Tónlistarveisla í skammdeginu
Tónlistarveisla í skammdeginu verður haldin fimmtudagskvöldið 20. nóvember nk. á Garðatorgi. Landsþekktir tónlistarmenn hafa undanfarin ár tekið þátt í tónlistarveislunni og í ár eru það tónlistarmennirnir Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson sem stíga á svið. Tónlistarveislan er nú haldin sjöunda árið í röð á Garðatorgi í Garðabæ. Garðbæingar hafa undanfarin ár fjölmennt á torgið til að gera sér glaða kvöldstund og hlusta á skemmtilega tónlist.
Stebbi og Eyfi hafa spilað og sungið saman allt frá árinu 1988 og hefur lifandi flutningur verið þeirra aðalsmerki.
Eyjólfur Kristjánsson hefur verið atvinnutónlistarmaður síðan 1982. Eftir Eyjólf liggur býsnin öll af lögum og textum, sem hljómað hafa á öldum ljósvakans í yfir 25 ár. Eyjólfur hefur gefið út 6 sólóplötur á ferlinum, og nú í ágúst s.l. kom út geisladiskurinn “Sýnir”, sem inniheldur lög Bergþóru Árnadóttur í útsetningum Eyjólfs. Eyjólfur hefur einnig sent frá sér lög og hljómplötur með hljómsveitum sínum “Hálft í hvoru” og “Bítlavinafélaginu”. Meðal þekktari laga Eyjólfs eru t.d. “Ég lifi í draumi”, “Álfheiður Björk”, “Danska lagið”, “Dagar” og “Draumur um Nínu”, en það lag flytja þeir saman Eyjólfur og Stefán Hilmarsson og hefur það lengi verið eitt allra vinsælasta dægurlag á Íslandi.
Stefán Hilmarsson kom fyrst fram á sjónarsvið tónlistarbransans árið 1987 með hljómsveit sinni “Sniglabandinu”. Árið 1988 var “Sálin hans Jóns míns” stofnuð og hljómsveitin hefur spilað með hléum síðan þá, gefið út fjöldann allan af hljómplötum og gerir enn. Stefán er einn allra fremsti textasmiður dægurtónlistarinnar og eftir hann liggja fjölmargir textar á hljómplötum bæði í eigin flutningi og annarra. Meðal þekktustu texta Stefáns eru t.d. “Hvar er draumurinn”, “Líf”, “Undir þínum áhrifum”, “Þú fullkomnar mig” o.m.fl. Stefán hefur einnig gefið út 3 sólóplötur og árið 2006 kom út platan “Nokkrar notalegar ábreiður”, sem var samstarfsverkefni þeirra Stefáns og Eyjólfs Kristjánssonar.
Það er menningar- og safnanefnd Garðabæjar sem býður til þessarar tónlistarveislu. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir á Garðatorgið. Lionsklúbbur Garðabæjar hefur umsjón með veitingasölu á staðnum. Tónleikarnir hefjast kl. 21 fimmtudagskvöldið 20. nóvember.