Kvennaár 2025 - sýning á bókasafni
Á Bókasafni Garðabæjar má nú sjá sýningu sem samanstendur af níu stórum veggspjöldum þar sem sagt er frá meðal annars kvenfélögum, baráttunni fyrir kosningarétti, kvennafrídeginum og rauðsokkunum og fyrstu kvenkyns forsetum.
Í tilefni af Kvennaári 2025 þegar 50 ár eru liðin frá fyrsta Kvennafrídeginum þegar konur lögðu niður launuð og ólaunuð störf til að krefjast jafnréttis hefur Kvenréttindafélag Íslands sett upp sýninguna Kvennabaráttan í 110 ár.
Sýningin byggir á fyrri farandsýningu félagsins frá árinu 2015 sem var sett upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna sem bar yfirskriftina „Kvenréttindabaráttan í 100 ár“ og var sett upp til að minnast kvennabaráttu síðustu aldar, með áherslu á kosningarétt kvenna sem var lögfestur 19. júní 1915. Sýningin var fyrst sett upp á samnorrænni jafnréttisráðstefnu í Svíþjóð sumarið 2014 og lauk í Reykjavík í desember 2015 eftir hringferð um allt landið. Nú hefur sýningin verið uppfærð og endurbætt.
Sýningin nú samanstendur af níu stórum veggspjöldum sem eru í tíma- og þemaröð þar sem sagt er frá kvenfélögum, baráttunni fyrir kosningarétti, verkalýðsbaráttunni, kvennafrídeginum og rauðsokkunum, Kvennalistanum og kvennaframboðum 9. áratugarins, fyrstu kvenkyns forsetum og forsætisráðherrum Íslands, listum kvenna og baráttunni gegn ofbeldi ásamt helstu vörðum í tímaröð.
Sýningin stendur til 1. nóvember.

