• 10.6.2019, 18:00, Vífilsstaðatún

Leikhópurinn Lotta: Litla hafmeyjan - kl. 18 á Vífilsstaðatúni

  • Leikhópurinn Lotta sýnir Litlu hafmeyjuna

Leikhópurinn Lotta sýnir Litlu hafmeyjuna á Vífilsstaðatúni mánudaginn 10. júní kl. 18 og þriðjudaginn 30. júlí kl. 18. 

Þrettánda sumarið í röð leggur Leikhópurinn Lotta land undir fót og ferðast með glænýja fjölskyldusýningu um landið þvert og endilangt. Í sumar er það Litla hafmeyjan sem syndir um landið og gleður landsmenn á öllum aldri með ævintýrum sínum.

Leikhópurinn Lotta mætir aftur til leiks í Garðabæ og sýnir Litlu hafmeyjuna á Vífilsstaðatúni:
Mánudaginn 10. júní kl. 18 - viðburður á facebook
Þriðjudaginn 30. júlí kl. 18

Miðaverð er 2500 kr.  

Litla hafmeyjan er sýning sem er hugsuð fyrir alla aldurshópa og eiga þar fullorðnir jafnt sem börn að geta skemmt sér saman. Lotta heldur í hefðina og sýnir sýningar sínar utandyra svo það er um að gera að klæða sig eftir veðri, pakka smá nesti og hella vatni í brúsa og halda svo á vit ævintýranna inni í Ævintýraskóginum. 

Sýningarplanið í heild má finna inná vef Leikhópsins Lottu.
Leikhópurinn Lotta á facebook

Um verkið

Sagan um Litlu hafmeyjuna gerist inni í Ævintýraskóginum eins og Lottu er von og visa en eðli málsins samkvæmt höldum við okkur ekki bara inni í skóginum heldur dýfum okkur á bólakaf í sjóinn sem umlykur hann. Þar kynnumst við hafbúum, þeim Báru, Sævari og Öldu, ásamt ógurlegum kolkrabba sem á gullfiska að gæludýrum. Sagan ber okkur einnig upp á land þar sem þjóðsagan um Hlina kóngsson fléttast skemmtilega saman við Litlu hafmeyjuna. Sögurnar tvær fléttast saman í glænýtt ævintýri þar sem drottning, kóngur og ægileg tröll koma einnig við sögu. 

Höfundur verksins er Anna Bergljót Thorarensen en þetta er níunda verkið sem hún skrifar fyrir hópinn. Hún semur einnig lagatexta ásamt Baldri Ragnarssyni. Í Litlu hafmeyjunni eru samtals 10 glæný og stórskemmtileg lög sem eru samin af fyrrnefndum Birni Thorarensen, Rósu Ásgeirsdóttur og Þórði Gunnari Þorvaldssyni.  Öllu þessu er síðan haldið saman af höfundinum, sem einnig leikstýrir sýningunni, og danshöfundinum Berglindi Ýr Karlsdóttur sem eykur enn á fjörið með líflegum dönsum.

Sex leikarar halda uppi sýningunni og kannast aðdáendur Lottu vel við þá alla. Þetta eru þau Andrea Ösp Karlsdóttir, Árni Beinteinn, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir og Þórunn Lárusdóttir en þau skipta á milli sín öllum hlutverkum sýningarinnar.