Húsnæðismál

Upplýsingar um félagslegar leiguíbúðir, húsnæðisstuðning og húsnæðisáætlun.

Fyrirspurnir um sérstakan húsnæðisstuðning má senda á:  husbot@gardabaer.is

Almennt félagslegt leiguhúsnæði

Sótt er um almennt félagslegt leiguhúsnæði á Þjónustugátt Garðabæjar.

Skilyrði fyrir því að umsókn sé samþykkt á biðlista eftir almennu félagslegu húsnæði eru m.a. þessi:

  • Umsækjandi skal vera orðinn 18 ára á umsóknardegi
  • Umsækjandi skal eiga lögheimili í Garðabæ
  • Umsækjandi skal ekki vera eigandi að húsnæði, hérlendis eða erlendis, í heild eða að hluta
  • Samanlagðar tekjur og eignir umsækjenda fari ekki yfir neðangreind tekju- og eignamörk
  • Umsókn skal metin til að lágmarki 5-8 stiga eftir fjölskyldustærð skv. matsviðmiðum reglnanna, sjá nánar í f-lið 1. mgr. 5. gr. reglnanna

Tekju- og eignamörk fyrir árið 2025:
  • Árstekjur einstaklings: 7.485.000 kr.
  • Árstekjur fyrir hvert barn að 20 ára aldri sem býr á heimilinu: 1.872.000 kr.
  • Árstekjur fyrir hjón og sambúðarfólk: 10.480.000 kr.
  • Eignamörk einstaklings og hjóna eða sambúðarfólks: 8.079.000 kr.

Leiguverð í almennu félagslegu húsnæði er ákveðið á þann hátt að hver íbúð hefur fast grunnverð og ofan á það leggst fermetraverð. Þessar fjárhæðir taka breytingum miðað við vísitölu neysluverðs. Fast grunnverð á íbúð er í janúar 2025 kr. 74.060 og fermetraverð kr. 1.164. Þar að auki greiðir leigjandi hússjóðsgjald eftir ákvörðun húsfélags. Leigutaki greiðir kostnað vegna rafmagns og hita í íbúð beint til orkusala.

Líta ber á leigu í félagslegu leiguhúsnæði sem tímabundna úrlausn og geta breytingar til að mynda á hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð eða fjárhagsstöðu leitt til endurskoðunar á leigurétti. Upplýsingar um þessi atriði er aflað á hverju ári.

Sjá nánar:

Reglur Garðabæjar um félagslegt leiguhúsnæði og fylgiskjöl.

Nánari upplýsingar veitir starfsfólk velferðarsviðs Garðabæjar:

leiguibud@gardabaer.is eða í síma 525-8500.

Sértækt húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk

Sótt er um sértækt húsnæðisúrræði á Þjónustugátt Garðabæjar.

Skilyrði fyrir því að umsókn sé samþykkt á biðlista eftir sértæku húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk eru m.a. þessi:

  • Umsækjandi skal vera orðinn 18 ára á umsóknardegi
  • Umsækjandi skal hafa staðfesta fötlunargreiningu og vera metinn í þörf fyrir sértækt húsnæði. Hafi umsækjandi verið metinn skv. mati á stuðningsþörf (SIS) skal hann vera metinn í 5. flokk eða hærra, að öðrum kosti vera metinn með þjónustuþörf umfram 15 klst. á viku á grundvelli laga nr. 38/2018.
  • Umsókn skal metin til að lágmarki 6 stiga skv. matsviðmiðum reglnanna, sjá nánar í d-lið 1. mgr. 7. gr. reglnanna.

Sjá nánar:

Reglur Garðabæjar um félagslegt leiguhúsnæði og fylgiskjöl.

Húsnæðisstuðningur

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur ætlaðar til þess að aðstoða fólk sem leigir íbúðarhúsnæði. Húsnæðið getur verið á almennum leigumarkaði, félagslegt leiguhúsnæði, á námsgörðum eða áfangaheimili. Alla leigusamninga þarf að skrá í leiguskrá.

Upphæð húsnæðisbóta fer eftir fjölda fólks á heimilinu, tekjum þess og eignum og leiguverði. Sótt er um húsnæðisbætur á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: www.hms.is/husnaedisbaetur.  

Lög um húsnæðisbætur nr. 75/2016

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram almennar húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016.

Garðabær annast afgreiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir sína íbúa.

Forsenda fyrir sérstökum húsnæðisstuðningi hjá Garðabæ er að fólk hafi sótt um húsnæðisbætur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og fengið samþykkta umsókn.

Umsókn um sérstakan húsnæðsstuðning skal hafa borist eigi síðar en 20. dag fyrsta greiðslumánaðar. Ef umsókn berst seinna verða húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar.

Fyrirspurnir um sérstakan húsnæðisstuðning sendist á netfangið: husbot@gardabaer.is.

Sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning í gegnum Þjónustugátt Garðabæjar.

Reglur Garðabæjar um sérstakan húsnæðisstuðning.

Húsnæðisáætlun Garðabæjar

Húsnæðisáætlun Garðabæjar á að leitast við að tryggja að íbúar sveitarfélagsins hafi
öruggt húsnæði hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki. Í
áætluninni er horft til þarfa allra bæjarbúa, óháð stöðu, eignaformi, stærð og gæðum
húsnæðis.
Húsnæðisáætlun Garðabæjar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 6. febrúar 2025.

Húsnæðisáætlun Garðabæjar 2025