2. maí 2022

Hefur þú áhuga á að gerast vistforeldri

Barnavernd Garðabæjar leitar að tveimur fjölskyldum sem eru tilbúnar að taka á móti börnum sem þurfa umönnun utan síns heimilis í skemmri tíma.

Hlutverk vistforeldra er að veita börnum móttöku, þar með talið í bráðatilvikum, til að tryggja öryggi barnanna, greiða vanda þeirra eða til könnunar á aðstæðum þeirra. Þegar barn er í vistun utan heimilis er lögð áhersla á að það stundi sinn heimaskóla, sæki tómstundir og geti haldið vinatengslum. Því er kostur ef fjölskyldurnar búa í Garðabæ.

Þegar fjölskyldur bjóða sig fram í þetta mikilvæga hlutverk, verður gerð úttekt á heimilunum. Aflað er upplýsinga úr sakaskrá, vottorðs frá heilbrigðiseftirliti og skýrslu vegna eldvarna auk umsagnar frá barnaverndarþjónustu. Samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndarþjónustur gera samninga við vistforeldra á einkaheimili.

Mikilvægt er að einn aðili fjölskyldunnar sinni eingöngu þessu starfi og að fyrir hendi sé sér herbergi í húsnæðinu sem alltaf er tilbúið fyrir barn/börn.

Starfið er fjölbreytt og gefandi og unnið í nánu samstarfi við starfsmenn barnaverndarþjónustu. Reynsla af starfi með börnum og háskólamenntun sem nýtist í starfinu er mikils metin.

Nánari upplýsingar gefa Sigurður Garðar Flosason, ráðgjafi og fjölskyldufræðingur í barnavernd Garðabæjar, netfang sigurdurfl@gardabaer.is og Guðrún Hrefna Sverrisdóttir, félagsráðgjafi í barnavernd Garðabæjar, netfang gudruns@gardabaer.is
Umsóknir ásamt upplýsingum um umsækjanda, menntun og reynslu, skulu sendar á sömu netföng. Umsóknarfrestur er til 22.05.2022.

Fjölskyldusvið Garðabæjar