• 10.9.2025, 12:15 - 13:00, Hönnunarsafn Íslands

Íslenskt handprjón kynnt

Hádegishittingur með hönnuðunum Huldu Kristínu og Kristrúnu Rut.

Miðvikudaginn 10. september kl. 12.15 munu þær Hulda Kristín Hauksdóttir og Kristrún Rut H. Antonsdóttir kynna rannsóknarniðurstöður sínar á viðburðinum Hádegishittingi með hönnuði í Hönnunarsafninu á Garðatorgi.

Þær stöllur fengu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna hjá Rannís til að rannsaka handprjón á Íslandi og voru með vinnuaðstöðu í Hönnunarsafninu í sumar. Þær unnu fræðilega vinnu, prjónuðu prufur og prófuðu nýjar aðferðir í prjóni, tóku viðtöl og unnu skapandi með handprjónshefðina. Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar gestum á Hádegishittingi með hönnuði þar sem boðið verður uppá kaffi og kleinur og notalegheit.