• 6.8.2020, 17:00 - 18:45, Bókasafn Garðabæjar

Listamaður ágúst mánaðar í Bókasafni Garðabæjar - Rúna K. Tetzschner

  • Verk eftir Rúnu K. Tezschner

Rúna K. Tetzschner er listamaður ágústmánaðar á Bókasafni Garðabæjar og sýning hennar ,,Töfraferðir um náttúru" verður opnuð fimmtudaginn 6. ágúst kl. 17-18:45 í safninu á Garðatorgi 7.

Rúna K. Tetzschner er listamaður ágústmánaðar á Bókasafni Garðabæjar og sýning hennar ,,Töfraferðir um náttúru" verður opnuð fimmtudaginn 6. ágúst kl. 17-18:45 í safninu á Garðatorgi 7. Boðið er upp á veitingar við opnun sýningarinnar og listamaðurinn verður á staðnum og spjallar við gesti.

Listamaður mánaðarins er samstarfsverkefni Bókasafns Garðabæjar og myndlistarfélagsins Grósku í Garðabæ.
Viðburður á fésbókarsíðu bókasafnsins.

Vefur Bókasafns Garðabæjar. 

Um listamanninn

Rúna gengur daglega um töfraheima íslenskrar náttúru og veitir sýningin innsýn í hughrif frá gönguferðunum. Göngurnar eru ævintýri og andlegar íhugunarferðir og áhrifin skila sér stundum í listrænni sköpun. Meðal viðfangsefna núna eru hamraklettar og hraun, þéttgróin blikandi mosa, lyngi, birkikjarri og litríkum smáblómum: Venjulegt landslag á Íslandi sem er þó með því fegursta sem hægt er að hugsa sér. Að undanförnu hefur sköpunarþörf Rúnu einkum fengið útrás í olíumálverkum á striga og á sýningunni getur að líta nokkur sýnishorn af þeim.

Rúna er í stjórn Grósku, samtökum myndlistarmanna í Garðabæ og starfar jafnhliða við listir og fræði. Hún á að baki sjö ára nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík og hefur starfað við myndlist síðan 1999. Lengi vel sérhæfði hún sig einkum í skrautritun og skreytilist og þróaði sérstaka blandaða tækni við gerð tússlitamynda sem margir hafa notið í formi smámynda. Síðustu árin hefur Rúna hins vegar aðallega einbeitt sér að olíumálverkum. Rúna hefur sýnt víða hér heima en þó meira erlendis og þá einkum í Danmörku. Hún er auk þess rithöfundur sem hefur sent frá sér ljóðabækur, barnabækur og fræðibækur.
Rúna er með B.A.-próf í íslensku og M.A.-nám í norrænni trú frá Háskóla Íslands. Hún hefur unnið mikið við minjavörslu og menningarmiðlun, t.d. á Þjóðminjasafni Íslands. Hún starfar nú við fornleifaskráningu hjá fyrirtækinu Antikvu og er jafnframt safnvörður í Króki í Garðahverfi í Garðabæ.