• 20.2.2019, 20:00 - 22:00

Söngtónleikar í sal Tónlistarskólans

Miðvikudagskvöldið 20.febrúar kl. 20:00 munu þær Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópran, Bryndís Guðjónsdóttir, sópran og Hrönn Þráinsdóttir, píanóleikari halda tónleika í sal Tónlistarskóla Garðabæjar.

Miðvikudagskvöldið 20.febrúar kl. 20:00 munu þær Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópran, Bryndís Guðjónsdóttir, sópran og Hrönn Þráinsdóttir, píanóleikari halda tónleika í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Heiðdís Hanna er uppalin í Garðabæ og hóf söngnám sitt í Tónlistarskóla Garðabæjar hjá Guðrúnu Jóhönnu Jónsdóttur árið 2005. Eftir að hafa lokið framhaldsprófi í söng stundaði hún nám á bakkalársstigi við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi í þrjú ár og lauk svo nýverið meistaranámi frá Listaháskóla Íslands í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi með söng sem aðalfag(NAIP).

Heiðdís Hanna hefur komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hafa sigrað í keppninni Ungir einleikarar og árið 2016 þreytti hún frumraun sína á óperusviðinu í hlutverki Zerlinu í uppfærslu Íslensku óperunnar á Don Giovanni eftir Mozart. Heiðdís hefur einnig starfað með rafpönkhljómsveitinni HATARI og kom fram með þeim á Hlustendaverðlaununum 2018. Heiðdís hefur mikinn áhuga á að færa óperutónlist nær hinum almenna hlustanda og að brjóta niður múra sem að virðast stundum vera til staðar þegar kemur að óperu.

Bryndís Guðjónsdóttir er uppalin í Kópavogi og hóf söngnám í Tónlistarskóla Kópavogs hjá Önnu Júlíönu Sveinsdóttur. Hún stundar nú nám á bakkalársstigi við tónlistarháskólann Mozarteum í Salzburg í Austurríki. Bryndís hefur einnig komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hafa sigrað í keppninni Ungir einleikarar.

Á tónleikunum 20.febrúar verður boðið upp á létt og skemmtilegt prógram með aríum og dúettum úr ýmsum áttum. Tónlist sem að allir ættu að geta haft gaman af.

Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér https://www.facebook.com/events/1931596186968303/