Minjagarður að Hofsstöðum

Fornleifarannsóknir við Hofsstaði hófust árið 1994 og fundust þar minjar af næst stærsta landnámsskála sem fundist hefur á Íslandi.

IMG_0799Hofsstaðir við Kirkjulund

Opið allan sólarhringinn.
Fyrir móttöku á stærri hópum skal hafa samband við 
bæjarskrifstofur Garðabæjar, Garðatorgi 7, sími: 525 8500, 
netfang: gardabaer@gardabaer.is

Minjagarðurinn að Hofsstöðum er aðili að Samtökum um sögutengda ferðaþjónustu, http://www.soguslodir.is/.

Merkar fornminjar í miðbæ Garðabæjar

Fornleifarannsóknir við Hofsstaði hófust árið 1994 og fundust þar minjar af næst stærsta landnámsskála sem fundist hefur á Íslandi. Skálinn er frá lokum 9. aldar og ber vott um þann stórhug sem fyrstu íbúar landsins báru í brjósti sér. Niðurstöður rannsóknanna varpa mikilvægu ljósi á líf og starf fólks við upphaf byggðar á tímum víkinga.

Þegar ljóst var hversu merkar fornminjarnar á Hofsstöðum eru ákvað bæjarstjórn Garðabæjar að þær skyldu varðveittar og umhverfi þeirra gert aðlaðandi og aðgengilegt almenningi. Fyrsti áfanginn var hönnun og uppsetning á minjagarði sem umlykur minjarnar. Garðurinn er á lóð Tónlistarskólans að Kirkjulundi í miðbæ Garðabæjar. Hann er hannaður af Ragnhildi Skarphéðinsdóttur landslagsarkitekt hjá arkitektastofunni Hornsteinum í samráði við Ragnheiði Traustadóttur fornleifafræðing.

Fjölþætt margmiðlunarsýning um lífið á landnámsöld

MargmiðlunÍ framhaldi af hönnun garðsins samdi Garðabær við fyrirtækið Gagarín um framleiðslu á gagnvirku kynningarefni þar sem lífi og fólki starfsins sem bjó að Hofsstöðum á landnámsöld eru gerð skil. Afraksturinn er fjölþætt, fróðleg og stórskemmtileg margmiðlunarsýning sem birtir þrívíddarteikningar af bænum og munum sem fundust í uppgreftrinum. Kalla má fram margvíslegar upplýsingar í hljóðsettri, myndrænni framsetningu. Sýningunni fylgja líka myndasögur þar sem leitast er við að varpa ljósi á líf ímyndaðra íbúa Hofsstaða við upphaf 10. aldar. Við miðlun upplýsinga er m.a. notuð kortalausn sem setur upplýsingarnar um landnámsmenn í landfræðilegt samhengi með ítarupplýsingum, auk þess sem hægt er að skoða rúmlega 300 örnefni innan Garðabæjar á korti. Upplýsingar um störf og búskaparhætti á þessum tíma eru settar upp í tímaás í nokkrum flokkum.

Miðlað með snertiskjáum

SnertiskjárÁrni Páll Jóhannsson sýningahönnuður vann fyrir Garðabæ að útfærslu sýningarinnar á efninu og varð niðurstaðan sú sýna margmiðlunarefnið utandyra við minjarnar sjálfar. Efninu er miðlað með snertiskjám sem komið er fyrir í sérhönnuðum stöndum. Einnig er hægt að varpa efninu upp í glugga á Tónlistarskólanum og á tjald inni í sal skólans. Nýherji sá um tæknilega útfærslu verkefnisins en Vélsmiðjan Héðinn um smíði á stöndunum.

Norræn safnaverðlaun

Garðabær og samstarfsfyrirtækið Gagarín hlutu norrænu verðlaunin NODEM árið 2004 fyrir sýninguna að Hofsstöðum.  Verðlaunin eru veitt fyrir notkun stafrænnar tækni í safnastarfi. 
Alls voru send inn 48 verkefni en dómnefnd valdi síðan 11 verkefni af þeim sem voru tilnefnd til verðlauna í fjórum flokkum. Verkefnin sem voru tilnefnd voru kynnt á sýningu og ráðstefnu í Helsinki í Finnlandi í maí 2004. Ráðstefnugestir kusu síðan á milli verkefna í hverjum flokki.  Minjagarðurinn að Hofsstöðum var tilnefndur í flokknum "stationary/ fixed media application" ásamt öðru verkefni og vann í þeim flokki.

Fjósnir - myndasögur

MyndasagaFjósnir er aðalpersóna myndasagnanna. Sögurnar eru ekki síst ætlaðar yngstu gestum Hofsstaða. Eftir að Víkingar ráðast að Dyflinni árið 902 skila örlögin írskum dreng, Fjósni, til Hofsstaða. Þar á hann margvísleg samskipti við heimamenn oft koma honum sérkennilega fyrir sjónir. Sögurnar eru í gamansömum dúr en styðjast við ritaðar heimildir og í þeim koma við sögu ýmsir munir sem fundust við fornleifauppgröftinn. 

Skálinn

Hofsstaðaskálinn er um 30 metrar á lengd og 8 metrar á breidd að utanmáli en gólfflötur hans er um 170 fermetrar. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti, hellur lagðar í anddyrið og stétt framan við skálann. Moldargólf og langeldur var eftir miðjum skálanum. Stafverkið var úr viði og ekki ólíklegt að svefnloft hafi verið til staðar. Líklega hefur skálinn verið þiljaður með viði að innan. Þetta var stórbýli.

Íbúar

Ekki er vitað með vissu hverjir byggðu skálann né heldur hverjir tróðu þar grundir þótt eitt og annað megi finna um íbúa Reykjaness. Miðað við stærð skálans má ætla að þarna hafi haft búsetu 20-30 manns að meðtöldum þrælum og vinnulýð. Hofsstaðir eru innan þess lands sem Ingólfur Arnarson, fyrsti landneminn hélt fyrir sig og aðeins 2 km frá Vífilsstöðum þar sem Vífill, leysingi Ingólfs, bjó.