• 3.1.2022 - 31.1.2022, Garðatorg - miðbær

BRF á Garðatorgi -þriðji þáttur

Sýningaröð Birgis Rafns Friðrikssonar – BRF á Garðatorgi- 3. þáttur af 5. Fundið stað.

Sýningaröð Birgis Rafns Friðrikssonar – BRF á Garðatorgi- 3. þáttur af 5. Fundið stað.

Dúett eða tvísöngur er tónverk fyrir tvo, tónverk þar sem tveir leika. Í tvísöng parast og afparast raddirnar, leita til og frá hvor annarri á víxl, leita takts, samræmis og merkingar. Hér er stillt fram tveimur verkum sem þannig eru látin „syngja“ dúett, látin bindast hvor annarri í sjónrænum kossi, fyrir þig, að upplifa.

Í þriðja þætti sýningarraðarinnar ber við nýjan tón. Annars vegar gefur að líta eitt verk en hinsvegar mörg sem saman mynda þó eina heild, einn kór, einn hóp. Parið sem hér er má því kalla tvennd. Í hópnum ber hvert verk nafn en heildin sem slík stendur fyrir ólíkar hugmyndir um hugtakið „stað“, ekki ólíkt því að velta fyrir sér möguleikum um hvernig stað mann langi að búa á, kostum þeirra og göllum. Í verkinu Garðurinn er aftur á móti öllu því sem áður hefur verið – hefðum, sögunni, líffræðinni, o.s.frv. – tekið með kostum og kynjum og reynt er að móta/teikna sinn garð, sinn stað, einhvern veginn ofan á það allt án þess þó að breiða yfir eða útiloka það.

Þriðji þáttur stendur frá 3.janúar – 31.janúar 2022 og er sá þriðji af 5 þátta sýningarröð BRF sem fram fer hér á Garðatorgi í Garðabæ veturinn 2021-2022. Verkin eru til sölu. Áhugasömum er bent á að hafa samband beint við listamanninn í síma 690 3737. Vinsamlegast snertið ekki verkin.

--------------

Þá er þáttur 3 í Dúetta sýningarröðinni kominn upp á Garðatorgi 1. Þriðji þátturinn nefnist Fundið stað og fjallar eins og nafnið bendir til að finna sér stað. En þetta er samt ekki bara einhver staður sem finnst heldur staður til að starfa út frá, vera á og finnast líkjast einhverskonar heimavelli.

Eins og fyrr eru tveir flekar og tvö verk. Réttara væri erv að segja að um tvennd væri að ræða, þar sem á öðrum flekanum eru 12 stk málverk til sýnis og mynda heild. Sérhvert þeirra verka er samt gert og hugsað sem sjálfstætt verk. Saman mynda þau hóp eða kór, sem "syngur" aftur saman með verkinu Garðurinn á hinum flekanum. Mig langaði sumsé að reyna á form dúetta í þessum þætti; vera með einsöngvara versus kór.

Garðurinn fjallar um það að sættast við hefðir, gen, söguna og samfélagið osfrv., þeas það sem er þá þegar til staðar og reyna svo að teikna sinn garð ofan á það, án þess að afneita eða breiða yfir það sem þegar er.

Kórinn er aftur á móti vangaveltur um jákvæðar hugmyndir manns sem leitar síns staðar. Eitthvað jákvætt býr að baki leit manns, eitthvað sem knýr hann áfram í leitinni (þ.e. ef leitað er uppbyggilegs staðar). Nöfn þeirra verka eru frá vinstri til hægri: Playful, Fantastic, Natural, Organized, Dramatic, Aware, Strong, Conscientious, Hopeful, Happy, Modest, Just Here.

Verið velkomin þegar ykkur hentar. Opið alla daga á opnunartíma torgsins. 3.þáttur Dúettanna stendur til 30. janúar 2022.