Stjörnugerðið í Heiðmörk tekið í notkun
Nýtt og glæsilegt stjörnugerði í Heiðmörk í Garðabæ, í nágrenni við Búrfellsgjá, verður tekið formlega í notkun 14. október klukkan 19:30.
Við hvetjum stjörnuáhugafólk á öllum aldri að koma og taka þátt þegar stjörnugerðið verður kynnt en sjálfur Stjörnu-Sævar verður með okkur. Hann mun fræða viðstadda um stjörnugerðið og töfrana sem leynast á himninum ásamt því að leyfa okkur að kíkja í sjónauka. Hver veit nema við komum auga á loftsteinahrap, dansandi norðurljós og stöku gervitungl á fleygiferð umhverfis plánetuna okkar? Á næturhimninum er nefnilega ótalmargt að sjá.
Klæðum okkur eftir veðri og þau sem eiga höfuðljós og sjónauka eru hvött til að taka með sér.
Boðið verður upp á heitt kakó og notalega stund. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!
Stjörnugerðið er staðsett við bílastæði við Heiðmerkurveg sem tengist útivistarstíg að Búrfelli og Búrfellsgjá.