Samskiptasáttmáli Garðabæjar

Leiðarljós nýs samskiptasáttmála Garðabæjar er að auka vellíðan, velferð, lífsgæði og heilsu barna.

Alls staðar þar sem fólk kemur saman geta komið upp samskiptamál. Ef gripið er fljótt inn í og með samstilltu átaki heimilis, skóla og annarra ábyrgðaraðila er hægt að minnka líkur á alvarlegum afleiðingum.

Skólinn leggur grunn að samskiptum á milli heimilis og skóla, ásamt því að skapa forráðafólki vettvang til samskipta og samstarfs sín á milli. Allir þurfa að deila ábyrgðinni og vera góðar fyrirmyndir, sýna virðingu og láta sig líðan annarra varða. Við erum öll í þessu saman. 

Jákvæð samskipti

Samskiptaáætlun Garðabæjar er ætlað að stuðla að jákvæðum samskiptum og auka þekkingu barna, forráðafólks og starfsfólks á einkennum samskiptavanda og eineltis.

Með aukinni þekkingu og markvissri þjálfun barna eiga hlutaðeigandi aðilar að: geta brugðist við, vita hvert skal leita og hvernig er unnið úr málum. Í áætluninni er tiltekin aldurstengd samskiptaþjálfun sem fara skal fram í skólasamfélaginu í Garðabæ.

Góð samskiptafærni er mikilvægt veganesti í lífinu.

God-samskipti

Skilgreiningar

Góð samskipti eru lykill að jákvæðum tengslum sem gefa lífinu gleði og innihald. Samskiptafærni er því afar mikilvæg þegar kemur að samstarfi og öllu því sem viðkemur félagslegum samskiptum. Þar skiptir miklu máli að geta sett sig í spor annarra, geta leyst ágreining og fundið lausnir. Við þjálfun góðra samskipta er lögð áhersla á S-in fimm:

  • Samskiptamál
    Samskiptamál er yfirheiti yfir órannsökuð atvik, árekstra og annað sem veldur ágreiningi, óþægindum og vanlíðan í samskiptum. Samskiptavandi, stríðni, einstaka ofbeldishegðun, einelti og óæskileg hegðun eru mögulegar niðurstöður könnunar á samskiptamáli.
  • Samskiptavandi
    Samskiptavandi er þegar tveir eða fleiri einstaklingar eiga í neikvæðum samskiptum sín á milli í styttri eða lengri tíma. Neikvæð samskipti eiga þá jafnt yfir báða aðila. Ef ekki er gripið inn í og börnum leiðbeint getur vandinn þróast yfir í einelti.
  • Stríðni
    Stríðni er þegar gert er grín að einhverjum með því að segja eitthvað særandi eða illgjarnt – jafnvel á glaðlegan hátt. Stríðni getur einnig verið truflandi hegðun, áreitni eða eigur faldar eða skemmdar. Stríðni getur virst vingjarnleg en getur snúist upp í óvingjarnlega hegðun mjög hratt og þróast yfir í einelti. Munur er á góðlátlegu gríni meðal jafningja og stríðni.
  • Ofbeldi
    Ofbeldi getur verið líkamlegt og/eða andlegt. Það er meiðandi, særandi og alltaf neikvætt en getur verið stakt tilvik og þar með ekki einelti. Mikilvægt er að fá fullvissu um að ekki sé um stærra mál að ræða. Endurtekið ofbeldi getur þróast yfir í einelti.
  • Einelti
    Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einstaklingi sem á erfitt með að verjast. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis. Einelti getur haft margar birtingarmyndir.

Tegundir eineltis

Einelti fer oft fram þar sem enginn sér. Sá sem er lagður í einelti vill oft ekki segja frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af. Birtingarmyndir eineltis geta t.d. verið:

Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar og annað líkamlegt ofbeldi.

Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni.

Neteinelti: stríðni, áreitni og útilokun sem framin er vísvitandi af einstaklingi eða hópi í gegnum hvers konar upplýsinga- og samskiptatækni.

Skriflegt: krot, bréfasendingar og fleira.

Óbeint félagslegt: baktal, útskúfun, útilokun úr félagahópi.

Efnislegt: eignum stolið, þær teknar eða eyðilagðar.

Andlegt: þvingun til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd og sjálfsvirðingu.

Tilkynning um samskiptamál

Ef upp koma áhyggjur um samskiptamál má leita til umsjónarkennara, stjórnenda skólans eða annarra starfsmanna.

Þá er hægt að fylla út eyðublað um samskiptamál í gegnum Þjónustugátt Garðabæjar.

Á heimasíðum skólanna er þá einnig að finna tilkynningahnapp.

Viðbrögð við samskiptamáli

  • Fyrsta stig:

Um leið og formleg tilkynning berst skal samskiptateymi virkjað og leitast skal við að greina um hvernig samskiptamál er að ræða.

Rætt við þá sem áttu beinan þátt í atvikinu ásamt vitnum og haft skal samband við forráðafólk þeirra barna sem eiga hlut að máli og það boðað á fund, hvert í sínu lagi eða saman eftir atvikum. Á fundunum er farið yfir málsatvik og leitað lausna.

Ef sættir nást er málinu lokið með undirritun forráðafólks og eftir atvikum nemenda. Fylgjast skal áfram með málsaðilum. Ef ekki tekst að leysa málið og það telst alvarlegt fer það á 2. stig.

  • Annað stig:

Samskiptateymi fer yfir málsgögn og setur upp aðgerðaáætlun í samráði við umsjónarkennara.

Setja skal inngrip svo sem stuðning við meintan geranda/ur og þolanda og reglulegum samtölum komið á. Funda skal reglulega með málsaðilum, forráðafólki, nemendum og starfsfólki.

Ef tekst að ljúka máli skal því lokið með undirritun forráðafólks og eftir atvikum nemenda. Ef ekki tekst að leysa málið og það telst alvarlegt fer það á 3. stig.

  • Þriðja stig:

Mál á 3. stigi telst mjög alvarlegt atvik eða eineltismál. Setja skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið og að skólinn muni með öllum ráðum leitast við að því ljúki.

Upplýsa skal alla starfsmenn sem koma að kennslu eða starfi með þolanda og geranda um stöðu málsins, bekkjarfélaga og þá sem koma að starfi með málsaðilum í tómstundum.

Áætlun um bætt eftirlit með gerendum og þolanda skal kynnt fyrir forráðafólki og hrundið í framkvæmd. Mál er sent til umfjöllunar hjá nemendaverndarráði.

Fundur með þolanda annars vegar og forráðafólki og hins vegar með gerenda/um og forráðafólki. Fundir skulu ávallt haldnir á forsendum þolanda og í samráði við forráðafólk viðkomandi.

Upplýsa um hvaða möguleikar eru til staðar fyrir ráðgjöf hjá sálfræðingi eða meðferðaraðila.

Ef tekst að ljúka máli skal því lokið með undirritun forráðafólks og eftir atvikum nemenda. Ef ekki tekst að ljúka máli skal gera áætlun um langvarandi inngrip samkvæmt verkáætlun.

Verkferill

Samskiptasáttmála Garðabæjar má skoða hérna