• 20.9.2020, 13:00 - 17:00, Krókur á Garðaholti
  • 27.9.2020, 13:00 - 17:00, Krókur á Garðaholti

Haust í burstabænum Króki - opið aftur

  • Krókur á Garðaholti

Opið hús í burstabænum Króki sunnudagana 20. og 27. september frá 13-17. 

Aftur verður opið í burstabænum Króki sunnudagana 20. og 27. september kl. 13-17. Safnvörður er á staðnum og boðið er upp á leiðsögn fyrir fólk á öllum aldri og ratleiki fyrir börnin. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir en gætum vel að sóttvörnum, fjarlægðarmörkum og fjöldatakmörkunum.

Viðburður á fésbókarsíðu Króks.

Um Krók á Garðaholti

Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær í Garðahverfi við Garðaholt. Hann var endurbyggður úr torfbæ á fyrri hluta 20. aldar og er elsti hlutinn frá 1923. Fyrstu árin bjó ekkjan Jóhanna Jóhannsdóttir í Króki ásamt sex börnum og Halldóru móður sinni. Krókur var síðan stækkaður árið 1934 þegar Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir flutti þangað með fjölskyldu sína, fjögur börn og tengdamóður, Guðrúnu Sveinsdóttur. Bóndi Þorbjargar, Vilmundur Gíslason lá þá á Landspítalanum með berkla og var ekki hugað líf en snéri aftur í faðm fjölskyldunnar eftir tveggja ára sjúkralegu. Þorbjörg og Vilmundur voru síðustu ábúendur í Króki. Þau áttu kýr, hænsni og kindur og ræktuðu grænmeti í matjurtagarðinum við Krók. Auk þess unnu þau bæði úti og á meðan annaðist Guðrún börnin. 

Þorbjörg lifði lengst þeirra hjóna og bjó ein í Króki síðustu árin eða þangað til hún dó árið 1985. Upp úr því buðu börn og barnabörn þeirra Vilmundar Garðabæ að eignast húsin ásamt innbúi gegn því að Krókur yrði varðveittur. Garðabær tók við Króki árið 1998 og voru húsin þá gerð upp undir stjórn Jon Nordsteien arkitekts og Einars Hjartarsonar húsasmíðameistara. Yngstu dætur hjónanna í Króki, Elín og Vilborg, höfðu umsjón með hvernig húsmunum var raðað þannig að allt stendur eins og í tíð móður þeirra enda hefur skapast sú tilfinning að gamla konan hafi bara rétt skroppið af bæ.

Öll húsgögn og munir í Króki voru í eigu síðustu ábúenda og er ómetanlegt að bæði híbýli og innbú hafi þannig varðveist sem heild. Krókur er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks í þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar.