30. mar. 2023

Nýtt flokkunarkerfi úrgangs

Nú styttist í að nýtt flokkunarkerfi úrgangs verði innleitt á höfuðborgarsvæðinu þegar söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi bætist við söfnun á plastumbúðum, pappír/pappa og blönduðum úrgangi við hvert heimili.

  • Dæmi um hvernig tvær tvískiptar tunnur gætu raðast við sérbýli á höfuðborgarsvæðinu.

Nú styttist í að nýtt flokkunarkerfi úrgangs verði innleitt á höfuðborgarsvæðinu þegar söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi bætist við söfnun á plastumbúðum, pappír/pappa og blönduðum úrgangi við hvert heimili.
Breytingin tengist ákvæðum laga um hringrásarhagkerfi sem tóku í gildi í ársbyrjun og felur í sér miklar framfarir í umhverfis- og loftlagsmálum.

Tunnum verður skipt út nú á vormánuðum þegar innleiðing hefst og íbúar þurfa ekki að grípa til neinna aðgerða hvað það varðar. Fyrir flest heimili mun lítið breytast varðandi fjölda tunna þar sem mörg heimili flokka nú þegar plast og pappír. Stærsta breytingin er að öll heimili munu fá tunnu fyrir matarleifar.

Íbúar munu ekki þurfa að aðhafast neitt í tengslum við þessa breytingu annað en að tileinka sér nýja flokkunarsiði. Tunnum fyrir þessa fjóra flokka verður komið fyrir við íbúðarhús eftir þörfum en í einhverjum tilvikum verður tunnum skipt út fyrir tvær tvískiptar tunnur.

Áætlað er að ráðast í innleiðingu á næstu vikum og verður fyrirkomulagið þá kynnt enn frekar. Upplýsingar um innleiðinguna má einnig finna á flokkum.is.