Krókur á Garðaholti

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923

  • IMG_0983_psxxx

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Bærinn er í dag með þremur burstum en árið 1923 var miðburst bæjarins byggð og bæjarhúsin þá aðeins baðstofa og eldhús auk lítils skúrs við útidyrnar. Krókur er staðsettur í nágrenni samkomuhússins á Garðaholti.

  • Krókur er opinn almenningi til sýnis á sunnudögum á sumrin (júní - ágúst) frá kl. 12-17.  
  • Ókeypis aðgangur. 
  • Hópar sem vilja skoða Krók geta haft samband við bæjarskrifstofurnar í síma 525 8500. 

Krókur á Facebook

Saga Króks

Um vorið 1934 fékk Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir  ábúð á Króki en maður hennar var Vilmundur Gíslason. Þau hjónin áttu fjögur börn og Guðrún Sveinsdóttir móðir Vilmundar bjó einnig hjá þeim. Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir (kölluð Tobba) var fædd 1. maí árið 1899. Afmælisdagur hennar var alltaf mikill hátíðisdagur hjá fjölskyldunni. Í Króki var búið allt til ársins 1985 þegar Þorbjörg lést.

Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar í Króki gáfu Garðabæ bæjarhúsin í Króki ásamt útihúsum og innbúi árið 1998 með því skilyrði að bærinn yrði endurbyggður. Jón Nordsteien arkitekt stjórnaði endurgerð bæjarins og Einar Hjartarson húsasmíðameistari var fenginn til að vinna verkið. Systurnar Elín og Vilborg Vilmundardætur höfðu umsjón með uppröðun húsmuna. Bærinn er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar.

Fræðsla skólabarna

Stefnt er að því að gefa grunnskólanemendum tækifæri til að nýta Krók í tengslum við fræðslu í skólastarfinu. Skólum sem vilja heimsækja Krók er bent á að hafa samband við menningarfulltrúa Garðabæjar, Ólöfu Breiðfjörð, í síma 820 8550, eða í netfangi olof@gardabaer.is

Vinnustofa fyrir fræðimann/rithöfund

Listamenn geta fengið úthlutaða vinnuaðstöðu í Króki. Sjá reglur um úthlutun vinnuaðstöðu hér fyrir neðan. Umsóknarfrestur fyrir haust 2020 er 18. september. Umsóknir eru rafrænar á íbúavefnum Mínum Garðabæ.   Sjá auglýsingu um úthlutun vinnuaðstöðu hér. 

Reglur um úthlutun vinnuaðstöðu í Króki

Bærinn Krókur er bárujárnsklæddur burstabær á Garðaholti í eigu Garðabæjar. Í Króki er eitt herbergi sem hentar sem vinnuaðstaða fyrir fræðimann eða rithöfund. Í öðrum rýmum hússins eru varðveittir gamlir gripir.

Fræðimaður/rithöfundur hefur afnot af skrifstofuhúsgögnum, net-tengingu og nauðsynlegasta borðbúnaði. Í samningi um afnot af Króki er kveðið á um umgengni, tryggingar o.fl.

  1. Afnot fræðimanns/rithöfundar af húsnæðinu skal vera án endurgjalds að öðru leyti en því að greiða þarf fyrir tölvunotkun og síma.
  2. Að öllu jöfnu skal viðkomandi fræðimaður/rithöfundur, meðan á dvöl í Króki stendur, kynna með einhverjum hætti störf sín.
  3. Vinnuaðstöðunni skal úthlutað 1-3 mánuði í senn. Heimilt er við sérstakar aðstæður að úthluta aðstöðunni til lengri tíma.
  4. Fræðslu- og menningarsvið skal árlega auglýsa eftir umsóknum fræðimanns/rithöfundar um tímabundna vinnuaðstöðu í Króki. Umsóknir skulu lagðar fyrir menningar- og safnanefnd er gerir tillögur til bæjarstjórnar um ráðstöfun vinnuaðstöðunnar hverju sinni.
  5. Menningarfulltrúi skal annast samninga um afnot húsnæðisins og vera tengiliður Garðabæjar við viðkomandi listamann á dvalartíma.