Búrfell, Búrfellsgjá og Búrfellshraun
Fólkvangur og náttúruvættir
Friðlýsingar hraunahluta Búrfellshrauns, Búrfells, Búrfellsgjár og eystri hluta Selgjár voru staðfestar af umhverfis- og auðlindaráðherra í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands 30. apríl 2014.
Undirritaðar voru tvær friðlýsingar:
- Hraunahlutar Búrfellshrauns þ.e. Garðahraun, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar, samtals 156,3 hektarar að flatarmáli, eru friðlýstir sem fólkvangur.
- Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár, samtals 323 hektarar að stærð eru friðlýst sem náttúruvætti.
Samtals eru svæðin sem voru friðlýst 480 ha að flatarmáli.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar undirrituðu við sama tilefni samninga um umsjón hraunanna, Búrfells og Búrfellsgjár milli Umhverfisstofnunar og Garðabæjar. Samkvæmt samningnum tekur Garðabær að sér umsjón hinna friðlýstu svæða og skuldbindur sig til að gæta þeirra og upplýsa almenning um varðveislugildi þeirra.
Búrfell og gjárnar eru innan marka Reykjanesfólkvangs.