13. mar. 2013

Hnoðraholt og Vetrarmýri

Breyting deiliskipulags vegna golfskála GKG

Bæjarstjórn Garðabæjar auglýsir hér með kynningu á breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts og Vetrarmýrar í samræmi við 1.mgr. 43. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.
Tillagan gerir ráð fyrir byggingarreit, 20x70 m að flatarmáli, fyrir nýjan golfskála GKG. Reiturinn er staðsettur þar sem núverandi golfskáli stendur og teygir sig þaðan til austurs. Heimilt verður að reisa allt að 1.400 m2 hús á tveimur hæðum þannig að efra gólf verði í hæð við bílastæði. Neðri hæð verður því niðurgrafin að mestu. Hámarkshæð frá efra gólfi er 5 metrar.
Bílastæði stækka og verða þar alls 175 stæði. Vegtenging að bílastæðum breytist. Á helgunarsvæði Vífilsstaðavegar er gert ráð fyrir svæði með hörðu undirlagi sem nýta má til bráðabirgða fyrir allt að 100 stæði.

Tillagan liggur frammi á bæjarskrifstofum Garðabæjar, Garðatorgi 7, frá 13. mars til og með 24. apríl 2013. Hún er einnig aðgengileg á vef Garðabæjar, gardabaer.is.

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Frestur til þess að skila inn athugasemdum rennur út miðvikudaginn 24. apríl 2013.

Skila skal athugasemdum á bæjarskrifstofur Garðabæjar og skulu þær vera skriflegar og undirritaðar. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna fyrir tilskilinn frest teljast samþykkir henni.

Arinbjörn Vilhjálmsson
skipulagsstjóri Garðabæjar

Tillaga að deiliskipulagsbreytingu