2. mar. 2021

Hvatningarsjóður fyrir unga listamenn

Ungir og upprennandi listamenn í Garðabæ á aldrinu 15-25 ára geta sótt um styrk í Hvatningarsjóð fyrir unga listamenn. 

  • Viðurkenningar fyrir úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna
    Ungir listamenn í Garðabæ sem hlutu styrk úr hvatningarsjóði þann 16. júní 2020. Við sama tækifæri var bæjarlistamaður Garðabæjar útnefndur og heiðursviðurkenning veitt.

Ungir og upprennandi listamenn í Garðabæ á aldrinu 15-25 ára geta sótt um styrk í Hvatningarsjóð fyrir unga listamenn. Einstaklingar og hópar geta sótt um styrk til hvers kyns listviðburða eða verkefna sem fara fram á tímabilinu maí 2021 til maí 2022.

Sérstaklega er tekið tillit til verkefna/viðburða sem fara fram í Garðabæ og eru til þess fallnir að efla menningarlíf í bænum.

Nánari upplýsingar gefur menningarfulltrúi bæjarins, Ólöf Breiðfjörð í síma 820 8550.

Umsóknafrestur er til og með 30. apríl. Greinagóð lýsing á verkefni og umsækjendum berist á netfangið olof@gardabaer.is

 

Reglur um Hvatningarsjóð fyrir unga listamanna í Garðabæ

1. gr.
Í samræmi við fjárhagsáætlun Garðabæjar hverju sinni skal árlega veita styrki til ungra listamanna í Garðabæ til að efla þá og hvetja til frekari listsköpunar. Menningar- og safnanefnd Garðabæjar skal úthluta styrkjunum við sérstaka athöfn.

2. gr.
Menningar- og safnanefnd Garðabæjar auglýsir eftir umsóknum um styrkina. Auglýst skal eftir umsóknum á vorönn. Hægt er að sækja um styrk á þar til gerðu umsóknareyðublaði vegna hvers kyns listforms.

3. gr.
Einstaklingar og hópar geta sótt um styrk í hvatningasjóðinn til hvers kyns listviðburða eða verkefna á þessu ári og næsta ári. Styrkur er ekki ætlaður til náms eða námskeiða. Tekið verður sérstaklega tillit til verkefna/viðburða sem fara fram í Garðabæ og eru til þess fallnir að efla menningarlíf bæjarins. Á umsóknareyðublaði verður nánari útlistun á hvaða gögn þurfa að fylgja með umsóknum s.s. meðmæli, kostnaðaráætlun o.fl. Menningar- og safnanefnd verður heimilt að kalla eftir frekari greinargerð frá styrkþega að loknu verkefni.

4. gr
Þeir einstaklingar koma til greina við úthlutun styrkja sem hafa fasta búsetu (lögheimili) í Garðabæ og eru á aldrinum 15-25 ára. Hópar sem fá styrk verða að vera samansettir af einstaklingum þar sem meirihluti hefur fasta búsetu í Garðabæ. Heimilt er að víkja frá þessum viðmiðum í undantekningartilfellum. Menningar- og safnanefnd getur einnig úthlutað styrkjum til einstaklinga eða hópa án þess að viðkomandi hafi sótt um styrk.

5. gr.
Heildarupphæð styrkja miðast við fjárhagsáætlun hverju sinni. Menningar- og safnanefnd ákveður fjölda styrkja og upphæðir miðað við fyrirliggjandi umsóknir hverju sinni. Menningar- og safnanefnd ákveður úthlutun úr hvatningarsjóðnum.

6. gr.
Reglur þessar skulu endurskoðaðar árlega.

Samþykkt á fundi bæjarstjórnar 2. maí 2013.