8. júl. 2024

Heita­vatns­laust í Garðabæ 19.-21. ágúst

Heitavatnslaust verður í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Norðlingaholti, Breiðholti og á Álftanesi frá kl. 22 mánudaginn 19. ágúst þar til á hádegi miðvikudaginn 21. ágúst. 

Lokað verður fyrir flutningsæð hitaveitu, Suðuræð, sem flytur heita vatnið frá jarðvarmavirkjunum á stóran hluta af höfuðborgarsvæðinu. Þetta þýðir að heitavatnslaust verður í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Norðlingaholti, Breiðholti og á Álftanesi frá kl. 22 mánudaginn 19. ágúst þar til á hádegi miðvikudaginn 21. ágúst.

Verið er að tengja fyrsta áfanga Suðuræðar 2 við dreifikerfið og þá þarf að taka heita vatnið af. Áhrifin eru því mikil á stórt svæði. Gangi allt eftir áætlun ætti kerfið að hafa náð fullum þrýstingi um hádegisbil miðvikudaginn 21. ágúst. Markmiðið er að auka flutningsgetu hitaveitunnar til að allir íbúar á svæðinu hafi nauðsynlega innviði og lífsgæði til framtíðar.

 Mikilvægt er að íbúar hafi skrúfað fyrir krana til að koma í veg fyrir slys og tjón þegar vatnið kemur á aftur.  

Húseigendum þurfa að huga að sínum innanhússkerfum. Gott er að hafa gluggana lokaða á þessum tíma til að halda varmanum inni.   

 Þegar vatni er hleypt aftur á viðamikið lagnakerfi eftir lokun er eðlilegt að lekar geti komið upp. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að tilkynna það svo hægt sé að bregðast við sem fyrst.   

Hér verður hægt að fylgjast með aðgerðum Veitna

Tilkynningin frá Veitum:

Lokað verður fyrir flutningsæð hitaveitu, Suðuræð, sem flytur heita vatnið frá jarðvarmavirkjunum á stóran hluta af höfuðborgarsvæðinu.

Verið er að tengja fyrsta áfanga Suðuræðar 2 við dreifikerfið og þá þarf að taka heita vatnið af. Áhrifin eru mikil á stórt svæði. Við munum nýta tímann og tækifærið vel og sinna öðrum aðkallandi verkum samtímis.

Við skiljum vel að það komi sér illa fyrir íbúa og fyrirtæki að vera án heits vatns og við höfum skipulagt lokunina á þeim tíma þegar minnst notkun er á heitu vatni. Tenging stofnæða er stórt og tímafrekt verk en við munum kappkosta við að vinna það hratt og örugglega.

Mánudagskvöldið 19. ágúst hefst vinna við að tæma heita vatnið af Suðuræð til að hægt sé að tengja nýju lögnina. Tæming tekur nokkrar klukkustundir og þá hefst vinna á fimm ólíkum stöðum í kerfinu. Við ætlum að bæta við búnaði, auka rekstraröryggi nýrra hverfa og sinna nauðsynlegu og fyrirbyggjandi viðhaldi í kerfinu. Viðamesta verkið er að tengja Suðuræð 2, en að því loknu verður heita vatninu hleypt á kerfið aftur hægt og örugglega.

Gangi allt eftir áætlun ætti kerfið að hafa náð fullum þrýstingi um hádegisbil miðvikudaginn 21. ágúst.

Markmiðið er að auka flutningsgetu hitaveitunnar til að allir íbúar á svæðinu hafi nauðsynlega innviði og lífsgæði til framtíðar.