Svört blúnda - María Rún sýnir í Gróskusal
Sýningin er opin alla daga til 7. apríl frá kl. 13-17
Blekið færir tilfinningaóreiðuna á fast form. Þegar svartur vökvinn drýpur af penslinum á hrjúft yfirborð pappírsins finn ég ró færast yfir líkamann. Lífið er svart eða hvítt, en stundum, þar sem skuggar mæta ljósi færist gráskalinn yfir. Ég sé liti í svörtu blekinu. Ég er viss um að ég sjái eldrauðan varalit, örlítið rjóðar kinnar og gulgrænan marblett á öðru hné. Ég sé fölbláa þreytubauga undir augum og minningar í þeim miðjum.
Blúndan myndar heild þráða sem eru samtímis einstakir og sterkir en líka næfurþunnir og viðkvæmir. Þræðir hennar njóta sín í mótvægi við nakta, föla húðina. Ég er ekki jafn berskjölduð þegar ég er nakin. Áferðin lýsir sér í örsmáum breytileika milli fingurgóma þegar þeim er rennt eftir mjúku efni með hvössum brúnum. Endurtekið landslag myndast í fínlegu munstrinu með mótífum sóttum í náttúruna. Ekkert nema samanofin fegurð heimsins síendurtekin allt þar til jaðrinum er náð. Blúndan er raunveruleikaflótti. Blúndan er flótti en líka þvingun til að staldra við og njóta augnabliksins þegar efnið hreyfir við snertiskyninu.
........................................................................................
María Rún Þrándardóttir er myndlistarkona úr Reykjavík. Sýningin "Svört blúnda" samanstendur af nýjum verkum, unnin með bleki og sýnd í Gróskusalnum, Garðatorgi. María hefur bakgrunn í dansi sem hún nýtir í tjáningu sinni í myndlist. Blekteikningarnar á sýningunni eru einkum sjálfsmyndir.
Allir eru hjartanlega velkomnir, Garðbæingar jafnt sem aðrir listunnendur.