Minjagarður á Hofsstöðum

Fornleifarannsóknir við Hofsstaði hófust árið 1994 en árið 1985 komu í ljós minjar sem bentu til búsetu á þessum stað á 10. eða 11. öld. Nýuppfærð sýning sem Gagarín hannaði hefur nú verið opnuð í Minjagarðinum. Fræðsluskilti og margmiðlunarsjónaukar gefa gestum færi á að skyggnast inn í fortíðina á nýstárlegan hátt. 

Hofsstaðir við Kirkjulund

Opið allan sólarhringinn.
Margmiðlunarsýning sem hlaut norræn verðlaun árið 2004 stóð lengi vel í Minjagarðinum en nú hefur fræðsluefnið sem sýningin bjó yfir verið yfirfært á vefinn afturtilhofsstada.is

Í Minjagarðinum eru þrír margmiðlunarsjónaukar sem gefa gestum færi á að skyggnast inn í fortíðina en auk þess hafa fræðsluskilti verið uppfærð. Á Garðatorgi 7 má svo fræðast enn frekar um lífið í Garðabæ frá landnámi til dagsins í dag á sýningunni Aftur til Hofsstaða . Það er margmiðlunarfyrirtækið Gagarín sem á veg og vanda að hönnun sýninganna.

Nánari upplýsingar gefur menningarfulltrúi Garðabæjar í síma 820 8550 eða olof@gardabaer.is .  Minjagarðurinn að Hofsstöðum er aðili að Samtökum um sögutengda ferðaþjónustu, http://www.soguslodir.is/.

Merkar fornminjar í miðbæ Garðabæjar

Bæjarstjórn Garðabæjar óskaði eftir að Þjóðminjasafn Íslands tæki að sér fornleifarannsókn á svæðinu þar sem minjarnar komu í ljós við jarðrask vegna framkvæmda við leikskólann Kirkjuból árið 1985. Forkönnun fór fram árið 1989 en sjálf rannsóknin hófst árið 1994. Í torfveggnum, sem var meðal minja, fannst aska frá landnámstíma og sömuleiðis í soðholunni sem einnig var uppgötvuð.


Ákveðið var að byggja Minjagarð og varðveita þannig merkar fornminjar og gera umhverfið fræðandi, aðlaðandi og aðgengilegt fyrir gesti. Niðurstöður fornleifarannsóknanna varpa mikilvægu ljósi á líf og starf fólks við upphaf byggðar á tímum landnáms og stórhug fyrstu íbúa Garðabæjar en landnámsskálinn er að öllum líkindum frá lokum 9. aldar og með stærri skálum sem fundist hafa á Íslandi. Efni á upplýsingaskiltum og margmiðlunarsjónaukum er byggt á fornleifarannsókninni.

Skálinn

Hofsstaðaskálinn er um 30 metrar á lengd og 8 metrar á breidd að utanmáli en gólfflötur hans er um 170 fermetrar. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti, hellur lagðar í anddyrið og stétt framan við skálann. Moldargólf og langeldur var eftir miðjum skála. Stafverkið var úr viði og ekki ólíklegt að svefnloft hafi verið til staðar. Líklega hefur skálinn verið þiljaður með viði að innan og ljóst að um stórbýli var að ræða.

Íbúar

Ekki er vitað með vissu hverjir byggðu skálann né heldur hverjir tróðu þar grundir þótt eitt og annað megi finna um íbúa Reykjaness. Miðað við stærð skálans má ætla að þarna hafi haft búsetu 20-30 manns að meðtöldum þrælum og vinnulýð. Hofsstaðir eru innan þess lands sem Ingólfur Arnarson, fyrsti landneminn hélt fyrir sig og aðeins 2 km frá Vífilsstöðum þar sem Vífill, leysingi Ingólfs, bjó.