Tækifærin í Haukshúsi: Ertu með hugmynd að starfsemi?
Garðabær óskar eftir áhugasömum rekstraraðilum til samstarfs um leigu og rekstur Haukshúss á Álftanesi
-
Garðabær óskar eftir áhugasömum aðilum til samstarfs um leigu og rekstur Haukshúss á Álftanesi. Húsið býður upp á fjölbreytta möguleika fyrir rekstur.
Garðabær leitar að hæfum aðilum með skýra framtíðarsýn og rekstrarhæfni til að taka þátt í samstarfsverkefni um leigu og rekstur á húsnæðinu Haukshús á Álftanesi. Húsið, sem er í eigu Garðabæjar, var áður golfskáli og býður upp á fjölbreytta möguleika fyrir rekstur. Það samanstendur af tveimur herbergjum, salerni, rúmgóðri stofu og eldhúsaðstöðu.
Haukshús gæti hentað vel fyrir ýmsa starfsemi, svo sem líkamsrækt, útivistartengda þjónustu, veitingarekstur eða menningarstarfsemi. Húsið stendur við sjávarsíðuna með stórum palli og nýtur einstaklega fallegs útsýnis út að sjó og yfir Álftanes.
Skilmálar og fyrirkomulag:
Leigutími: Til eins árs í senn. Upphaf leigutíma 1. maí 2025.
Húsnæðið: Hefur verið í takmarkaðri notkun undanfarið. Áhugasömum bent á að kynna sér ástand húsnæðisins. Hægt er að hafa samband í gegnum gardabaer@gardabaer.is.
Garðabær óskar eftir upplýsingum frá áhugasömum aðilum um hugmyndir að starfsemi í húsinu. Við leitum að rekstraraðilum sem geta glætt húsið nýju lífi með öflugri starfsemi sem tekur mið af umhverfinu og nærliggjandi íbúum.
Við mat á tilboðum er 50% vægi lagt á hvernig hugmynd um rekstur, nýtingu og fyrirkomulag leigu er og 50% vægi á leigufjárhæð.
Tilboðum skal skila til Garðabæjar á gardabaer@gardabaer.is fyrir 17. mars 2025, ásamt upplýsingum um rekstrarhæfi og áform um nýtingu húsnæðisins.