Minjagarður að Hofsstöðum

Fornleifarannsóknir við Hofsstaði hófust árið 1994 og fundust þar minjar af næst stærsta landnámsskála sem fundist hefur á Íslandi.

IMG_0799Hofsstaðir við Kirkjulund

Opið allan sólarhringinn en endurgerð fræðsluskilta er í bígerð.  Nánari upplýsingar gefur menningarfulltrúi Garðabæjar í síma 820 8550 eða olof@gardabaer.is .  

Minjagarðurinn að Hofsstöðum er aðili að Samtökum um sögutengda ferðaþjónustu, http://www.soguslodir.is/.

Merkar fornminjar í miðbæ Garðabæjar

Fornleifarannsóknir við Hofsstaði hófust árið 1994 og fundust þar minjar af næst stærsta landnámsskála sem fundist hefur á Íslandi. Skálinn er frá lokum 9. aldar og ber vott um þann stórhug sem fyrstu íbúar landsins báru í brjósti sér. Niðurstöður rannsóknanna varpa mikilvægu ljósi á líf og starf fólks við upphaf byggðar á tímum víkinga. 

Þegar ljóst var hversu merkar fornminjarnar á Hofsstöðum eru ákvað bæjarstjórn Garðabæjar að þær skyldu varðveittar og umhverfi þeirra gert aðlaðandi og aðgengilegt almenningi.

Minjarnar eru aðgengilegar í minjagarði sem er við hliðina á lóð Tónlistarskóla Garðabæjar að Kirkjulundi í Garðabæ.  

Lífið á landnámsöld

MargmiðlunFjölbreytt, fróðleg og skemmtileg margmiðlunarsýning var framleidd fyrir garðinn af fyrirtækinu Gagarín. 

Garðabær og samstarfsfyrirtækið Gagarín hlutu norrænu verðlaunin NODEM, fyrir notkun stafrænnar tækni í safnastarfi, árið 2004 fyrir sýninguna að Hofsstöðum.  

Margmiðlunarefninu var miðlað  miðlað með snertiskjám utandyra í garðinum en sem stendur er efnið ekki aðgengilegt.   
Endurskoðun á miðlun efnis í minjagarðinum á Hofsstöðum er í vinnslu.

Hofsstaðaskálinn

Hofsstaðaskálinn er um 30 metrar á lengd og 8 metrar á breidd að utanmáli en gólfflötur hans er um 170 fermetrar. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti, hellur lagðar í anddyrið og stétt framan við skálann. Moldargólf og langeldur var eftir miðjum skálanum. Stafverkið var úr viði og ekki ólíklegt að svefnloft hafi verið til staðar. Líklega hefur skálinn verið þiljaður með viði að innan. Þetta var stórbýli.

Íbúar

Ekki er vitað með vissu hverjir byggðu skálann né heldur hverjir tróðu þar grundir þótt eitt og annað megi finna um íbúa Reykjaness. Miðað við stærð skálans má ætla að þarna hafi haft búsetu 20-30 manns að meðtöldum þrælum og vinnulýð. Hofsstaðir eru innan þess lands sem Ingólfur Arnarson, fyrsti landneminn hélt fyrir sig og aðeins 2 km frá Vífilsstöðum þar sem Vífill, leysingi Ingólfs, bjó.