Forkynning á breytingu deiliskipulags Ása og Grunda
Í samræmi við 4. mgr. 40. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 auglýsir Garðabær hér með forkynningu á tillögu að breytingu deiliskipulags Ása og Grunda sem nær til opna svæðisins við Arnarnesvog, norðan og austan við fjölbýlishúsið Alviðru við Sjávargrund.
Tillagan gerir ráð fyrir því að heimilt verði að reisa 30 raðhús á einni hæð með bílageymslu. Stærð húsa yrði á bilinu 130-150 fermetrar. Leikskólalóð norðan Alviðru verður felld út úr deiliskipulagi samkvæmt tillögunni. Gert er ráð fyrir hljóðmönum meðfram Hafnarfjarðarvegi. Markmið deiliskipulagsbreytingarinnar er að mynda heildstæða, þétta húsaþyrpingu og skjólgóð garðrými í nánum tengslum við útivistarsvæði við Arnarnesvog.
Deiliskipulagstillagan er unnin í samvinnu við Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ sem hefur gert samkomulag við Garðabæ um uppbyggingu 25 íbúða á umræddu svæði sem ætlaðar eru félagsmönnum. Áformað er að í 5 húsum sem standa næst Vífilsstaðavegi verði sérhannaðar íbúðir fyrir fatlað fólk.
Almennur kynningarfundur verður haldinn í Flataskóla miðvikudaginn 2. október 2012 og hefst hann klukkan 17:30.
Á fundinum verður tillagan kynnt, opnað fyrir umræður og spurningum svarað.
Forkynning stendur yfir til 18. október nk. Á meðan á forkynningu stendur er hægt að koma ábendingum til skipulagsstjóra sem einnig mun svara fyrirspurnum um útfærslu tillögunnar. Öllum ábendingum verður komið á framfæri við skipulagsnefnd og bæjarstjórn en vakin er athygli á því að þær teljast ekki formlegar athugasemdir. Að lokinni forkynningu verður tillagan lögð fram í skipulagsnefnd og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Þegar bæjarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skal það gert með áberandi hætti og gefst þá tækifæri til að gera formlegar athugasemdir við tillöguna.
Tillagan er aðgengileg hér á vef Garðabæjar og í þjónustuveri Garðabæjar frá 25. september til 18. október 2013.
Arinbjörn Vilhjálmsson
skipulagsstjóri Garðabæjar
Skilmálar deiliskipulagsbreytingar
Breytingaruppdráttur deiliskipulags
Skýringarmynd með útivistarsvæði