Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Garðabæjar
24. (2031). fundur
05.07.2022 kl. 08:00 kom bæjarráð Garðabæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Sveinatungu, Garðatorgi.
Fundinn sátu: Björg Fenger formaður, Guðfinnur Sigurvinsson varamaður, Sigríður Hulda Jónsdóttir varamaður, Þorbjörg Þorvaldsdóttir varamaður, Guðlaugur Kristmundsson varamaður, Brynja Dan Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi, Almar Guðmundsson bæjarstjóri, Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Svanhildur Þengilsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Sunna Stefánsdóttir samskipta- og kynningarfulltrúi.

Fundargerð ritaði: Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 
1. 2206361 - Blikanes 16 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi.
Bæjarráð samþykkir afgreiðslu byggingarfulltrúa að leyfa Jóhönnu Bjargey Helgadóttur, kt. 100475-3329, leyfi til að taka í notkun lokuð og óuppfyllt rými og gera breytingar á innra skipulagi núverandi einbýlishúss að Blikanesi 16.
2. 2204180 - Markarflöt 57 - Umsókn um byggingarleyfi.
Bæjarráð samþykkir afgreiðslu byggingarfulltrúa að leyfa Árna Þorvaldssyni, kt. 050784-4019, leyfi til að byggja við núverandi einbýlishús að Markaflöt 47.
3. 2109051 - Opnun tilboða í framkvæmdir við íbúðakjarna við Brekkuás 2.
Eftirfarandi tilboð lögð fram í framkvæmdir við- íbúðakjarna við Brekkuás.

Stéttafélagið ehf. kr. 445.764.310
Húsasmíði ehf. kr. 424.500.000
Gunnar Bjarnason ehf. kr. 390.006.711

Kostnaðaráætlun kr. 407.156.451

Bæjarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda Gunnars Bjarnsonar ehf.. Samþykktin er með fyrirvara um að uppfylltir séu allir skilmálar útboðsins og er bæjarverkfræðingi falin afgreiðsla málsins. Vakin er athygli á að samkvæmt 86. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 þarf að líða 5 daga biðtími frá ákvörðun um töku tilboðs til gerðar samnings. Heimilt er að skjóta ákvörðun bæjarráðs til kærunefndar útboðsmála og er kærufrestur samkvæmt 106. gr. laga um opinber innkaup 20 dagar frá því að kæranda var eða mátti vera kunnugt um ofangreinda ákvörðun.

4. 2202458 - Opnun tilboða í framkvæmdir við 2. áfanga Urriðaholtsskóla.
Eftirfarandi tilboð lögð fram í framkvæmdir við 2. áfanga Urriðaholtsskóla.

ÞG verktakar ehf. kr. 2.837.139.265
GG verk ehf. kr. 2.946.059.436

Kostnaðaráætlun kr. 2.353.551.310

Tilboð barst frá Spartsli og málningu ehf. þar sem eingöngu var boðið í málningarþátt útboðsins og telst tilboðið ógilt.

Bæjarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda ÞG verk ehf. Samþykktin er með fyrirvara um að uppfylltir séu allir skilmálar útboðsins og er bæjarverkfræðingi falin afgreiðsla málsins. Vakin er athygli á að samkvæmt 86. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 þarf að líða 10 daga biðtími frá ákvörðun um töku tilboðs til gerðar samnings. Heimilt er að skjóta ákvörðun bæjarráðs til kærunefndar útboðsmála og er kærufrestur samkvæmt 106. gr. laga um opinber innkaup 20 dagar frá því að kæranda var eða mátti vera kunnugt um ofangreinda ákvörðun.

5. 2201515 - Úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli Rafmagnsþjónustunnar ehf. á rammaútboði Garðabæjar varðand þjónustu rafiðnaðarmanna, dags. 23.06.22.
Í úrskurðarorði kemur fram að útboð Garðabæjar „Rammasamningur. Þjónusta iðnaðarmanna. Raflagnir.“ er fellt úr gildi.

Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjóra.

Guðlaugur Kristmundsson, lagði fram eftirfarandi bókun:

„Viðreisn áréttar mikilvægi þess að vanda til verka við útboð og dreginn verði lærdómur af niðurstöðum þegar útboð eru ekki framkvæmd á réttan hátt. Útboð sem er ólöglegt eða illa ígrundað dregur úr eða eyðir algjörlega þeim ávinningi sem að af útboðum hlýst, ávinningi sem réttilega ætti að sitja í höndum skattgreiðenda í Garðabæ. Til þess að útboð heppnist vel þarf að vera jákvætt viðhorf fyrir útboðum hjá bæjarstjórn Garðabæjar og starfsmönnum bæjarins. Viðreisn telur að vel heppnuð útboð séu heilbrigðismerki fyrir góðum rekstri og áætlanagerð.“
Úrskurður í máli nr. 6-2022.pdf
6. 2207002 - Dómur Félagsdóms varðandi brot á ákvæði kjarasamnings vegna fjarkennslu.
Lagður fram til dómur Félagsdóms í máli Félags grunnskólakennara gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna Hafnarfjarðarbæjar og Akureyrarbæjar.

Í dómsorði kemur fram að brotið hafi verið gegn grein 1.6.3. í kjarasamningi með því að neita að greiða kennurum við Lundaskóla á Akureyri sérstakt álag vegna fjarkennslu samkvæmt greininni.

Í dómnum er fallist á að Lækjarskóla í Hafnarfirði hafi verið heimilt að gera tímabundna breytingu á starfskyldum kennara vegna neyðarástands enda var ekki um aukningu að ræða heldur það að vinnustundir dreifðust á fimm daga í stað fjögurra.

Bæjarráð vísar dómi Félagsdóms til nánari skoðunar fræðslu- og menningarsviðs og mannauðs- og kjaradeildar.
Dómur Félagsdóms - fjarkennsla.pdf
7. 2207011 - Tillaga um samstarf við Samtökin 78.
Lögð fram eftirfarandi tillaga sem allir bæjarráðsfulltrúar standa að.

„Bæjarráð Garðabæjar samþykkir að fela fræðslu- og menningarsviði að ganga til viðræðna við Samtökin ’78 um samstarfssamning, með það fyrir augum að stórefla hinsegin fræðslu og meðvitund um hinsegin málefni í sveitarfélaginu en um leið að styðja við það fræðslustarf um hinsegin málefni sem nú þegar er unnið á vinnustöðum og skólum Garðabæjar. Jafnframt verði horft til gildandi jafnréttisstefnu bæjarins og metið hvort og þá að hvaða leyti hún geti ýtt betur undir fjölbreytileika og styrkt stöðu hinsegin fólks og annarra hópa sem geta átt undir högg að sækja stöðu sinnar vegna.“

Greinargerð
Garðabær stendur með hinsegin fólki og baráttu þeirra fyrir mannréttindum. Í Garðabæ tilheyrum við öll og það er okkur, kjörnum fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn Garðabæjar, mikilvægt að sveitarfélagið sýni stuðning sinn í verki. Þess vegna leggjum við til að gengið verði til viðræðna við Samtökin ’78 - félag hinsegin fólks á Íslandi, sem halda úti öflugu og faglegu fræðslustarfi og ráðgjöf, um samstarfssamning. Það er samfélaginu öllu mikilvægt að mannréttindi og virðing fyrir fjölbreytileika mannlífsins sé í hávegum höfð.
Garðabær er barnvænt sveitarfélag og vinnur að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Aukin meðvitund um hinsegin málefni í sveitarfélaginu er mikilvægur þáttur í þeirri vinnu.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Í tilefni af samþykkt tillögunnar munu bæjarráðsfulltrúar að loknum fundi koma að endurmálun regnbogafánans við inngang Garðatorgs 7.
8. 2207016 - Bréf Stúdentaráðs Háskóla Íslands varðandi málefni stúdenta, dags. 28.06.22.
Lagt fram bréf Stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem vakin er athygli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á áherslum á málefnum stúdenta varðandi umhverfis- og samgöngumál og húsnæðismál.
Erindi til nýkjörinna sveitarstjórnarfulltrúa_.pdf
9. 2102111 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Víðiholt (íbúðarbyggð) á Álftanesi.
Lögð fram tillaga skipulagsnefndar um deiliskipulag íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanes. Tillagan var auglýst 28. desember 2021 og frestur til að gera athugasemdir var til 27. janúar 2022. Boðaður var kynningarfundur í Álftanesskóla 13. janúar 2022. Vegna aðstæðna í samfélaginu var kynningarfundi frestað til 4. febrúar 2022 og athugasemdarfrestur framlengdur til 16. febrúar 2022. Á fundi skipulagsnefndar sem haldinn var 17. febrúar 2022 var tillagan tekin fyrir að lokinni auglýsingu. Athugasemdum og umsögnum sem höfðu borist var vísað til úrvinnslu hjá tækni- og umhverfissviði.
Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 24. mars 2022 og samþykkt með breytingum sem fela í sér að íbúðareiningum fækkar úr 75 í 74 þar sem raðhús næst Lyngholti er fellt út. Byggingarreitir fjölbýlishúsa styttast um 4,5 m í suðurenda. Gert verður ráð fyrir 2 m breiðum stíg milli lóða í Asparholti og Víðiholti alla leið frá Breiðumýri að göngustíg milli Lyngholts og Asparholts. Hámarkshæð raðhúsa lækkar úr 6,5 í 6,3. Hámarkshæð fjölbýlishúss lækkar úr 10 m í 9,1. Hámarkshæð lyftuhúss verður 10 m. Leiksvæði norðan við Víðiholt er fellt út og bílastæðum er fjölgað.

Með breytingum á tillögunni er komið á móts við athugasemdir sem fram komu frá íbúum í athugasemdarfresti.

Bæjarráð telur mjög mikilvægt að góð sátt verði meðal íbúa á Álftanesi um uppbyggingu á íbúðarbyggð við Víðiholt og samþykkir að vísa tillögunni að nýju til skipulagsnefndar til úrvinnslu. Leitast skal við að móta tillögu með það að leiðarljósi að hún falli vel að nærumhverfi þeirrar íbúðarbyggðar sem þegar er risin í nágrenninu og tekið sé en betur tillit til þeirra athugasemda sem liggja fyrir.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:00. 
Til baka Prenta

Fylgigögn eru birt með fundargerðum:

  • bæjarráðs, frá og með 12. fundi 2015
  • skólanefndar grunnskóla frá og með 14. fundi 2015
  • mannréttinda- og forvarnanefndar frá og með 16. fundi 2015
  • umhverfisnefndar frá og með 18. fundi 2015
  • leikskólanefndar frá og með 15. fundi 2015
  • menningar- og safnanefndar frá og með 12. fundi 2015
  • íþrótta- og tómstundaráðs frá og með 14. fundi 2015

Reglur um birtingu gagna með fundargerðum (sjá reglur undir stjórnsýslu).