• 17.6.2019, 20:00, Kirkjuhvoll, safnaðarheimili Vídalínskirkju

Hátíðartónleikar - Salon Islandus kvartettinn og Hanna Dóra Sturludóttir

  • Salon Islandus kvartettinn

Salon Islandus kvartettinn kemur fram á hátíðartónleikum í Garðabæ 17. júní nk. Tónleikarnir eru haldnir í Kirkjuhvoli , safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ og hefjast kl. 20 um kvöldið.

Salon Islandus kvartettinn kemur fram á hátíðartónleikum í Garðabæ 17. júní nk. Tónleikarnir eru haldnir í Kirkjuhvoli , safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ og hefjast kl. 20 um kvöldið. Á efnisskránni eru vinsæl Vínarlög, aríur, dúettar, valsar og önnur létt tónlist.
Einsöngvari með hljómsveitinni í ár er Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran. Kvartettinn skipa þau Sigrún Eðvaldsdóttir á fiðlu, Sigurður I. Snorrason á klarínettu, Anna Guðný Guðmundsdóttir á píanó og Hávarður Tryggvason á kontrabassa. 

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar

Um flytjendur:

Hanna Dóra Sturludóttir hefur um árabil verið ein af okkar fremstu söngkonum. Hún á að baki glæsilegan feril, bæði á óperusviði og á tónleikapalli víða um heim. Síðastliðin ár hefur hún sungið ýmis hlutverk í sýningum Íslensku óperunnar, til dæmis titilhlutverið í Carmen, Donnu Elviru í Don Giovanni og nú síðast hlutverk móðurinnar í Brothers eftir Daniel Bjarnason. Árið 2014 hlaut Hanna Dóra Íslensku tónlistarverðlaunin og fylgdi þeim nafnbótin „Söngkona ársins“ fyrir túlkun hennar á hlutverki Eboli prinsessu í Don Carlo eftir G.Verdi. 

Hanna Dóra SturludóttirHljómsveitin Salon Islandus hefur starfað síðan í ársbyrjun 2004. Hljómsveitin kemur fram á tónleikum víða um land og hefur hún verið reglulegur gestur á hátíðartónleikum í Garðabæ á 17. júní undanfarin ár. Forverar þessarar átta manna hljómsveitar eru tríó og síðar kvartett sem allt frá níunda áratug síðustu aldar héldu reglulega Vínar- og aðra skemmtitónleika og hafa margir frábærir söngvarar komið fram með hljómsveitunum í gegnum tíðina. Í kvöld teflir hljómsveitin fram upphaflegu kvartettgerðinni. Er gaman að geta þess að Hanna Dóra Sturludóttir var fyrsti einsöngvarinn sem kom fram með Salon Islandus í Garðabæ og víðar á Vínartónleikum árið 2004.

Allir eru velkomnir í Kirkjuhvol, safnaðarheimili Vídalínskirkju, að njóta góðrar tónlistar á þessum hátíðardegi á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis í boði Garðabæjar. Hátíðartónleikarnir eru hluti af 17. júní dagskrá í Garðabæ sem má líka sjá í heild sinni hér á vefnum.