• 12.3.2019, 20:00, Tónlistarskóli Garðabæjar

Þriðjudagsklassík: UMBRA - Á Norðurslóðum kl. 20 í sal Tónlistarskóla Garðabæjar

  • Þriðjudagsklassík - UMBRA

Tónlistarhópurinn UMBRA mun flytja efnisskrá sína „Á Norðurslóðum" á tónleikum, tónleikaraðarinnar Þriðjudagsklassík í Garðabæjar, þriðjudaginn 12. mars nk. UMBRA er skipuð þeim Arngerði Maríu Árnadóttur, hörpu- og orgelleikara, Alexöndru Kjeld, kontrabassaleikara, Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur, fiðluleikara og Lilju Dögg Gunnarsdóttur, söngkonu.

Tónlistarhópurinn UMBRA mun flytja efnisskrá sína „Á Norðurslóðum" á tónleikum, tónleikaraðarinnar Þriðjudagsklassík í Garðabæjar, þriðjudaginn 12. mars nk. UMBRA er skipuð þeim Arngerði Maríu Árnadóttur, hörpu- og orgelleikara, Alexöndru Kjeld, kontrabassaleikara, Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur, fiðluleikara og Lilju Dögg Gunnarsdóttur, söngkonu.

Viðburður á facebook

Efnisskráin „Á Norðurslóðum" inniheldur eigin útsetningar meðlima UMBRU á íslenskum þjóðlögum í bland við þjóðlög frá hinum Norðurlöndunum. Í spilamennsku sinni kafa þær djúpt í þjóðlagaarfinn þar sem sagnadansar og þjóðlög Séra Bjarna Þorsteinssonar verða tvinnuð saman við þjóðlagaarf annarra Norðurlanda, m.a. úr hinu þekkta finnska Kalevala handriti.

UMBRA hlaut á dögunum þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Plötur þeirra „Úr myrkrinu" og „Sólhvörf" fengu báðar tilnefningu í flokki þjóðlagatónlistar auk hönnunnar á plötuumslagi. Á tónleikunum þriðjudaginn 12. mars nk. má m.a. heyra efni af plötunni „Úr myrkrinu" en í rökstuðningi dómnefndar Íslensku tónlistarverðlaunanna um plötuna má lesa eftirfarandi „Dularfullur og seiðandi hljóðheimur íslensks og miðevrópsks tónlistararfs miðalda. Út úr myrkrinu og inn í ljós birtist okkur hinn heillandi heimur fjölröddunar fyrri alda í fegurð og frumleika sem á erindi við nútímann." Þessi orð dómnefndarinnar segja allt sem segja þarf um þá stemningu sem tónleikagestir Þriðjudagsklassíkur eiga von á á tónleikum þann 12. mars. nk.

Tónleikarnir fara fram í sal Tónlistarskóla Garðabæjar við Kirkjulund 11 og standa yfir í um klukkustund. Aðgangseyrir er 2000 kr. og er miðasala við innganginn.
Á þessu starfsári er Þriðjudagsklassík stoltur samstarfsaðili við KÍTÓN, félag kvenna í tónlist.
Að tónleikaröðinni Þriðjudagsklassík í Garðabæ standa menningar- og safnanefnd Garðabæjar og Ingibjörg Guðjónsdóttir sem er jafnframt listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnnar.