11. jún. 2015

Stofnstígur og hljóðvarnir við Hafnarfjarðarveg yfir Arnarneshæð

Bæjaryfirvöld í Garðabæ í samstarfi við Vegagerðina áforma að byggja hjóla- og göngustíg yfir Arnarneshæð milli Hafnarfjarðarvegar og lóða við Hegranes og Súlunes á Arnarnesi. Stígurinn er í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Arnarnes og er mikilvægur áfangi í uppbyggingu samfelldra hjóla- og göngustíga meðfram stofnbrautunum tveimur sem liggja í gegnum Garðabæ, Hafnarfjarðarvegi og Reykjanesbraut.

Bæjaryfirvöld í Garðabæ í samstarfi við Vegagerðina  áforma að byggja hjóla- og göngustíg yfir Arnarneshæð milli Hafnarfjarðarvegar og lóða við Hegranes og Súlunes á Arnarnesi. Stígurinn er í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Arnarnes og er mikilvægur áfangi í uppbyggingu samfelldra hjóla- og göngustíga meðfram stofnbrautunum tveimur sem liggja í gegnum Garðabæ, Hafnarfjarðarvegi og Reykjanesbraut.
Vaxandi umferð hjólreiðafólks yfir Arnarnes hefur eins og íbúar þekkja hingað til verið um húsagöturnar Hegranes og Súlunes ýmist á gangstéttum eða í götunni. Göturnar eru á köflum brattari en viðmið um göngu- og hjólastíga gera ráð fyrir auk þess sem leiðin þverar innkeyrslur á lóðir íbúðarhúsa með tilheyrandi hættu og óþægindum.

Fyrirliggjandi er forhönnun stígs og hljóðvarna, sem rýnd hefur verið af umferðaröryggishóp Vegagerðarinnar. Hljóðvarnir verða ýmist í formi jarðvegsmana eða timburveggja eftir því sem landrými leyfir. Auk þess er gert ráð fyrir að byggja léttar lóðargirðingar við lóðarmörk eða stígbrún til að skerma á innsýn í aðliggjandi garða. Gert er ráð fyrir að stígurinn liggi í aðalatriðum í 1-3 metra fjarlægð frá lóðarmörkum og sé í sem jöfnustum lengdarhalla en jafnframt tekið mið af landhæð aðliggjandi lóða og þannig komist hjá gerð stoðveggja.
Gert er ráð fyrir undirgöngum undir Arnarnesveg, en þau verða ekki byggð í fyrsta áfanga verksins.

Tekið er tillit til þess trjá- og runnagróðurs sem er á lóðarmörkum og jafnvel utan þeirra. Til þess að koma stígnum fyrir í sem heppilegastri hæðarlegu þarf að endurmóta og endurrækta mestallt svæðið milli lóða og Hafnarfjarðarvegar. Jarðvegsmanir færast nær Hafnarfjarðarvegi og aðliggjandi römpum /hljóðgjafanum og munu því virka betur en þær gera nú.
Á köflum þarf að byggja hljóðskerma ofan á manir til að ná tilætluðum árangri í bættri hljóðvist. Vegrásir meðfram Hafnarfjarðarvegi munu grynnka og mjókka við færslu mana nær veginum.   Hljóðmanir og hljóðskermar virka best sem næst hljóðgjafanum.

Unnið er að gerð útboðsgagna og er stefnt að því að hægt verði að taka stíginn í notkun um miðjan september næstkomandi en að smíði veggja geti teygst fram eftir hausti. Aðkoma að vinnusvæðinu verður að mestu leyti frá vegrömpum Hafnarfjarðarvegar. Þó má gera ráð fyrir að aðkoma að endasvæðum verði líka frá Súlunesi og Hegranesi.

Hönnun verksins er gerð af Landslagi ehf. í samráði við Vegagerðina og Garðabæ. Verkið verður boðið út og er kostað sameiginlega af Vegagerðinni og Garðabæ.
Forhönnunargögn er að finna hér á vef Garðabæjar  uppdrættir og greinargerð.

Greinargerð - Stofnstígur við Hafnarfjarðarveg yfir Arnarneshæð (pdf-skjal)
Uppdrættir - Stofnstígur við Hafnarfjarðarveg yfir Arnarneshæð (pdf-skjal)

Íbúar geta komið á framfæri athugasemdum og ábendingum til Erlu Biljar Bjarnardóttur umhverfisstjóra Garðabæjar á netfangið erlabil@gardabaer.is
umhverfisstjóri