Móaflöt- endurbætur
Upplýsingasíða vegna aðgerða vegna rakaskemmda á skammtímavistuninni Móaflöt.
Garðabær vinnur eftir ákveðnum verkferlum ef upp kemur grunur um myglu í húsnæði eða mannvirkjum sveitarfélagsins. Verkfræðistofan Mannvit er Garðabæ til ráðgjafar varðandi sýnatökur, úrbætur og aðgerðir.
Upplýsingar um verkefnið veita:
Guðbjörg Brá Gísladóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs, gudbjorgbra@gardabaer.is
Svanhildur Þengilsdóttir, sviðstjóri fjölskyldusviðs, svanhildurthe@gardabaer.is
Ingibjörg Elín Baldursdóttir, Forstöðuþroskaþjálfi Móaflatar, ingibjorgba@gardabaer.is
Ferill máls
1) Sýni tekin á skammtímavistuninni Móaflöt
Garðabær vinnur eftir ákveðnum verkferlum ef upp kemur grunur um myglu í húsnæði eða mannvirkjum sveitarfélagsins. Þegar grunur um rakaskemmdir í húsnæði Móaflatar vaknaði, var farið í sýnatöku.
Skýrslur:
- Skoðun og sýnataka | Móaflöt 24. Skýrsla Mannvits 20.02.2023
- DNA ryksýni úr Móaflöt. Skýrsla OBH
- Efnissýni úr Móaflöt. Skýrsla OBH
2) Staða verkefnis
Í janúar 2022 voru tekin sýni á húsnæði skammtímavistunarinnar Móaflöt.
Á Móaflöt voru tekin átta sýni (þar af sex efnissýni úr veggjum eða gólfdúk og tvö DNA ryksýni).
Tvö þeirra gefa til kynna talsverða mengun- þ.e.a.s. að þar sé mygluvöxtur undir gólfdúk. Um er að ræða sýni úr baðherbergi í bílskúr Móaflatar sem liggur að svefnherbergi og eitt sýni úr svefnherbergi á herbergisganginum.
Vegna skemmdanna reyndist nauðsynlegt að loka þessum tveimur rýmum til að hægt væri að lagfæra skemmdir, fjarlægja ónýtt byggingarefni, hreinsa og koma húsnæðinu í eðlilegt horf.
Það felur í sér endurbætur á herberginu og þrif á húsmunum.
Ekki er grunur um veikindi í hópi þeirra barna sem dvelja í Móaflöt eða á meðal starfsfólks vegna þessa. Ef grunur er um slíkt er mikilvægt að upplýsa forstöðukonuna um það við fyrsta tækifæri.
3) Næstu skref
Garðabær lokaði tímabundið skammtímavistuninni Móaflöt vegna framkvæmda sem hófust strax til að tryggja öryggi starfsfólks og barnanna.
Framkvæmdir hófust mánudaginn 27. febrúar, en þá kom í ljós nauðsyn þess að endurnýja neyslulagnir hússins. Forráðamenn voru upplýstir þann 3. mars um að loka þyrfti Móaflöt um óákveðinn tíma, að líkindum í 6-8 vikur. Unnið er að því að finna tímabundið húsnæði fyrir starfsemi Móaflatar.
Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Elín Baldursdóttir, forstöðumaður Móaflatar.
Garðabær vill leggja sig fram um að tryggja heilsusamlegt og öruggt umhverfi í sínum mannvirkjum og óskar eftir góðu samráði við forráðamenn, starfsmenn og notendur þjónustunnar. Garðabær hefur lagt fram sérstaka áætlun um endurbætur á húsnæði sveitarfélagsins sem fylgt var eftir með fjárveitingum í fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023.
Fræðsla og leiðbeiningar um myglu
Lykillinn að því að koma í veg fyrir myglu er að hafa stjórn á raka. Mygla þrífst best í röku umhverfi og er vöxtur hennar háður fjórum þáttum: æti, lofti, viðunandi hitastigi og vatni.
Flestir verja megninu af tíma sínum innandyra og eru því gæði innilofts mikilvæg. Margir áhrifaþættir á inniloft eru til komnir vegna raka og ónægrar loftunar. Of mikill raki, á nánast hvaða yfirborði sem er innandyra, getur leitt til örveruvaxtar, s.s. myglu, sveppa- og bakteríuvaxtar.