Barnamenningarhátíð í Garðabæ 2023
Barnamenningarhátíð í Garðabæ 2023 fer fram 17. – 22. apríl 2023.
Dagskrá fyrir skólahópa fer fram á skólatíma en takmarkaður fjöldi nemenda kemst að og því eru kennarar hvattir til að bóka hópinn sinn sem allra fyrst. Barnamenningarhátíð í Garðabæ lýkur með fjölskyldudagskrá í Minjagarðinum á Hofsstöðum og Aftur til Hofsstaða á Garðatorgi 7, á Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar laugardaginn 22. apríl.
7. bekkur – Hönnunarsafn Íslands
17., 18., 19. og 21. apríl 2023
Klukkan 9:00, 10:30 og 12:30
Fornleifafræði og landnám í Garðabæ
Einn af stærri landnámsskálum sem fundist hefur á Íslandi er staðsettur í Garðabæ en rannsókn á skálanum hófst árið 1994. Í Minjagarðinum á Hofsstöðum við Kirkjulund er rústunum og lífinu í bænum gerð skil á mjög nýstárlegan hátt en það voru margmiðlunarhönnuðir sem endurhönnuðu garðinn með það fyrir augum að sýna gestum fortíðina í gegnum sérstaka sjónauka. Á Garðatorgi 7 er svo margmiðlunarsýningin Aftur til Hofsstaða staðsett en sýningin gerir okkur kleift að fræðast um söguna allt frá landnámi til okkar daga.
Fornleifafræðingurinn Hermann Jakob Hjartarson segir nemendum í 7. bekk frá því ferli sem fer af stað þegar hugsanlegar fornminjar finnast, uppgreftri og rannsóknum í kjölfarið. Hópurinn hittist í Minjagarðinum og fær fræðslu um minjarnar sem þar fundust en síðan heldur hópurinn gangandi á Garðatorg 7 og skoðar margmiðlunarsýninguna Aftur til Hofsstaða en þar má fræðast meira um hugsanlega ábúendur á Hofsstöðum.
Einn bekkur kemst að í einu og dagskráin tekur um 70 mínútur.
Vinsamlegast bókið á netfangið: olof@gardabaer.is. Takið fram nafn á skóla og fjölda nemenda.
5. bekkur – Bókasafn Garðabæjar
Ath. aðrar dagsetningar:
13. og 14. apríl og 17. og 18. apríl
Klukkan 9:15, 11:00 og 12:30
Hvernig á að skrifa GEGGJAÐAR sögur!
Gunnar Helgason hittir nemendur í 5. bekk og fer yfir AÐAL atriðin í því hvernig á að skrifa GEGGJAÐAR sögur. Hann segir frá ÖLLUM leyndarmálunum sínum og hjálpar nemendunum að búa til sín eigin meistaraverk.
Dagskráin byggist svona upp:
1. Gunni segir frá því hvernig hann byggir sínar sögur upp með hjálp frá Aristótelesi, Disney og Pixar.
2. Krakkarnir skrifa sína eigin söguþræði með hjálp frá Gunna.
3. Gunni fer yfir söguþræðina og gefur krökkunum punkta um hvað má betur fara.
4. Allir eru orðnir SNILLINGAR!!!
Einn bekkur kemst að í einu og dagskráin tekur um 70 mínútur. Vinsamlegast bókið á netfangið: einar@gardabaer.is Takið fram nafn á skóla og fjölda nemenda.
3. bekkur – Hönnunarsafn Íslands
17., 18., 19. og 21. apríl 2023
Kl. 9:00, 10:30 og 12:30
FÍGÚRUSMIÐJAN
Hönnuðirnir Auður Ösp Guðmundsdóttir og Kristín María Sigþórsdóttir stýra smiðju þar sem sköpuð verða allskyns dýr og verur með uppfinningasemi og endurnýtni að leiðarljósi. Við æfum okkur í að hugsa með höndunum og láta sköpunargleðina leika lausum hala.
Smiðjan tekur um 60 mínútur.
Vinsamlegast bókið á netfangið: olof@gardabaer.is. Takið fram nafn á skóla og fjölda nemenda.
1. bekkur – Garðatorgi 1, glerbygging hjá apóteki
17., 18., 19. og 21. apríl 2023
Klukkan 10 alla dagana
Dansað um heiminn, DANSPARTÝ!
Þau Friðrik Agni og Anna Claessen leiða alla 1. bekkinga í Garðabæ í danspartýi þar sem tónlist frá öllum heimshonrum hljómar og allir taka þátt.
Aðeins fjögur danspartý eru í boði , fjölmennustu skólarnir tveir fá sérpartý en hinir sameinast tveir og tveir þannig að á milli 50 og 60 börn dansa í einu. Kennarar taka virkan þátt og allir fá tækifæri til að tjá sig með hreyfingu við frábæra tónlist með fyrsta flokks dönsurum.
Vinsamlegast bókið á netfangið: olof@gardabaer.is. Takið fram nafn á skóla og fjölda nemenda.
Sýningar á verkum barna á Barnamenningarhátíð í Garðabæ:
· Hönnunarsafn Íslands : HEIMURINN HEIMA
Skringilegasta fjölbýli Garðabæjar hefur risið! Heimilin í húsinu voru sköpuð af 4. bekkingum í Garðbæ og nú flytja afar smáir íbúar saman á Pallinn í Hönnunarsafni Íslands.
Nemendurnir unnu íbúðirnar í smiðju í tengslum við sýninguna Hönnunarsafnið sem heimili. Þar voru þau hvött til að hugsa með höndunum og láta sköpunargleðina leika lausum hala.
Krakkarnir settu sig í spor hönnuða og með nýtni og uppfinningasemi bjuggu þau í sameiningu til heimili fyrir skáldaða einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn. Á heimilunum búa meðal annars dansari og geimfari, bakari og gleðigjafi. Öll eiga íbúarnir það sameiginlegt að búa með ævintýralegum hópi gæludýra og safna aragrúa af ýmsu eins og flestir gera reyndar á heimilum sínum.
· Bókasafn Garðabæjar: Músagangur á bókasafninu
Krakkar af leikskólunum Ökrum og Kirkjubóli komu á Bókasafn Garðabæjar á dögunum og bjuggu til mýs úr afskrifuðum bókum. Þau slepptu músunum síðan lausum á bókasafninu og þær má sjá á sýningunni „Músagangur á bókasafninu“ sem opnar þann 19. apríl. Í tengslum við sýninguna verður fjölskyldusmiðja laugardaginn 22. apríl þar sem hægt verður að föndra með afskrifaðar bækur.