvatapeningana geturðu breytt upphæðinni.
- Þú gengur síðan frá greiðslunni með því að velja hvernig greiðslu verður háttað og aðrar upplýsingar sem beðið er um. Þú borgar gjaldið að frádregnum hvatapeningunum.
Athugið að hvatapeningar eru ekki endurgreiddir vegna félaga sem tengd eru Nóra/Sportabler.
Hvatapeningar - önnur félög ekki tengd Nóra/Sportabler
Ef nýta á hvatapeningana til annarra félaga en þeirra sem nota skráningarkerfi Nóra/Sportabler, þarf að greiða fullt gjald til félagsins, og koma með frumrit af kvittun í þjónustuver Garðabæjar.
Þeir sem æfa með félögum tengdum Nóra/Sportabler en hafa greitt fullt gjald geta tímabundið nýtt sér þessa sömu leið til að ná í hvatapeningana.
Þeir sem greiða fullt gjald en ætla að fá hvatapeninga endurgreidda þurfa að framvísa reikningi með eftirfarandi upplýsingum:
a) Nafni og kennitölu félags
b) Dagsetningu greiðslu
c) Fyrir hvað er verið að greiða
d) Æfingatímabili
e) Nafni og kennitölu iðkanda
Jafnframt þurfa að fylgja upplýsingar um nafn greiðanda, kennitölu og símanúmer.
Hægt er að senda reikninginn á gardabaer@gardabaer.is, en á reikningnum þurfa að koma fram allar þær upplýsingar sem beðið er um hér að ofan sem og bnúmer bankareiknings sem endurgreiða á inn á. Einnig er hægt er að koma með reikninginn í þjónustuver Garðabæjar eða senda hann í pósti en þá verða að fylgja með upplýsingar um bankareikning sem leggja á hvatapeningana inn á og kennitala reikningseiganda.
Póstfangið er:
Þjónustuver Garðabæjar
Garðatorgi 7
210 Garðabær