Hugmyndasöfnun 2021
Hugmyndasöfnun Betri Garðabæjar stóð yfir 17. febrúar -8. mars 2021
Hugmyndasöfnun í lýðræðisverkefninu Betri Garðabæ sem nú er haldið í annað sinn gekk vonum framar dagana 17. febrúar – 8. mars sl. Alls söfnuðust hátt í 250 hugmyndir frá íbúum og yfir 1300 einstaklingar skráðu sig inn á hugmyndasöfnunarvefinn þar sem hægt var að setja inn hugmynd, skoða, líka við eða skrifa rök með eða á móti hugmyndum annarra.
Matshópur skipaður starfsmönnum tækni- og umhverfissviðs fór yfir hugmyndirnar, mat þær og leitaði til annarra sviða og ráðgjafa. Hugmyndir voru metnar út frá þeim skilyrðum sem sett voru í upphafi og að lokum stóðu eftir 23 hugmyndir sem stillt var upp á rafrænan kjörseðil.
Hér má sjá úrvinnslu matshóps flokkuð eftir afgreiðslu:
- Hugmyndir í kosningu
- Hugmyndir sambærilegar öðrum sem fara í kosningu Hugmyndir á framkvæmdaáætlun
- Hugmyndir sem samræmast ekki skilyrðum verkefnisins
Ef hugmyndasmiðir óska eftir frekari upplýsingum um sína hugmynd er hægt að senda póst á gardabaer@gardabaer.is.
HUGMYNDASÖFNUNARVEFUR 2021- SMELLIÐ HÉR
Óskað var eftir fjölbreyttum og góðum hugmyndum til að kjósa um í íbúakosningu. Hugmyndirnar geta verið nýframkvæmdir sem m.a. geta eflt hreyfi- og leikmöguleika og haft jákvæð áhrif á nærumhverfið m.a. til útivistar og samveru, bætta lýðheilsu og aðstöðu til leikja- og skemmtunar.
Skilmálar verkefna
- Hugmyndir íbúa að nýframkvæmdum sem hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið.
- Hugmyndir sem hafa áhrif á möguleika til útivistar og samveru, bætta lýðheilsu og aðstöðu til leikja og skemmtunar.
Verkefnin þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að geta átt möguleika á að fara í kosningu:
- Nýtast hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
- Krefjast ekki verulegs rekstrarkostnaðar*
- Kostnaður einstakra verkefna taki ekki of stóran hluta af heildar fjármagni verkefnisins.
- Tillögur samræmist skipulagi og/eða stefnu bæjarins.
- Vera á fullu forræði Garðabæjar og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar aðila s.s. stofnanir eða sveitarfélög.
- Vera í samræmi við lög og reglur.
*Hugmyndir sem krefjast verulegs rekstrarkostnaðar eins og starfsmannahalds eða vöktunar með öryggismyndavélum falla ekki að tilgangi verkefnisins.
Hver hugmynd þurfti að vera framkvæmanleg, skýr og lýsandi, þannig að aðrir ættu auðvelt með átta sig á því sem um var að ræða. Koma þurfti fram um hvað verkefnið snérist og hvar nákvæm staðsetning var. Greinargóð lýsing auðveldar mat og því hvort hún nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu. Starfsmenn geta óskað eftir nánari skýringum um hverja hugmynd. Hugmyndir að framkvæmdum á íþrótta-, sundlaugar- og skólasvæðum þarf að skoða sérstaklega.
Þegar hugmynd er sett inn á hugmyndavefinn þarf fyrst að skrá sig á vefinn og huga að því að heiti hugmyndar, staðsetning og lýsing sé skýr. Með sama hætti er hægt að bæta við rökstuðningi hugmyndar, mynd og myndbandi.
Matshópur
Matshópur er skipaður starfsmönnum tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar með aðkomu annarra sviða bæjarins. Eftir að hugmyndasöfnun lýkur fer matshópur yfir innsendar hugmyndir út frá skilyrðum verkefnisins og leggur fram ákveðinn fjölda hugmynda á kjörseðil þar sem hugmyndirnar eru kostnaðarmetnar. Horft verður til þess að þær hugmyndir sem fara á kjörseðilinn verði dreift landfræðilega jafnt um sveitarfélagið.
Starfsmenn geta óskað eftir nánari skýringum varðandi hverja hugmynd og útfært hugmyndirnar í samvinnu við íbúa. Garðabær áskilur sér rétt til að útfæra hugmyndir íbúa nánar ef þess þarf.
Þær hugmyndir sem eru óframkvæmanlegar eða ef kostnaður einstakra verkefna taka of stóran hluta af heildar fjármagni verkefnisins og sem ekki næst með góðu móti að aðlaga kröfunum í samtali matshóps við hugmyndahöfunda, detta sjálfkrafa út og fara ekki í kosningu.