Sumarnámskeið í Garðabæ 2025

Mikið úrval sumarnámskeiða fyrir börn verður í boði sumarið 2025 í Garðabæ. 

  • Leikplakatnytt

Venju samkvæmt er fjölbreytt og mikið úrval spennandi sumarnámskeiða í boði fyrir börn sumarið 2025 á vegum félaga í Garðabæ. Hér fyrir neðan má nálgast ýmsar upplýsingar en nánari upplýsingar um einstök námskeið og skráningu á þau er að finna á tenglum og í gegnum netföng hvers námskeiðishaldara.  

Listinn er ekki tæmandi yfir námskeið í Garðabæ, en hér er að finna öll þau námskeið sem Garðabær hefur fengið upplýsingar um.

Við vekjum einnig athygli á að á upplýsingavefnum frístund www.fristund.is má sjá upplýsingar um fjölbreytt frístundastarf sem í boði er hjá félögum á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Dýr og list

Aðalmarkmið námskeiðsins er að börnin skemmti sér, komist í snertingu við dýr og efli skapandi hugsun. Börnunum verður kennt að umgangast dýrin, þrífa hjá þeim, gefa þeim að borða, veita þeim ást og hlýju og þeir sem vilja, fá að fara á hestbak.

Við munum vinna með skapandi hugsun, persónulega tjáningu og ímyndunaraflið í myndlistinni. Það verða einungis 10 til 15 börn á hverju námskeiði og þeim verður skipt upp í litla tveggja til þriggja manna hópa.

Mikilvægt er að börnin klæði sig eftir veðri því við munum vera mikið úti og taki með sér hollt og gott nesti fyrir nestistímann. Í lok námskeiðsins, sem er á föstudögum, grillum við og höfum gaman.

Verð á námskeið er kr. 29.500,- 

Skráning fer fram í gegnum netfangið dyroglist@gmail.com eða í gegnum Facebook-síðu námskeiðsins, Dýr og list. Þar má einnig finna nánari upplýsingar um námskeið í boði.

 Garðahraun - Sumarhraun

Yfir sumartímann verður sértæka frístunda- og félagsmiðstöðvaúrræðið Garðahraun að Sumarhrauni. Skráning fer fram í gegnum Þjónustugátt Garðabæjar.

Hægt er að sækja um allt að 7 sumarvikur og miða þær við námskeið allan daginn, frá 9-16.

Nánari upplýsingar um Sumarhraun og skráningar má finna hér

Staðsetning: Hátíðarsalur íþróttamiðstöðvarinnar Breiðumýri, Álftanesi.

Umsjón: Ágúst Arnar Þráinsson, agustthr@gardabaer.is

Reiðskólinn Hestalíf - á svæði Spretts

Námskeiðin standa yfir í sjö vikur og eru 14 talsins, námskeiðin eru í boði bæði fyrir hádegi og eftir hádegi fyrir byrjendur og lengra komna.

Öll námskeiðin eru fyrir börn á grunnskólaaldri nema námskeið nr. 11 sem er fyrir 4 - 6 ára.

Eftirfarandi vikur eru í boði sumarið 2025:

Námskeið 1 - 10. - 13. júní f.h. kl. 9 - 12 (4 dagar)
Námskeið 2 - 10. - 13. júní e.h. kl. 13 - 16 (4 dagar)
Námskeið 3 - 16. - 20. júní f.h. kl. 9 - 12
Námskeið 4 - 16. - 20. júní e.h. kl. 13 - 16
Námskeið 5 - 23 .- 27. júní f.h. kl. 9 - 12
Námskeið 6 - 23. - 27. júní e.h. kl. 13 - 16
Námskeið 7 - 30. - 04. júlí f.h. kl. 9 - 12
Námskeið 8 - 30. - 04.júní e.h. kl. 13 - 16
Námskeið 9 - 07. - 11. júlí f.h. kl. 9 - 12
Námskeið 10 - 07. - 11 júlí e.h. kl. 13 - 16
Námskeið 11 - 14. - 17. júlí f.h. kl. 9 - 12 (Polla- og pæjunámskeið) (4 dagar)
Námskeið 12 - 14. - 17. júlí e.h. kl. 13 - 16 (Útreiðahópur) ( 4 dagar)
Námskeið 13 - 21. - 25. júlí f.h. kl. 9 - 12
Námskeið 14 - 21. - 25. júlí e.h. kl. 13 - 16

Verð fyrir 5 daga námskeið er 41.000 kr.

Verð fyrir 4 daga námskeið er 34.000 kr.

*Útreiðahópur. Eingöngu fyrir mjög vana nemendur.

** Polla- og pæjunámskeið. Námskeið fyrir yngstu knapana (4-6 ára). Farið er á hestabak, í leiki og fleira hestatengt.

Skráning: reidskolinnhestalif@gmail.com

Vefur: Reiðskólinn Hestalíf

Staðsetning: Kjóavellir í Garðabæ (Hestamannafélagið Sprettur)

Vinsamlegast takið fram við bókun námskeiðsnúmer ásamt nafni og kennitölu barns og símanúmeri og tölvupóstfangi forráðamanns.

Verð fyrir 5 daga námskeið er 41.000 kr.

Verð fyrir 4 daga námskeið er 34.000 kr.

Sumarnámskeið Listasmiðju á Álftanesi   

Sumarnámskeið Listasmiðja á Álftanesi er tilvalin fyrir hressa skólakrakka sem hafa gaman af listsköpun í bland við leik og hreyfingu. Nemendur fá leiðsögn við gerð verkefna og kynningu á helstu undirstöðuatriðum í teiknun, málun og mótun. Áhersla er lögð á sköpunargleði þar sem allir njóta sinn.

Ætlast er til að börnin komi klædd eftir veðri, með góða skapið, nesti og vatnsbrúsa í bakpokanum. Námskeiðið endar á myndlistarsýningu þar sem þátttakendur sýna afraksturinn.

Hvert námskeið stendur yfir í tvær vikur, frá mánudegi til föstudags. Kennt er frá 9-12 eða 13-16. Verð fyrir 2 vikur: 26 þús. (systkinaafsláttur: annað barn fær 10% afslátt).

  • 16. júní - 27. júní kl. 9-12 eða 13-16
  • 30. júní - 11. júlí kl. 9-12 eða 13-16

Staðsetning: Álftanesskóli.

Umsjón: Nada Borosak, myndmenntakennari í Álftanesskóla, nadabo@alftanesskoli.is

Skátafélagið Vífill

Hvort sem þú ert upprennandi hallarsmiður eða ungur útilífsunnandi, þá er í það minnsta óhætt að fullyrða að sumarið í Garðabæ sé ein stór barnahátíð! Skátafélagið Vífill er öflugt skátafélag sem heldur úti skemmtilegu skátastarfi yfir sumartíma jafnt sem vetrartíma. Í júní, júlí og ágúst verða Ævintýra- og Smíðanámskeið.

Ævintýranámskeið (7-12 ára)

Farið er í ýmsar ferðir í nágrenni skátaheimilisins.
Meðal annars í hellaferðir, veiðiferðir, fjöruferðir, fjallgöngur, hjólaferðir og margt fleira. Börnin kynnast náttúrunni og læra að vera viðbúin þeim áhættuþáttum sem finnast í nútímaþjóðfélagi ásamt því að fara í þroskandi og uppbyggilega leiki.

Smíðavöllur (7-12 ára)

Á námskeiðinu fá börn að byggja leikkofa eða garðhús auk þess sem námskeiðið er brotið upp með leikjum o.fl. Við lok námskeiðsins geta börnin tekið kofana með heim ef þau vilja. Smíðavellirnir hafa vera sérstaklega vinsælir undanfarin ár og aðsóknin oft verið meiri en hámarksfjöldi býður upp á. Til að tryggja pláss á námskeiði er því best að skrá smiði framtíðarinnar sem fyrst.

Þátttökugjöld kr. 18.000 fyrir vikunámskeið 

Nánari upplýsingar um námskeiðin

Staðsetning: Í og við Jötunheima, Bæjarbraut 7 í Garðabæ.

Netfang: sumar@vifill.is

Stjarnan

Stjarnan mun bjóða upp á fjölbreytt og skemmtileg námskeið í sumar í handbolta, körfubolta, fótbolta, íþróttaskóla og fimleikum. 

Nánari upplýsingar um námskeiðin

Taflfélag Garðabæjar

Skemmtileg skáknámskeið fyrir krakka verður haldið í sumar fyrir börn í 1.-4. bekk. Hvert námskeið stendur yfir í fimm daga, hálfan daginn eftir hádegi frá kl. 13 til 16. Kennd verða undirstöðuatriði í skáklistinni, auk þess verður farið í leiki og annað skemmtilegt. Þátttakendur þurfa að hafa með sér vatnsbrúsa og nesti.

  • Vika 26: 23.-27. júní - frá kl. 13 til 16.
  • Vika 27: 30. júní-4. júlí - frá kl. 13 til 16.
  • Vika 28: 7.-11. júlí - frá kl. 13 til 16.

Lenka Ptácníková hefur umsjón með námskeiðinu, hún er stórmeistari kvenna í skák, margfaldur íslandsmeistari kvenna og hefur mikla reynslu af skákþjálfun barna.

Verð fyrir hverja viku er 10.900 kr. Veittur er 20% systkinaafsláttur. Miðað er við a.m.k. sex þátttakendur í hverjum hóp, mest 12.

Nánari upplýsingar og skráning fer fram hérna

Staðsetning: Miðgarður

Umsjón: Lenka Ptácníková, lenkaptacnikova@yahoo.com

KLIFIÐ skapandi setur

Klifið er framsækið fræðslusetur og leggur mikið upp úr því að fá til sín sérfræðinga á sínu sviði til þess að leiðbeina á námskeiðum. Í Klifinu þróum við hugmyndir og gerum tilraunir í samstarfi við leiðbeinendur, fagfélög, menntastofnanir og Háskóla. 

Nánari upplýsingar um sumarnámskeið er að finna hérna.

Netfang: klifid@klifid.is

Hestamannafélagið Sóti – Reiðnámskeið á Álftanesi

Í sumar verður boðið upp á ævintýraleg, fræðandi og skemmtileg reiðnámskeið á Álftanesi!
Sumarnámskeiðin eru fjölbreytt og henta börnum á ólíkum aldri og getustigum. Námskeiðin eru eftirminnileg upplifun fyrir börn sem langar að njóta samveru með íslenska hestinum og öðrum reiðfélögum í friðsælu umhverfi.

Námskeiðin byggja bæði á verklegri og bóklegri kennslu. Lögð verður áhersla á að krakkarnir læri undirstöðuatriði í hestamennsku, mikilvæg öryggisatriði og skemmti sér vel. Í kennslunni verður farið um víðan völl, þar má m.a. nefna reiðtúra í fjörunni, hestaleikfimi, keppnir og fleira. Við spáum líka í náttúrunni, lærum um atferli hesta, lundarfar og fóðrun ofl. Reiðkennslan fer fram í litlum hópum sem skipt er upp eftir aldri og/eða getu. 

Hérna má finna upplýsinga- og skráninarskjal fyrir námskeiðin sem eru í boði

Umsjón: Sif Jónsdóttir, reiðkennari: 616-6286 og Karen Woodrow, reiðkennari: 865-4239

Netfang: fakarogfjor@gmail.com

Siglingaklúbburinn Vogur

Siglingaklúbburinn Vogur býður upp á skemmtileg námskeið í sumar fyrir börn og unglinga á aldrinum 9-16 ára þar sem grunnatriði í siglingum á kajak og seglbátum eru kennd. Við leggjum áherslu á öryggi, skemmtun, færni í notkun á búnaði og hvernig á að nálgast sjóinn á öruggan hátt. Námskeiði endar svo á léttri skemmtun og grillveislu.

Hvert námskeið er ein vika hálfan daginn frá kl. 9:00 – 12:00 eða frá kl. 13:00 – 16:00.

Búnaður fyrir námskeið
Þátttakendur þurfa að koma klæddir eftir veðri. Mælum með því að nota strigaskó og hafa með sér aukaföt, skó og handklæði. Allir fá björgunarvesti og það er skilyrði að klæðast þeim þegar haldið er út á sjó. Blaut eða þurrgallar eru ekki nauðsynlegir en mjög hentugir. Hægt er að versla þá meðal annars hjá GG sport ásamt blaut hönskum og skóm sem henta vel í við kænu siglingar. Mikilvægt er að þátttakendur merki fatnað með nafni og síma.

Nesti
Þátttakendur koma með sitt eigið nesti meðan á námskeiði stendur en síðasta daginn verður grill í boði klúbbsins

Námskeiðsgjald fyrir vikunámskeið er 15.000 kr.

Skráning fer fram hérna

Vefur: Seglbátur

Golfleikjanámskeið GKG

Á námskeiðunum er lögð áhersla á að kynna íþróttina fyrir börnum í gegnum golftengda leiki og hreyfingu. Nemendum skipt í tvo aldurshópa, 6 til 9 ára og 10 til 12 ára og eftir kyni, sé þess kostur. Námskeiðum lýkur síðan með pylsuveislu og afhendingu viðurkenningarskjals frá GKG

Leiðbeinendur eru úr hópi afrekskylfinga GKG á aldrinum 16 til 21 árs, flest með verulega reynslu af námskeiðshaldi. Þess verður gætt eftir fremsta megni að hópar undir umsjón leiðbeinanda verði ekki skipaðir fleiri en átta börnum.

Umsjón með skráningum: Guðmundur Daníelsson, gummid@gkg.is eða Haukur Már Ólafssonhaukur@gkg.is

Nánari upplýsingar um golfleikjanámskeið GKG

Tennishöllin og Tennisfélag Garðabæjar

Í sumar verður boðið upp á skemmtileg námskeið fyrir alla krakka á aldrinum 5-13 ára. Námskeiðið er haldið af Tennishöllinni í samstarfi við Tennisfélag Kópavogs, Tennisfélag Garðabæjar og Tennisfélag Hafnafjarðar.

Markmið námskeiðanna er að kenna undirstöðuatriði tennisíþróttarinnar í bland við skemmtilega bolta-, hlaupa- og tennisleiki auk þess sem spilaður er mini tennis. Ýmislegt annað er til gamans gert svo sem barnaeróbikk með skemmtilegri tónlist, ratleikur, tarzanleikur og fleira. Í lok hvers námskeiðs er haldin pizzuveisla.

Nánari upplýsingar og hlekk á skráningu má nálgast hérna

Sumarnámskeið Ungmennafélags Álftanes 2025 

UMF Álftanes mun bjóða upp á sumarnámskeið í fótbolta og körfubolta í sumar.

Fótboltaskóli Álftaness

Markmið skólans er að veita öllum þátttakendum tækifæri á að auka færni sína í knattspyrnu sem og efla hreyfi- og félagsþroska almennt. Lögð verður áhersla á fjölbreyttar og skemmtilegar æfingar sem henta öllum. Námskeiðið fer fram á gervigrasvellinum og að einhverjum hluta á grasvellinum. Mikilvægt er að þátttakendur klæði sig eftir veðri og hafi meðferðis hollt og gott nesti.

Skráning fer framí gegnum Sportabler.

Umsjón: Sveinn Sær Ingólfsson, BSc í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Reykjavíkur.

Körfubolti UMFÁ

Sumaræfingar verða í körfuboltanum í 3 vikur í júní frá þriðjudeginum 10. júní til fimmtudagsins 27. júní. Mikið verður lagt upp úr spili og allskonar leikjum og skemmtilegheitum sem oftast fylgja sumaræfingum. 

Allar nánariupplýsingar, verð og skráning verður aðgengilegt á Sportabler eftir 1 maí.