Sýningin Heimilistextíll
Fimmta sýningin í sýningaröð sem haldin er í tilefni 50 ára afmælis Textílfélagsins.
Opnun á fimmtu og síðustu sýningunni í sýningaröð sem haldin er í tilefni af 50 ára afmæli Textílfélagsins er 8. nóvember. Textíll er mikilvægur hluti af heimilinu og gegnir margvíslegum hlutverkum til dæmis sem áklæði, dúkar, teppi, servíettur, viskastykki og rúmföt. Þær Guðrún Kolbeinsdóttir, Benthina Elverdam Nielsen og Brynhildur Þórðardóttir hafa allar einbeitt sér að vönduðum textíl fyrir heimilið. Verk þeirra snúast um hversdagslegar athafnir eins og að þurrka hendurnar, leggjast undir teppi, halla höfði, þurrka leirtau og leggja á borð. Verkin bera með sér tíma og alúð og gera hversdaginn vandaðri og fegurri.Verk Guðrúnar eru handofin, aðallega úr bómull og hör en einnig silki. Benthina sýnir handofin verk sem og verk unnin í jacquard vél. Brynhildur hannar vöru til framleiðslu úr mismunandi efnum fyrir Lúka Art & Design.
Sýningin verður opnuð þann 8. nóvember og stendur til 29. desember.