Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Garðabæjar
34. (2182). fundur
23.09.2025 kl. 08:00 kom bæjarráð Garðabæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Sveinatungu, Garðatorgi.
Fundinn sátu: Björg Fenger formaður, Sigríður Hulda Jónsdóttir varaformaður, Hrannar Bragi Eyjólfsson aðalmaður, Þorbjörg Þorvaldsdóttir aðalmaður, Brynja Dan Gunnarsdóttir aðalmaður, Guðlaugur Kristmundsson áheyrnarfulltrúi, Almar Guðmundsson bæjarstjóri, Lúðvík Örn Steinarsson sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, Linda Udengård sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, Guðbjörg Brá Gísladóttir sviðsstjóri umhverfissviðs, Ágúst Þór Guðmundsson sviðsstjóri þróunar- og þjónustusviðs, Ásta Sigrún Magnúsdóttir samskiptastjóri.

Fundargerð ritaði: Lúðvík Örn Steinarsson sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 
1. 2508184 - Vetrarbraut 30 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi
Bæjarráð samþykkir afgreiðslu byggingarfulltrúa að veita Garðabæ, kt. 570169-6109, leyfi til að innrétta u m helming 2. hæðar suður, að Vetrarbraut 30.
2. 2507352 - Langalína 8 leikskóli - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi
Bæjarráð samþykkir afgreiðslu byggingarfulltrúa að veita Garðabæ, kt. 570169-6109 leyfi fyrir byggingu leiksskóla byggður úr forsmíðuðum húseiningum (tímabundið úrræði) að Löngulínu 8.
3. 2409044 - Mávanes 13 - Umsókn um byggingarleyfi
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar frá fundi 18. september 2025 varðandi tillögu að breytingu deiliskipulags Arnarness sem nær til lóðarinnar Mávanes 13. Tillagan hefur það markmið að skapa grundvöll fyrir byggingarleyfi fyrir bátaskýli sem hefur verið reist og nær út fyrir lóðarmörk.
Tillagan gerir ráð fyrir því að lóðarmörk að vestanverðu breytast þannig að byggingarreitur bátaskýlis verði innan lóðar. Stærð lóðar er óbreytt. Byggingareitur íbúðarhúss skerðist sem nemur byggingarreit bátaskýlis.
Skipulagsnefnd vísaði tillögunni til auglýsingar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vekja skal athygli á auglýsingunni með því að senda dreifibréf í öll hús við Mávanes.
4. 2202488 - Deiliskipulag Vetrarmýrar og Smalaholts. Golfvöllur og útivistarskógur.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar frá fundi 18. september 2025 varðandi tillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts ásamt umsögnum og athugasemdum.
Lögð var fram greinargerð deiliskipulagsráðgjafa með tillögu að svörum við athugasemdum. Jafnframt var lögð fram skýrsla Eflu um áhrif tillögunnar á umferð aðliggjandi svæða. Skipulagsnefnd ítrekar að í svörum við athugasemdum er tekið fram að tenging Vorbrautar við Öldusali muni aðeins koma þegar þörf er á.
Eftirfarandi atriðum er breytt í greinargerð eftir auglýsingu tillögunnar m.t.t. umsagna og ábendinga:
Kafli 3.2. Bætt við að leita skuli samráðs við Náttúruverndarstofnun vegna náttúrugarðs.
Kafli 3.4. Bætt við skilmála að samráð skal haft við viðeigandi veituaðila vegna veitumála.
Kafli 3.4.1 Bætt við skilmálum um framkvæmdir innan helgunarsvæðis háspennulínu.
Eftirfarandi atriðum er breytt á uppdráttum deiliskipulagsins eftir auglýsingu tillögunnar m.t.t. umsagna og ábendinga:
Hnoðraholtslína: helgunarsvæði loftlínu og jarðstrengs sett inn á deiliskipulagsuppdrátt og skýringaruppdrætti. Golfbrautir á skýringaruppdrætti sýndar með tilliti til Hnoðraholtslínu en frekari hönnun í samráði við Landsnet, sjá greinargerð.
Flóttamannavegur: 60 m helgunarsvæði stofnvegar skv. flokkun Vegagerðarinnar sett inn á uppdrætti.
Friðlýsingarmörk látin ná að græna stígnum við Vífilsstaðavatn.
Útivistarskógur í Smalaholti: Bílastæðum norðan Elliðavatnsvegar fjölgað um 10 stæði
Lega útvistarstíga lagfærð á stuttum köflum til að fækka þverunum þeirra yfir reiðstíg í Smalaholti.

Deiliskipulagið kallar á breytingar á aðliggjandi deiliskipulagsáætlunum; Hnoðraholt norður, Vetrarmýri-Miðsvæði og Heiðmörk og Sandahlíð, sem liggja fyrir afgreiðslu á fundi þessum og hafa verið samþykktar í skipulagsnefnd sem óverulegar breytingar og munu hljóta staðfestingu um leið og deiliskipulag Vetrarmýrar og Smalaholts.

Ennfremur hefur óveruleg breyting rammahluta aðalskipulags Garðarbæjar 2016-2030 verið samþykkt þar sem mörk milli landnotkunarflekanna 4.10 Íþ og opins svæðis í Smalaholti breytast til aðlögunar að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts.

Skipulagsnefnd samþykkti deiliskipulag Vetrarmýrar og Smalaholts með framangreindum breytingum í samræmi við 41.gr.skipulagslaga nr.123/2010.
5. 2504060 - Smalaholt, óveruleg breyting Aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar frá fundi 18. september 2025 varðandi tillögu að breytingu Aðalskipulags Garðabæjar, rammahluta Vífilsstaðalands sem gerir ráð fyrir breytingu á afmörkun landnotkunarreitsins 4.10 Íþ til samræmis við tillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts. Skipulagsnefnd samþykkti tillöguna sem óverulega breytingu Aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030 í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Senda skal breytinguna til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun.
6. 2509304 - Heiðmörk og Sandahlíð, óveruleg dsk breyting vegna skipulagsmarka.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar frá fundi 18. september 2025 varðandi tillögu að breytingu deiliskipulags Heiðmerkur og Sandahlíðar sem gerir ráð fyrir því að afmörkun deiliskipulagssvæðis breytist til aðlögunar að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts.
Skipulagsnefnd mat tillöguna sem óverulega breytingu deiliskipulags Heiðmerkur og Sandahlíðar í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynning er felld niður þar sem að tillagan er í samræmi við tillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts. Tillagan skal hljóta staðfestingu um leið og tillaga að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts.
7. 2409103 - Hnoðraholt-háholt, deiliskipulag
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar frá fundi 18. september 2025 varðandi tillögu að deiliskipulagi háholts Hnoðraholts.
Tillagan gerir alls ráð fyrir 77 íbúðareiningum, þar af 26 einbýlishúsum, 41 raðhúsaeiningu, 2 parhúsaeiningum og 8 fjölbýliseiningum, ýmist á einni eða tveimur hæðum.
Auk þess er gert ráð fyrir lóð fyrir leikskóla og búsetukjarna.
Megináhersla deiliskipulagsins er að skapa lágreista og uppbrotna íbúðabyggð sem fellur að landinu á háholti og niður hlíðarnar í suðurhluta Hnoðraholts. Gert er ráð fyrir blöndu einbýlishúsa og raðhúsa, einnar og tveggja hæða, sem raðast í sveigðar byggðalínur í takt við hæðarlínur og landslag.
Græn svæði og stígar tengja byggðina innbyrðis og við nærliggjandi hverfi. Áhersla er lögð á að byggðin styðji við fjölbreytni í búsetu og aðgengi að náttúru og útivist. Mikilvægt er að tryggja góða tengingu við Vetrarbraut, stíga yfir háholtið og framtíðaruppbyggingu aðliggjandi svæða í Vífilsstaðalandi.
Deiliskipulagið tekur mið af sjálfbærum lausnum í innviðum, þar með talið blágæna meðferð ofanvatns, vistvænt efnisval og aðgengi fyrir gangandi og hjólandi.
Skipulagsnefnd samþykkti að vísa tillögunni til auglýsingar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Boða skal til kynningarfundar á meðan á auglýsingu tillögunnar stendur.
8. 2410080 - Hnoðraholt - Háholt - Aðalskipulagsbreyting
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar frá fundi 18. september 2025 varðandi tillögu að breytingu Aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030 sem nær til háholts Hnoðraholts ásamt erindi Skipulagsstofnunar vegna tillögunnar þar sem að fram kemur að stofnunin geri ekki athugasemd við auglýsingu breytingartillögunnar.
Auglýsa skal tillöguna samhliða tillögu að deiliskipulagi að háholti Hnoðraholts.
9. 2509095 - Hnoðraholt N - Dsk.br. leikskóla- og þjónustulóð
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar frá fundi 18. september 2025 varðandi tillögu að breytingu deiliskipulags Hnoðraholts Norður sem gerir ráð fyrir því að lóðir fyrir leikskóla og búsetukjarna eru felldar út enda er gert ráð fyrir sambærilegum lóðum í tillögu að deiliskipulagi háholts Hnoðraholts og tillögu að breytingu aðalskipulags Garðabæjar sem nær til háholtsins.
Skipulagsnefnd vísaði tillögunni til auglýsingar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal auglýsa hana samhliða tillögu að deiliskipulagi háholts Hnoðraholts og tillögu að breytingu aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030 sem nær til háholts Hnoðraholts.
10. 2509269 - Tónlistarskóli - Kirkjulundur - dsk br.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar frá fundi 18. september 2025 varðandi tillögu að breytingu deiliskipulags Miðbæjar sem nær til lóðar tónlistarskóla við Kirkjulund.
Skipulagsnefnd vísaði tillögunni til auglýsingar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vekja skal athygli lóðarhafa við Kirkjulund og Hofslund á auglýsingunni með dreifibréfi.
11. 2505330 - Bréf SSH um farsældarráð höfuðborgarsvæðisins, samning, skipurit og starfsreglur, dags. 15.09.2025.
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu dags. 15. september 2025 varðandi drög að sameiginlegum samningi sveitarfélaganna um svæðisbundið farsældarráð í samræmi við 5.gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Einnig fylgdi erindinu drög að skipuriti ráðsins og starfsreglum þess.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja samning sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarnesbæjar um svæðisbundið farsældarráð, ásamt starfsreglum ráðsins og að fela Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra, að undirrita samninginn fyrir hönd Garðabæjar.
12. 2509359 - Umsagnarbeiðni vegna umsóknar KFG um tímabundið áfengisleyfi í Miðgarði
Lögð fram umsókn Knattspyrnufélags Garðabæjar - KFG, um tímabundið áfengisleyfi í Miðgarði, Vetrarbraut 30, á lokahófi knattspyrnudeildar sem halda á 27. september 2025. Bæjarráð gerir ekki fyrir sitt leyti athugasemdir við að umbeðið leyfi verði veitt.
13. 2509355 - Frumvarp til laga um skipulagslög (breytingar á svæðisskipulagi), 28. mál
Lagt fram erindi frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis vegna breytingar á skipulagslögum nr. 123/2010 (svæðisskipulag).
14. 2508208 - Reglur um ferðastyrki ÍTG
Lagðar fram tillögur Íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar vegna endurskoðun á reglum um ferðastyrki til íþróttafólks Garðabæjar vegna þátttöku í landsliðsverkefnum erlendis.
Megin breyting reglnanna er að styrkfjárhæð fyrir hverja ferð í landsliðsverkefnum verði kr. 50.000 í stað kr. 20.000. Áfram verði miðað við tvær ferðir á ári en hægt að sækja um fleiri ferðir ef sérstakar aðstæður einstaklinga gefa tilefni til þess. Slík tilfelli verða þá metin sérstaklega.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja fyrirliggjandi tillögu að breytingum á reglum um ferðastyrki til íþróttafólks Garðabæjar vegna þátttöku í landsliðsverkefnum erlendis.
15. 2509368 - Brunavarnaráætlun höfuðborgarsvæðisins
Lögð fram ný brunavarnaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið sem samþykkt var af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þann 16. september 2025 og af stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 19. september 2025. Stefnt er að formlegri undirritun áætlunarinnar í október en gildistími hennar er ráðgerður frá nóvember 2025 til október 2030.
16. 2403474 - Lambamýri, fjölnota aðstaða fyrir eldri borgara - skoðunarferð.
Bæjarráð heimsótti Lambamýri, nýja fjölnota aðstöðu fyrir eldri borgara, og kynnti sér stöðu byggingaframkvæmda.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:30. 
Til baka Prenta

Fylgigögn eru birt með fundargerðum:

  • bæjarráðs, frá og með 12. fundi 2015
  • skólanefndar grunnskóla frá og með 14. fundi 2015
  • mannréttinda- og forvarnanefndar frá og með 16. fundi 2015
  • umhverfisnefndar frá og með 18. fundi 2015
  • leikskólanefndar frá og með 15. fundi 2015
  • menningar- og safnanefndar frá og með 12. fundi 2015
  • íþrótta- og tómstundaráðs frá og með 14. fundi 2015

Reglur um birtingu gagna með fundargerðum (sjá reglur undir stjórnsýslu).